fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fréttir

Davíð spyr: „Hvað nú?“

Ritstjórn DV
Laugardaginn 14. desember 2019 16:03

Davíð Stefánsson Skjáskot af Hringbraut úr þættinum Ísland og umheimur

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Davíð Stefánsson, ritstjóri Fréttablaðsins, spáir í niðurstöðu kosninga á Bretlandi í leiðara blaðsins í dag. Hann spyr hvað gerist nú en óhætt er að segja að talsverð ólga hafi verið í landinu undanfarið.

„Það eru mikil tíðindi af breskum stjórn­málum. Í höfn er stærsti kosninga­sigur Í­halds­flokksins í 32 ár eða allt frá sigri Margrétar Thatcher árið 1987. Á hinn bóginn er ó­sigur Verka­manna­flokksins sá versti frá árinu 1935. Lokið er þeirri pólitísku lömun sem hrjáð hefur Breta í þrjú ár. Lík­legt er að landið muni hafa stöðugri ríkis­stjórn með starfandi meiri­hluta. En í miðjum fagnaðar­ópum gætu Í­halds­menn setið uppi með það að hafa tryggt Brexit en tapað einingu Stóra-Bret­lands,“ skrifar Davíð.

Hann segir að segir að Verkamannaflokkurinn hafi fallið á prófinu. „Niður­staðan fyrir Jeremy Cor­byn sem stýrt hefur Verka­manna­flokknum frá árinu 2015 er flestum skýr nema honum. Þetta er versti árangur flokksins í 84 ár. Bretar hafna þeim harða sósíal­isma sem boðaður var. Þeir sáu ekki í Cor­byn leið­toga landsins. Í neyslu­hyggju jóla­undir­búnings hljómuðu gamal­dags hug­myndir um þjóð­nýtingu eins og sögu­skýringar frá Sovét­ríkjunum. Kosningarnar snerust um Brexit. Dug­leysi Verka­manna­flokksins um skýra stefnu var al­gjört. Reynt var að höfða til allra óháð af­stöðu til Brexit,“ segir Davíð.

Hann gerir ráð fyrir því að Skotar fari fram á nýja þjóðaratkvæðagreiðslu. „Skoski þjóðar­flokkurinn, með kröfur um á­fram­haldandi aðild að ESB og sjálf­stæði Skot­lands, er líka sigur­vegari. Þar vegur líka þungt að síðasti Brexit-samningur John­sons gaf Norður-Írum mikla sér­stöðu en ekki Skotum. Krafa um nýja þjóðar­at­kvæða­greiðslu um skoskt sjálf­stæði er því í kortunum á næsta ári. Eftir 46 ára aðild eru Bretar á leið úr ESB, til góðs eða ills. Það verður ekki auð­velt því landið er sam­tvinnað öðrum á innri markaði Evrópu. Brott­förin úr innri markaði Evrópu er 31. janúar. Þá tekur við að­lögunar­tíma­bil til loka 2020. Á þeim 11 mánuðum verða erfiðar við­ræður um frí­verslunar­samning um toll­frjálsan og kvóta­lausan að­gang vöru og markaðs­að­gang þjónustu í anda við­skipta­samnings ESB við Kanada og Japan,“ segir Davíð.

Að hans sögn verða viðræður vegna Brexit snúnar. „Við­ræður ættu að geta hafist í mars. Leið­toga­fundur ESB og Bret­lands vegna við­ræðnanna er fyrir­hugaður í júní. Fram til júlí geta Bretar óskað eftir fram­lengingu á að­lögunar­tíma­bili sem er í dag til árs­loka 2020 en getur orðið allt til árs­loka 2022. Fram undan eru erfiðir samningar. Í fyrsta lagi verður þrýstingur á setningu sam­eigin­legra leik­reglna sem Bretar vilja sem minnst af. Á sama tíma vill ESB hertar um­hverfis­reglur sem kallar á aukinn kostnað. Þá er krafa uppi um kerfi til að leysa úr þeim á­greinings­málum sem kunna að koma upp. Í öðru lagi verður tekist á um fram­tíðar­að­gang Breta að fjár­mála­mörkuðum Evrópu. Þeir missa nú rétt til að bjóða þjónustu á megin­landinu,“ segir Davíð.

Hann segir að lokum að átök vegna Brexit séu rétt að byrja: „Í þriðja lagi eru úr­lausnar­efni varðandi fisk­veiðar og að­gang að haf­svæðum Breta. Í Brexit var mikið rætt um full­veldi yfir eigin land­helgi. Samningur um gagn­kvæmar veiði­heimildir og að­gang að mörkuðum sjávar­af­urða, en gerð hans á að ljúka 1. júlí 2020, er ekki hluti af fyrir­huguðum frí­verslunar­samningi. Þrátt fyrir sí­fellt fleiri sam­eigin­leg við­fangs­efni Evrópu­þjóða á borð við lofts­lags­breytingar, vaxandi á­hrif Asíu­þjóða og þjóðar­öryggis­mál hafa Bretar kosið tví­hliða samninga í stað fjöl­þjóða­sam­vinnu innri markaðar Evrópu. Á­ta­ka­um­ræða um þessa tvo val­kosti er rétt að byrja.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Framsóknarmenn styðji ÁTVR og forvarnir – „Atlaga Sjálfstæðisflokksins að ÁTVR er ævintýraleg“

Framsóknarmenn styðji ÁTVR og forvarnir – „Atlaga Sjálfstæðisflokksins að ÁTVR er ævintýraleg“
Fréttir
Í gær

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa
Fréttir
Í gær

Ásdís Rán svaraði Heimi Má – „Ekki segja að ég geti það ekki, ég er hér núna“

Ásdís Rán svaraði Heimi Má – „Ekki segja að ég geti það ekki, ég er hér núna“
Fréttir
Í gær

Íslenska lögreglan tók niður síðu hjá rafmyntasvindlurum – Gætu fengið 20 ára fangelsi

Íslenska lögreglan tók niður síðu hjá rafmyntasvindlurum – Gætu fengið 20 ára fangelsi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd