Virgil Van Dijk, leikmaður Liverpool, þarf að fara í aðgerð á hné vegna meiðsla sem hann hlaut í leik gegn Everton í ensku úrvalsdeildinni í um helgina. Þetta staðfestir Liverpool á heimasíðu sinni.
Van Dijk skaddaði liðbönd í hné eftir tæklingu frá Jordan Pickford, markverði Everton en mikil reiði er í herbúðum Liverpool með þessa tæklingu. Ekki er ljóst á þessari stundu hversu lengi Van Dijk verður frá en það gæti verið töluvert langur tími og líklega spilar hann ekki meira á þessu tímabili.
Jamie Carragher fyrrum varnarmaður Liverpool og sérfræðingur Sky Sports óttast að fjarvera Van Dijk verði til þess að erfitt verður fyrir Liverpool að vinna ensku úrvalsdeildina í ár.
„Stóra spurningin er hvort Liverpool geti unnið deildina án Van Dijk? Öll lið sem vinna deildina eru með þrjá til fjóra leikmenn sem er ekki hægt að fylla skarðið hjá. Það breytir engu hversu góður stjórinn er eða hversu stór hópurinn er,“ sagði Carragher.
„Þetta gerir baráttuna um titilinn mjög áhugaverða, ég taldi Liverpool vera besta liðið fyrir mót. Nú þegar líklegast er að Van Dijk spili ekki meira á tímabilinu þá er þetta allt opið.“
„Liverpool verður að fara á markaðinn og kaupa í janúar, ekki bara vegna meiðsla Van Djik. Liðið var þunnskipað í þessari stöðu fyrir, Lovren fór í sumar og aðrir leikmenn í þessari stöðu eru mikið meiddir,“ sagði Carragher um þá Joe Gomez og Joel Matip.
„Liverpool fer strax að skoða hvað sé í boði. Liverpool verður að vera tilbúið í janúar að fá einhvern, það gæti skipt öllu máli.“