Tveir formenn Framsóknarfélaga, Sveinn Hjörtur Guðfinnsson formaður Framsóknarfélags Reykjavíkur og Þorgrímur Sigmundsson formaður Framsóknarfélags Þingeyinga hefur ákveðið að kveðja Framsóknarflokkinn. Báðir eru miklir stuðningsmenn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar fyrrverandi formanns. Ákvörðun Sigmundar Davíðs hefur vakið mikla athygli og óljóst er hverjir koma til með að slást í hópinn með Sigmundi og bjóða sig fram fyrir nýju hreyfinguna, sem enn hefur opinberlega ekki fengið nafn.
Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins sagði á Fésbók í kvöld að það væri alltaf eftirsjá af fólki sem kjósi að yfirgefa flokkinn en að ákvörðun Sigmundar ætti ekki að koma á óvart eftir þá atburðarás sem hefur átt sér stað síðastliðið ár og það sé slæmt að ekki hafi gróið um heilt milli hans og Sigmundar eftir formannskjörið í Framsóknarflokknum í fyrra.
Í yfirlýsingu sem Sveinn Hjörtur sendi frá sér fyrir stundu kemur ekki fram hvort hann ætli sér að slást í lið með Sigmundi Davíð og nýja framboðinu hans. Sveinn Hjörtur hefur sinnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Framsóknarflokksins í gengum árin og stöðu formanns Framsóknarfélags Reykjavíkur síðastliðin tvö ár. Hann segir að undanfarið hafi hann orðið vitni af því að lýðræðislegar reglur og vinnubrögð séu ekki virt sem og að siðareglur flokksins hafi verið brotnar:
Ég hef orðið fyrir persónulegum hótunum í minn garð, og fengið minn skerf af duldun hótunum frammámanna og trúnaðarmanna flokksins. Menn hafa leyft sér að hóta með ýmsum hætti, sem ég tel ekki rétt að fara nánar út í á þessum tímapunkti.
Þorgrímur lýsir yfir stuðningi við nýtt framboð Sigmundar Davíðs:
Nú er ljóst að einn mesti leiðtogi sem Framsóknarflokkurinn hefur haft á að skipa til ára tuga hefur tilkynnt að hann hyggist yfirgefa flokkinn og skyldi kannski engan undra eftir það sem á undan er gengið. Þrátt fyrir að hafa rifið flokkinn upp úr bæði lægð og stöðnun og leitt hann til mikilla sigra, bæði í kosningum og í viðureign við hið alþjóðlega fjármálakerfi hefur flokkseigendafélagið aldrei tekið hann í sátt. Enda tók hann ekki við skipunum og lét ekki stjórnast af einhverjum þeim hagsmunum sem þar kunna að leynast.