fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Fréttir

„Þetta var óásættanlegt klúður“ – Kári Stef um áhyggjur sínar af ástandinu

Heimir Hannesson
Föstudaginn 13. nóvember 2020 11:06

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í fréttum vikunnar kom fram að unnið væri að uppbyggingu dreifikerfis um heim allan fyrir væntanlegt bóluefni við SARS-CoV-19 veirunni sem veldur Covid-19. Framleiðandinn, Pfizer, í samvinnu við BioNTech, sagði að nú væri verið að reisa risavaxnar frystigeymslur í nágrenni við næsta flugvöll við verksmiðju sína þar sem bóluefnið verður framleitt. Þaðan verður það flutt í flugvélum um heim allan, meðal annars til Íslands, í sérstökum kæliboxum við -80°C.

Blaðamaður DV tók Kára Stefánsson á tal um hvað tæki við eftir að bóluefnið lendir hér á landi. Eins og von var á var Kári með svörin á reiðu. „RNA er ekki stabíl sameind,“ útskýrir Kári, „og þarfnast því þessarar miklu kælingar. En þetta er ekkert óvanalegt og það er fullt af efnum sem íslenskir lífvísindamenn eru vanir að meðhöndla sem þurfa þessa sömu meðferð. Þetta er ekkert nýstárlegt.“ Aðspurður hvort ekki sé þó nýstárlegt að þurfa að takast á við það á þessum skala svarar Kári með ákveðnum tón: „Það er allt nýstárlegt á þessum skala. Þetta verður áskorun en við sem þjóð tökumst á við hana eins og áskoranir hingað til. Svo maður sletti gullaldarmálinu: It will be a fucking pain in the neck,“ segir Kári, en hefur tröllatrú á að þetta takist með lítilli fyrirhöfn.

Kári segir að Íslensk erfðagreining komi ekki að dreifingarmálum bóluefnisins. „Við erum bara lítið einkafyrirtæki í Vatnsmýrinni,“ segir hann, og bendir á að dreifing á bóluefni sé kjörið verkefni fyrir hið opinbera. „Ég hef áhyggjur af mörgu, en ég hef ekki áhyggjur af þessu.“

En af hverju hefur Kári Stefánsson áhyggjur þá?

„Ja, ég hef áhyggjur af krökkunum sem komast ekki í skóla. Ég hef áhyggjur af unglingunum sem fá ekki tækifæri til að læra að vera menn innan um aðra menn. Ég hef áhyggjur af kynslóðunum sem eiga að taka við af okkar landinu.“

Hópsýking á Landakoti „óásættanlegt klúður“

Seinna í dag verður skýrslan um hópsmitið á Landakoti kynnt. Fyrir liggur að hópsýkingin hefur kostað 12 mannslíf og að rekja megi 200 smit til hennar. Kári hefur ekki legið á skoðunum sínum um sóttvarnaráðstafanir hins opinbera og er iðulega á þeim buxunum að ganga eigi lengra en gert hefur verið undanfarið. Aðspurður hvort flatar aðgerðir, jafnt á alla þjóðfélagshópa, hafi verið rétt aðferð segist Kári vera vissulega á þeirri skoðun, en að hópsmitið á Landakoti sé óásættanlegt klúður. Þegar blaðamaður DV benti Kára á að skýrslan um hópsmitið væri ekki enn komin út svaraði hann: „Verkefnið var að verja þá sem viðkvæmastir voru. Það tókst ekki. Flóknara er þetta ekki.“

Kári segist þó ekki vera að benda fingri á einn eða annan. „Við eigum ekki að segja að þetta sé í lagi. Við verðum að segja: „Þetta var ekki í lagi.“ Menn verða að eigna sér þetta. Engu að síður hafa starfsmenn Landspítala og spítalinn allur staðið sig alveg ævintýralega vel, en mistök eiga sér stað út um allt og þessi tilteknu mistök voru einkar alvarleg.“

Markmiðið ætti að vera 60%

Í upphafi faraldursins kom fram að 60% væri hlutfallið sem faraldsfræðin segja að þurfi að byggja upp ónæmi til þess að hægt sé að tala um „hjarðónæmi.“ Aðspurður hvort það þýði að bólusetja þurfi 60% þjóðarinnar svarar Kári: „Það er enginn möguleiki að ákveða slíkt og erfitt að segja til um lágmark, en 60% ætti að vera markmiðið, já.“

Í byrjun vikunnar kom fram að bóluefni Pfizer sem áður var vikið að veitti um 90% vörn við smiti. Fréttirnar höfðu mikil og góð áhrif á heiminn og vöktu gríðarlega athygli. Olíuverð og hlutabréf í flugfélögum ruku upp og jákvæðni jókst áþreifanlega. Aðspurður hvort fylgni væri á milli þessarar jákvæðni í samfélaginu og jákvæðni Kára Stefánssonar svarar hann: „Já. Ég er mjög vongóður um það að við komum út úr þessu sem þéttari hópur en við fórum inn í þetta. Við höfum tekist á við þennan ósýnilega óvin saman og slagurinn þjappað okkur nær hvoru öðru.“ Eins bendir Kári á að íslenskri þjóð hefur tekist að forðast sundrungina sem ástandið hefur skapað víða um heim. Vísar þar Kári einna helst til Bandaríkjanna.

„Ég eyddi 20 árum í Bandaríkjunum og þykir vænt um þá þjóð. Ég á þar dóttur og þrjá dóttursyni og hef því miklar áhyggjur af ástandinu þar og af þeim.“

Í viðtali DV við Kára frá því 2. október lýsti hann Donald Trump sem óþokka sem gott væri að losna við. Trump hafði þá nýlega greinst með Covid-19, og sagði Kári við það tilefni: „Ég vona heitt og innilega að Trump lifi – svo hann geti tapað.“ Nú er ljóst, að Kári fékk þá ósk uppfyllta.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Segir að valdastéttin þoli ekki uppgang Höllu Hrundar – „Íslenskur almenningur sér í gegnum þetta“

Segir að valdastéttin þoli ekki uppgang Höllu Hrundar – „Íslenskur almenningur sér í gegnum þetta“
Fréttir
Í gær

Heiðar tjáir sig um Kveiksmálið og segir engin annarleg sjónarmið búa að baki ákvörðuninni

Heiðar tjáir sig um Kveiksmálið og segir engin annarleg sjónarmið búa að baki ákvörðuninni
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Framsóknarmenn styðji ÁTVR og forvarnir – „Atlaga Sjálfstæðisflokksins að ÁTVR er ævintýraleg“

Framsóknarmenn styðji ÁTVR og forvarnir – „Atlaga Sjálfstæðisflokksins að ÁTVR er ævintýraleg“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ásdís Rán svaraði Heimi Má – „Ekki segja að ég geti það ekki, ég er hér núna“

Ásdís Rán svaraði Heimi Má – „Ekki segja að ég geti það ekki, ég er hér núna“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Íslenska lögreglan tók niður síðu hjá rafmyntasvindlurum – Gætu fengið 20 ára fangelsi

Íslenska lögreglan tók niður síðu hjá rafmyntasvindlurum – Gætu fengið 20 ára fangelsi