Davíð Oddsson ritstjóri Morgunblaðsins vill vita hvort þeir sem slitu ríkisstjórnarsamstarfinu og æstu sig muni nú biðjast afsökunar á ósköpunum. Í Staksteinum Morgunblaðsins í dag, þar sem Davíð heldur öllum líkindum á penna, er spurt í ljósi þess að umboðsmaður Alþingis komst að þeirri niðurstöðu í gær að Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra hafi ekki brotið reglur um trúnað með því að segja Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra frá því í lok júlí síðastliðnum að faðir Bjarna hefði veitt Hjalta Sigurjóni Haukssyni, dæmdum barnaníðing, umsögn vegna umsóknar Hjalta um uppreist æru.
Nefndarfundir í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ætla að verða örlagaríkir fyrir Bjarta framtíð og Viðreisn. Á þriðjudag mætti dómsmálaráðherra fyrir nefndina og þá sýndu svör ráðherrans og viðbrögð nefndarmanna að næturbrölt þessara flokka í liðinni viku var fullkomlega tilefnislaust,
segir Davíð. Umboðsmaður hafi greint frá því að ekkert tilefni væri til að athuga embættisfærslur Sigríðar, sem vinstrimenn hafa hamast yfir. Spyr Davíð þá eftirfarandi spurninga:
Hvað ætli sé þá eftir af risastóra málinu sem varð til þess að tveir ríkisstjórnarflokkar misstu stjórn á sér og álpuðust út úr ríkisstjórn?
Og hvað með stóryrðin sem fallið hafa af engu tilefni frá fjölda stjórnmálamanna, jafnvel um lögbrot ráðherra?
Munu æsingamennirnir biðjast afsökunar á ósköpunum?
Munu þeir skammast sín í hljóði en láta eins og ekkert sé?
Eða gera þeir ef til vill hvorugt?