Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins segir stöðu flokksins vera óheppilega og erfiða. Fjórir af sex oddvitum Framsóknarflokksins frá því í kosningunum fyrir ári hafa ýmist yfirgefið flokkinn eða gefa ekki kost á sér. Hefur Sigmundur Davíð Gunnlaugsson yfirgefið flokkinn og stofnað Miðflokkinn, margir hafa fylgt honum úr flokknum, þar á meðal formenn Framsóknarfélaga og Þorsteinn Sæmundsson fyrrverandi þingmaður flokksins.
Þórunn Egilsdóttir gefur kost á sér sem oddviti Framsóknar í Norðausturkjördæmi. Gunnar Bragi Sveinsson yfirgaf Framsóknarflokkinn í morgun, en Ásmundur Einar Daðason hefur gefið kost á sér til að leiða flokkinn í Norðvesturkjördæmi. Eygló Harðardóttir gefur ekki kost á sér, en Willum Þór Þórsson gefur kost á sér til að leiða flokkinn í Suðvesturkjördæmi.
Sigurður Ingi Jóhannsson formaður flokksins mun leiða flokkinn í Suðurkjördæmi og Lilja Alfreðsdóttir í Reykjavík suður. Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir bauð sig fram til að leiða flokkinn til Reykjavík norður en hún dró framboð sitt til baka.
Sigurður Ingi segir í samtali við RÚV að eftirsjá sé eftir Gunnari Braga en heimildir Eyjunnar innan úr Framsóknarflokknum herma að ákvörðun hans hafi ekki komið á óvart. Skrifstofa Framsóknarflokksins hefur ekki viljað upplýsa hversu margir hafa sagt sig úr flokknum í vikunni. Gunnar Bragi hefur ekki viljað veita viðtöl vegna ákvörðunar sinnar í dag en hann mun vera að íhuga næstu skref. Sigurður Ingi segir úrsagnirnar úr flokknum óheppilegar:
Eins og hefur komið fram þá er sumt af þessu, kemur kannski ekki á óvart eftir það sem á hefur gengið síðastliðið ár. Þó það sé vissulega erfitt að standa í þessu á þessum tíma þá stendur Framsóknarflokkurinn öflugur eftir. Og samhentur.