Ísland tapaði stórt gegn Póllandi á EM í körfubolta sem haldið er í Finnlandi þessa dagana, 61:91. Liðið tapaði líka fyrsta leiknum í mótinu, gegn Grikklandi, með 30 stiga mun. Fyrirfram var talið að Ísland ætti mesta möguleika á að leggja lið Póllands að velli og Íslendingar byrjuðu leikinn í dag mjög vel og leiddu fyrstu mínúturnar. En Pólverjar náðu brátt undirtökunum, sigu fram úr og munurinn jókst jafnt og þétt. Olli það miklum vonbrigðum að þessi leikur skyldi ekki verða tvísýnni.
Íslensku leikmennirnir hittu mjög illa á körfuna og flæðið í sóknarleiknum var ekki gott. Stigahæsti maður liðsins í leiknum, Hörður Axel Vilhjálmsson sem skoraði 16 stig, sagði í viðtali við RÚV eftir leikinn:
„Við hittum bara mjög illa og ef við hittum illa að þá eigum við ekki breik í þessi lið hérna. Við verðum bara að fara að hitta betur. Það er aðal ástæðan fyrir því að við töpuðum þessum leik og þegar þú hittir illa er erfiðara að peppa sig endalaust aftur í vörn. Við verðum að taka okkur saman og hitta úr þessum skotum af því að við erum að fá öll skot sem að við viljum.“