„Ég ætla að leggja það til við forsætisráðherra að refsing þín fyrir þessar áætlanir Áslaug Arna verði sú að þú sért skikkuð til þess að vinna eina viku á Vogi, sitja þar fundi og anda að þér angistinni hyldjúpu sem fylgir þeim sem eru að takast á við alvarlegan alkóhólisma og aðra fíknisjúkdóma,“
segir í niðurlaginu í opinni grein Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, á vef Fréttablaðsins í dag, til Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra, hvar hann gagnrýnir hana harðlega vegna frumvarps hennar um að leyfa sölu áfengis í netverslun.
Kári segir að með frumvarpinu sé Áslaug að fremja alvarleg embættisafglöp sem séu jafnvel glæpsamleg, nái það fram að ganga:
„Í stað þess að gegna skyldum þínum hyggstu nýta þér embættið sem fylgja þessar skyldur til þess að auka líkur á alvarlegum umferðarslysum, ofbeldisglæpum og heimilisofbeldi. Þetta eru mistök sem ættu að flokkast sem alvarleg embættisafglöp, nema þetta sé einfaldlega glæpur. Það samrýmist engan vegin embætti dómsmálaráðherra að leggja fram frumvörp til laga sem auka líkur á því að lög séu brotin. Þess vegna verður þú annað hvort að hætta við frumvörpin eða finna þér nýja vinnu.“
Kári gerir ungan aldur Áslaugar að umfjöllunarefni og sakar hana um reynsluleysi:
„Ungdómnum fylgir hins vegar fleira en ferskleiki og nýjar hugmyndir og þar á meðal er reynsluleysi og reynsluleysið getur af sér mistök. Og þótt ungdómurinn hafi ekki einkarétt á mistökum er hann hann býsna frekur til þeirra. Ég held til dæmis að það séu mjög alvarleg mistök af dómsmálaráðherra að leggjast í víking til þess að reyna að auka aðgengi að áfengi í landinu. Það vill svo til að það er nokkuð línulegt samband milli aðgengis að áfengi og neyslu þess, því auðveldara aðgengi þeim mun meiri neysla. Því meiri neysla áfengis þeim mun meira af öllum þeim vandamálum sem fylgja henni,“
segir Kári og bætir við:
„Þú ert svo ung að þú hefur sjálfsagt ekki orðið vitni að því hvernig áfengi hefur tilhneigingu til þess að leysa upp fjölskyldur og skilja börn eftir lömuð af sorg af því þau hafa ekki hugmynd um hvað er að gerast.“
Kári segir að frumvarp Áslaugar gangi þvert gegn hlutverki ráðuneytis hennar, sem sé að stemma stigu við ofbeldisglæpum, umferðarslysum og heimilisofbeldi. Nái frumvarp Áslaugar fram að ganga, muni það auka tíðni þessa alls, auk þess að auka kolefnisfótspor mannsins:
„Ég hef velt því töluvert fyrir mér hvernig þú hafir komist að þeirri niðurstöðu að netsala á áfengi myndi minnka kolefnisspor og fæ ekki betur séð en að þú reiknir með því að landinn muni drekka meira og þar af leiðandi keyra minna, nema það sé skoðun ungliða Sjálfstæðisflokksins að það hljótist ekkert kolefnisspor af því að keyra fullur?“
Sjá einnig: Áfengisverð allt að 68% ódýrara í Costco en Vínbúðunum – ÁTVR sagt fara á hausinn með nýju frumvarpi