Nýjustu fréttir af horfum í öflun bóluefnis vekja mörgum ugg í brjósti. Efnahagsspár fyrir næsta ár hafa allar tekið mið af því að ferðaþjónustan nái viðspyrnu næsta sumar. Fyrstu fregnir af öflun bóluefnis bentu til þess að hægt yrði að ljúka bólusetningum fyrir mitt ár. Nú bendir flest til þess að bólusetningum fyrir Covid-19 verði ekki lokið hér fyrr en í árslok. Það virðist fela í sér samkomutakmarkanir út næsta ár.
DV bar þessa stöðu undir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar. Jóhannes er ekki stóryrtur varðandi þetta og treystir því að ferðaþjónustan fái fyrirsjáanleika í sóttvarnaaðgerðum frá ríkisstjórninni í nýársgjöf:
„Við horfum fyrst og fremst til þess að stjórnvöld hafa sagst munu gefa út skýrar línur varðandi fyrirsjáanleika í sóttvörnum á landamærum í síðasta lagi þann 15. janúar. Það sem skiptir máli er að þar verði kynntar aðgerðir sem ferðaþjónustan getur unnið með og sem tekið geti gildi sem fyrst fyrir vorið.“
Aðspurður segist Jóhannes treysta því að staðið verði við þetta.