„Nú hafa tekist samningar um þinglok. Í grófum dráttum má segja að tvær leiðir hafi verið færar. Annars vegar að takmarka málafjöldann sem mest, og ljúka þinginu á 1-2 dögum. Hins vegar að setja þingfund og hefja vinnu við þessi helstu mál og bæta svo við stjórnarskrá og eftir atvikum öðru sem þingmenn vildu ræða. Samkomulag var gert um hið fyrrnefnda milli allra flokka utan Pírata og Samfylkingar.“ Með þessum orðum hefst pistill Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins á Fésbók í kvöld. Samkvæmt samkomulaginu verður uppreist æra fellt úr hegningarlögum, lagaákvæðum verður breytt sem varða hælisleitendur og önnur atriði sem varða kosningar eða formsatriði. Fyrr í kvöld var Bjarni harðlega gagnrýndur af þingmönnum Pírata og Samfylkingarinnar sem sögðu hann hafa notað bága stöðu barna sem pólitíska skiptimynt.
Sjá einnig: Saka Bjarna um að nota bága stöðu barna sem pólitíska skiptimynt
Bjarni segir um málið:
Nokkrir þingmenn fara mikinn í kvöld vegna þess að breytingar á stjórnarskránni (breytingaákvæðinu) eru ekki hluti samkomulagsins. Þannig segir Smári Mccarthy sem nýlega var í fréttum fyrir rætnar samlíkingar við mál Jimmy Savile, að ég hafi með aðkomu minni að þinglokasamningum hótað ,,að ógna lífi barna og neita þolendum kynferðisofbeldis um réttlæti, ef ekki yrði fallið frá mjög eðlilegri kröfu um lýðræðisúrbætur.“
Afsakið, en er ekki bara komið ágætt af svona löguðu? Hvað eiga svona skrif að þýða? Er þetta framlag til bættrar þjóðfélagsumræðu – leiðin til að endurheimta traust á stjórnmálum?
Þingið geti í krafti meirihluta sett á dagskrá það sem það kýs. Það sé hins vegar niðurstaða langflestra þingflokka, eftir fjölda funda, að ljúka þinginu með fáeinum málum og láta stjórnarskránna bíða:
Fyrir nokkrum dögum lagði ég fram tillögu að verklagi við breytingarnar sem allir formenn tóku nokkuð vel í á formannafundi. Píratar höfðu mestan fyrirvara og kröfðust þess á næsta fundi að breyting á breytingaákvæði stjórnarskrárinnar næði fram að ganga. Að þessu sinni skyldi þó farin önnur leið en þegar slíkt ákvæði var síðast í gildi, með lægri samþykkisþröskuldum. Fyrirvarar Pírata urðu á endanum til þess að ekkert varð úr samkomulaginu.
Er það skoðun Bjarna að ef hrófla eigi við stjórnarskránni eigi að vanda til verka, gefinn tími til umsagnar og nefndameðferða:
Er það svo að þeir sem fara fram á vandað verklag við breytingar á stjórnarskrá verðskuldi ásakanir að skeyta engu um líf barna eða fálæti vegna kynferðisbrota? Ég hélt við hefðum fundið botninn í umræðu um þau mál í síðustu viku, en lengi getur vont versnað.