fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fréttir

Listin að vera óþolandi

Svarthöfði
Laugardaginn 9. janúar 2021 17:40

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Svarthöfði lá makindalega uppi í sófa í vikunni þegar annað afkvæmið ákvað að raska ró hans. Afkvæmið var að hefja skólagöngu í nýjum skóla og kom á daginn að því var eitthvað umhugað um að koma þar vel fyrir.

„Pabbi, hvernig fæ ég krakkana til að kunna vel við mig og hvernig kemst ég hjá því að vera óþolandi?“ Svarthöfði var ekki lengi að blása út brjóstkassann og opna munninn, reiðubúinn að deila visku sinni með næstu kynslóðinni en gerði sér þá skyndilega ljóst að hann átti engin góð ráð til að þessu sinni. Svarthöfði hefur aldrei lagt það á sig að reyna að vera næs.

Hann hefur heldur treyst á þá tölfræði að svo lengi sem hann geti haldið uppi samræðum við tvo af hverjum tíu sem hann rekst á á lífsleiðinni þá hafi hann enga ástæðu til taka til í mannasiðum sínum, þó svo átta af hverjum tíu séu lítt hrifnir.

En Svarthöfði gefst ekki upp svo auðveldlega. Fartölvan var rifin upp í snatri og leitað á náðir Gúggels hins vitra um hvað afkvæmið gæti gert til að létta sér lífið og lágmarka líkurnar á félagslegri útskúfun.

Gúggel brást ekki frekar en fyrri daginn: Hvernig á að fá fólki til að líka við þig, listar yfir óþolandi eiginleika og alls konar lífsreglur. Ekki tyggja með opinn munninn, ekki hlusta á of háa tónlist, ekki grípa fram í, ekki bölva í umferðinni, ekki klára mjólkina og setja fernuna aftur inn í ísskáp, ekki slúðra, ekki kvarta, ekki tuða, ekki nöldra og svo endalaust framvegis.

Afkvæmið og Svarthöfði sátu sveitt við tímunum saman til að reyna að komast til botns í þessu. Afkvæmið tók niður glósur af svo miklum móð að blýanturinn hafði rýrnað um rúmlega helming.

Fjöldi mismunandi greina og úttekta benti til þess að helsta leiðin til að vinna hjörtu viðmælenda sinna væri að segja sem minnst. Alls ekki tala um sjálfan sig heldur fá viðmælandann heldur til að tala um sjálfan sig. Eins þykir mikilvægt að vera kurteis og jákvæður og snyrtilegur. Öll ráðin voru á þessa leið – hlusta – brosa – þegja.

Svarthöfði var farinn að sjá fyrir sér hryllinginn ef tvær manneskjur sem væru útlærðar í listinni að vera viðkunnanlegur myndu hittast. Þær sætu þá fastar til eilífðarnóns að reyna að beina talinu að hinni manneskjunni sem umsvifalaust beindi því aftur til baka.

Alveg eins og kurteisustu manneskjur heims mættust eitt sinn í dyragætt og létu þar báðar lífið. Þær stóð og sögðu „nei, þú fyrst“ þar til þær létu lífið úr vökvaskorti.

Afkvæmið virtist bugað eftir þessa heimildavinnu. Að lokum fleygði það frá sér glósubókinni og tilkynnti þreytulega: „Það er eiginlega meira óþolandi að reyna að vera ekki óþolandi heldur en að vera bara óþolandi.“ Svarthöfði táraðist lítillega. Greinilega kippir afkvæminu í kynið. Það er nefnilega miklu betra að vera bara maður sjálfur, jafnvel þó sjálfið sé óviðkunnanlegt, jafnvel óþolandi á tímum, því það gagnstæða krefst greinilega meiraprófs í alls konar mannkostum sem hvorki Svarthöfði né afkvæmið búa yfir af eðlisfari.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu

Jóhann hlaut dóm í héraði – Leigði ólöglega brunagildru í Þverholti til búsetu og stofnaði lífum í hættu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar

Ólafur Þ. Harðarson: Stjórnarflokkarnir eru að koma sér upp þægilegum merkimiðum þegar styttist í kosningar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Næsta skref – byltingakenndar breytingar

Næsta skref – byltingakenndar breytingar