fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024

Samhugur og samvinna: „Það er ótrúlegt hvernig þjóðarhjartað slær þegar á reynir“

Aníta Estíva Harðardóttir
Mánudaginn 25. desember 2017 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ellen Bára Valgerðardóttir er ljósmóðir á meðgöngu- og sængurlegudeild Landspítalans ásamt því að sinna ljósmóðurstarfi í heimaþjónustu þar sem hún hjálpar fjölskyldum í sængurlegu eftir að heim er komið.

Í viðtali við DV greinir Ellen frá því að þær ljósmæður sem sinna fjölskyldum í heimaþjónustu séu farnar að upplifa það í auknum mæli að sinna fólki sem hefur lítið sem ekkert á milli handanna.

Heldur hér á nýfæddu barnabarni sínu.
Ellen Bára Heldur hér á nýfæddu barnabarni sínu.

„Þannig var það fyrir stuttu að ég sinnti þannig fjölskyldu sem var af erlendu bergi brotin og átti fáa að hér á landi. Þau bjuggu mjög þröngt og áttu lítið sem ekkert fyrir barnið sitt, sem var þeirra fyrsta barn. Það eina sem þau áttu var gamall baðbali og lítið magn af fötum,“ segir Ellen.

Ellen Bára spurði þau hvort þau vildu að hún athugaði hvort hún gæti útvegað eitthvert dót og fatnað fyrir þau og þáðu þau það með þökkum.

Í kjölfarið setti Ellen auglýsingu á sölusíðu fyrir barnavörur á Facebook og bað fólk að athuga hvort það gæti mögulega lumað á einhverju í geymslu sinni sem að það gæti séð af fyrir fjölskylduna.

„Viðbrögðin létu sko ekki á sér standa. Ég hef ekki tölu á því hvað ég fékk mikið af skilaboðum frá fólki sem vildi endilega leggja hönd á plóg með hvers kyns framlögum. Á einum sólarhring var ég komin með mikið meira en nóg og fólk hélt áfram að senda mér skilaboð.“

Fólk úr öllum áttum vildi hjálpa hjónunum og safnaðist meira en nóg.
Hluti af gjöfunum Fólk úr öllum áttum vildi hjálpa hjónunum og safnaðist meira en nóg.

Ellen fékk bæði notuð, vel með farin föt og glæný, alveg ónotuð föt. Það voru ekki bara einstaklingar sem höfðu samband við Ellen heldur höfðu einnig fyrirtæki samband við hana og gáfu henni nýjan fatnað fyrir barnið en einnig fékk hún fallegt og lítið notað rimlarúm með glænýrri dýnu, leikföng, ömmustóla og peningaframlög.

„Ég keypti það sem lofað var fyrir peningana og gat þar að auki keypt allt nýtt í rúmið, sæng, rúmföt og lök.“

Sumar gjafirnar fékk Ellen sendar heim að dyrum en aðrar sótti hún sjálf um allt höfuðborgarsvæðið og eyddi hún tveimur dögum í að keyra um og sækja þær.

Ellen Bára fékk nánast ónotað rúm fyrir barnið og gat þar að auki keypt nýja sæng og sængurföt fyrir peningana sem söfnuðust.
Nánast ónotað rúm Ellen Bára fékk nánast ónotað rúm fyrir barnið og gat þar að auki keypt nýja sæng og sængurföt fyrir peningana sem söfnuðust.

„Ein fjölskyldan fór og keypti ýmislegt fyrir fjölskylduna sem hún vissi að ný fjölskylda þyrfti að eiga, eins og bleyjur, blautþurrkur, snuð, pela, bindi, mjólk og fleira.“

Einnig kom kona til Ellenar með áttræða móður sína með sér sem vildi endilega gefa henni fullan poka af heimferðasettum, peysum, sokkum og vettlingum sem hún hafði prjónað og bað Ellen að koma í góðar hendur.

„Ég upplifði líka, að það eru þeir sem eru ekki ríkastir sem gáfu mest. Þeir sem þekkja það af eigin raun kannski, hvað það er að þurfa að skrimta.“

Ellen átti engan veginn von á þessum frábæru viðbrögðum og að lokum missti hún tölu á hvað hún var komin með mikið af hlutum fyrir fjölskylduna.

„Ég var komin með allt of mikið fyrir þessa einu fjölskyldu en það skipti jú engu máli því ég gat gefið tveimur öðrum fjölskyldum, sem aðrar ljósmæður voru með í heimaþjónustu, hluta af því sem að ég hafði fengið og annað gat ég tekið heim til mín, þvegið og fór svo með niður á meðgöngu- og sængurlegudeild.“

Ellen Bára tók fatnaðinn heim, þvoði hann og hjálpaði í kjölfarið tveimur öðrum fjölskyldum.
Gat aðstoðað fleiri fjölskyldur Ellen Bára tók fatnaðinn heim, þvoði hann og hjálpaði í kjölfarið tveimur öðrum fjölskyldum.

Ellen segir að á sængurlegudeild reyni ljósmæðurnar alltaf að eiga einhvern lager af fötum og öðrum nytsamlegum hlutum til að gefa fólki sem er í þessum sömu aðstæðum.

„Það skapaðist einhver umræða, annars staðar í netheimum, um að fæðingargangur og meðgöngu- og sængurlegudeild taki alltaf við svona sendingum, en það er alls ekki þannig. Við höfum hvorki aðstöðu né möguleika á að taka við slíku.“

Þrátt fyrir að hafa tekið á móti framlögum persónulega og séð um að þrífa og koma áleiðis þá hvetur Ellen fólk til þess að finna félagasamtök líkt og Mæðrastyrksnefnd sem hafi aðstöðu til þess að taka við flíkum og öðru dóti sem jafnvel liggur ónotað niðri í geymslu.

„Það er ótrúlegt hvernig þjóðarhjartað slær þegar á reynir. Ég hefði gert þetta fyrir hvaða fjölskyldu sem er, hvort sem hún væri íslensk eða erlend, þótt þetta hafi verið mikil vinna. Ég myndi hiklaust gera þetta aftur. En ég og samstarfskonur mínar getum ekki hjálpað öllum, og miðað við viðbrögð fólks, og góðmennsku, þá langar mig að hvetja fólk til að hugsa til þess sem það á í geymslunni sinni og er ekki að nota.“

Ellen segist hafa verið virkilega klökk yfir góðmennsku fólks og það hafi litla fjölskyldan einnig verið.

„Það var ólýsanlegt að fara með þetta til þeirra og upplifa gleðina með þeim, geta sagt þeim söguna og huginn á bak við hverja gjöf. Enn og aftur upplifði ég að sælla er að gefa en að þiggja.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 klukkutímum

Klípan sem allir Íslendingar lenda í – Á að gefa þjórfé eða ekki?

Klípan sem allir Íslendingar lenda í – Á að gefa þjórfé eða ekki?
433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Stjarnan tjáir sig eftir ótrúlega umfjöllun blaðamanns: Hótar lögsókn og ásakar hann um lygar – ,,Hef aldrei og mun aldrei gera þessa hluti“

Stjarnan tjáir sig eftir ótrúlega umfjöllun blaðamanns: Hótar lögsókn og ásakar hann um lygar – ,,Hef aldrei og mun aldrei gera þessa hluti“
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Conte kominn með nýtt verkefni – Mun gera þriggja ára samning

Conte kominn með nýtt verkefni – Mun gera þriggja ára samning
Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Engar mennskar leifar hafa fundist í flaki Titanic – Hvað varð um líkin?

Engar mennskar leifar hafa fundist í flaki Titanic – Hvað varð um líkin?
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Sambandið hangir á bláþræði eftir framhjáhaldið: Stórstjarnan gæti fengið óþarfa athygli í sumar – ,,Hefur áhrif á mig á börnin“

Sambandið hangir á bláþræði eftir framhjáhaldið: Stórstjarnan gæti fengið óþarfa athygli í sumar – ,,Hefur áhrif á mig á börnin“
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Messi minnir verulega á sig – Var stórkostlegur í nótt

Messi minnir verulega á sig – Var stórkostlegur í nótt