fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Fréttir

Þorbergur um handtökuna: „Vertu rólegur, vertu rólegur“ – Fær bætur frá lögreglu og íhugar mál gegn Wizz air

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 19. nóvember 2019 09:38

Þorbergur og flugvélin.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Vélin var bara úti á miðju plani og öll ljós blikkandi. Þetta var eins og í reyfara,“ sagði Þorbergur Aðalsteinsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari í handbolta, í viðtali við Bítið á Bylgjunni í morgun. Þar ræddi Þorbergur mál sem kom upp í sumar þegar hann var leiddur út úr vél Wizz Air í handjárnum í Stafangri í Noregi. Vélin var á leið frá Búdapest til Reykjavíkur þegar flugstjórinn ákvað að lenda henni í Noregi.

Hreinsaður af ásökunum

Svo virðist vera sem málið hafi allt verið byggt á miklum misskilningi en í frétt Hringbrautar, sem greindi fyrst frá málinu, kom fram að Þorbergur hafi verið í annarlegu ástandi og hann hafi reynt að komast inn í flugstjórnarklefa vélarinnar. Þorbergur segir að það sé alrangt enda hafi hann verið hreinsaður fljótlega af öllum ásökunum. Áhöfnin hafi gert miklu meira úr málinu en efni stóðu til og Þorbergur ekki gert neitt rangt.

Í byrjun viðtalsins fór Þorbergur aðeins yfir sína sögu en hann hefur glímt við veikindi undanfarin ár.

Fjögur hjartaáföll á sjö árum

„Ég fékk hjartaáfall 2012 og í framhaldi af því þá verður maður dálítið hræddur og ég breyti um lífsstíl, meðal annars mataræði. Ég var alltof þungur og tók allt út sem á ekki að vera, eins og sykurneyslu og áfengi, og það hefur gengið bara mjög vel. Síðan fæ ég aftur hjartaáfall 2015 og svo aftur tvisvar á þessu ári. Í júlí og svo aftur í september. Ég var óheppinn því ég lenti í alvarlegu bílslysi líka um síðustu áramót og lá inni á Landspítalanum í fjórar vikur,“ sagði Þorbergur en slysið sem um ræðir varð á Suðurlandsvegi þar sem tveir bílar skullu saman.

Þorbergur hlaut slæm meiðsl á brjóstholi og er hann til dæmis þindarlaus núna. „Það sem er verst núna er að stoðkerfið er allt í klessu eftir bílslysið. Þetta er ekki búið að vera glæsilegt ár. Svo fer ég til Ungverjalands í frí og í tannviðgerð. Ég var búinn að vera þar í hálfan mánuð, rosalega fínt og síðan á ég 15. ágúst flug heim til Íslands,“ sagði Þorbergur en flugið var klukkan sjö að morgni. Hann þurfti að yfirgefa hótelið klukkan þrjú til að ná upp á flugvöll, en Þorbergur tók fram að hann hefði átt mjög erfitt með svefn eftir bílslysið.

Tók svefntöflu fyrir flugið

„Ég er á miklum lyfjum út af hjartanu en þarna akkúrat hafði ekki tekið nein verkjalyf. Mér leið nokkuð vel. Ég yfirgef hótelið klukkan þrjú en það sem gerist er að ég sofna ekkert þessa nótt. Ég fæ mér því eina svefntöflu áður en ég fer í vélina klukkan sjö og ég sofna mjög fljótlega. Svo eftir einhverja þrjá tíma þá vakna ég og maður er stundum svona hálf ryðgaður eftir að hafa tekið svefntöflu,“ sagði Þorbergur sem kallaði eftir flugfreyju þegar hann vaknaði.

„Ég panta mat og allt í lagi með það. Svo kemur hún með morgunmatinn og þá er ég bara með evrur í brjóstvasanum. Þá byrjar eitthvað vesen um að hún taki ekki evrur og taki bara kort og svo framvegis.“
Þorbergur segist hafa beðið hana um að kanna málið betur en einhver pirringur hafi hlaupið í flugfreyjuna.

„Hún rífur morgunmatinn bara af borðinu. Við eigum eftir tvo klukkutíma í flugi og nægur tími til að finna veskið. Svo fer hún eitthvað og ég stend upp og labba af stað. Ég sit alveg fremst og henni hefur eflaust brugðið eitthvað. Svo vildi ég fara inn á klósettið og var frekar ör örugglega í snúningum. Svo labba ég að henni og spyr hvort hún geti ekki reddað þessu og það var enn einhver pirringur í henni. Þannig að ég fer í sætið og sofna. Síðan gerist það einhverjum 45 mínútum seinna að það kemur flugþjónn sem ýtir í mig stanslaust og biður mig um vegabréfið. Ég fer eitthvað að mótmæla því, atti ekkert að láta hann hafa vegabréfið. Svo læt ég hann hafa vegabréfið og þá sagði hann að það væri eitthvað út af farþegalistanum. Svo dotta ég áfram og veit ekki fyrr en vélin er að fara lenda í Stavanger.“

Sat bara í sætinu og engin afskipti

Þorbergur segist fyrst hafa áttað sig á því að vélin væri að lenda í Stafangri þegar hann vaknaði skömmu áður. „Fjölmiðlar sögðu að mér hefði verið ýtt í sætið eins og það hefðu verið einhver handalögmál í vélinni og þar fram eftir götunum. Það var ekkert. Eftir samskiptin við flugfreyjuna þá fer ég bara í sætið, ég var bara í sætinu og það voru engin afskipti af mér.“

Heimir: „Engar stympingar, ekkert? Engin hróp og köll og ekkert að þú hafir reynt að fara inn í flugstjórnarklefann?“

Þorbergur: „Ekkert, ekkert.“

Gulli: „Þú manst alveg eftir þessu?“

Þorbergur: „Já, já, já. Síðan sit ég þarna alveg fremst, þið vitið hvernig þetta er. Það er afgreiddur morgunmatur og klósettið er bara við hliðina og útgangurinn. Svo lendir vélin og ég sit bara alveg rólegur þarna, svo opnast hurðin. Kemur ekki lögreglukona á fleygiferð með svona skjöld og beint að mér og kallar í gegnum svona gler á honum: „Vertu rólegur, vertu rólegur“ . Ég horfði á hana og horfði til vinstri og hægri og þá er ég bara handjárnaður og út.“

Þorbergur segist ekki hafa gert sér grein fyrir því að þetta væri vegna hans. Hann hafi verið handjárnaður á staðnum og segist honum hafa brugðið þegar hann var leiddur út úr vélinni. „Ég sé að það eru fimm sex lögreglubílar, fjórir fimm sjúkrabílar og slökkviliðsbílar. Ég heyrði að það hafi staðið jafnvel til að hreinsa flugstöðina. Vélin bara úti á miðju plani og öll blikkandi ljós. Þetta var eins og í reyfara. Ég var keyrður á fullu inn í lögreglubílinn, svo komum við niður á stöð, þá taka þeir af mér handjárnin og ég settur inn í klefa.“

Þyrmdi yfir hann í fangaklefanum

Þorbergur segist hafa verið sannfærður um að málið myndi leysast fljótt og farsællega, enda hafði hann ekki gert neitt rangt. „Þegar við komum lögreglustöðina er ég settur inn í lítinn klefa. Það var bara dýna á gólfinu og svona klósettskál og krani yfir henni. Þá þyrmdi dálítið yfir mig, hvað væri að gerast. Ég held ég hafi þurft að vera þarna í svona hálftíma og þá fór endalaust af hugsunum í gang. Síðan er ég sóttur í yfirheyrslu og þá kemur í ljós að lögfræðingur lögreglunnar er handboltastelpa, þessi sem yfirheyrir mig,“ segir Þorbergur og bætir við að hún hafi vitað hver hann væri. Lögregla hafi þar að auki séð að Þorbergur væri ekki í annarlegu ástandi; hvorki dópaður né ölvaður. „Það fer strax í gang að áhöfnin og flugstjórinn hefðu farið fram úr sér. Panikkað. Það er ótrúlegt ferli sem fer í gang.“

Þorbergur sagði að þegar lögregla kom um borð hafi farþegar í kringum hann og áhöfn vélarinnar verið yfirheyrð. „Öll eru sammála um að það gerðist ekki neitt. Lögreglan felldi svo málið niður. Inni í vélinni er Íslendingur sem situr einhverjum tveimur sætaröðum fyrir aftan mig og hann byrjar að hringja. Og hann hringir í Hringbraut. Þar er maður sem heitir Kristófer sem tekur á móti og þeir byrja að skrifa og skrifa og búa til eitthvað rosalegt ferli um að ég hafi verið að elta flugfreyjuna um alla flugvél og ég hafi reynt að brjótast inn í klefann,“ sagði Þorbergur sem vitnaði svo í það sem fram kom í fréttinni.

Ekki velkominn um borð í vél Wizz air – Skoðar málsókn

Þorbergur segir að hann hafi verið fluttur tvisvar sinnum upp á sjúkrahús þar sem hann var tekinn í allskonar tékk. „Ég er rannsakaður, tekin blóðprufa og það er allt í lagi. Svo eftir tvo og hálfan tíma þá fæ ég skilaboð um að þetta verði fellt niður en þeir þurfi samt að klára þetta formlega. Skrá lyf og hvort þau hafi verið gefin út af réttum aðila og svo framvegis. Síðan tekur einhverjar þrjár vikur að fá þessa niðurstöðu. Síðan kemur bara það að málið er látið niður falla vegna þess að það eru engin sönnunargögn fyrir einu eða neinu. Núna var ég að fylla út form þar sem lögreglan mun greiða mér bætur fyrir ólöglega handtöku,“ sagði Þorbergur.

Þorbergur vandaði fjölmiðlum ekki kveðjurnar og hvernig staðið var að umfjöllun um málið. Gagnrýndi hann til dæmis Hringbraut, sem birti fyrstu frétt um málið, DV og fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar. Þorbergur sagði að nú væri verið að skoða hvort hægt sé að stefna flugfélaginu, Wizz air i þessu tilviki, vegna þess hvernig brugðist var við. „Það eina sem ég hef fengið frá þeim var að ég væri ekki velkominn að fljúga með þeim næstu 12 mánuðina,“ sagði Þorbergur sem sagði að síðustu mánuður hefðu tekið á hann.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Framsóknarmenn styðji ÁTVR og forvarnir – „Atlaga Sjálfstæðisflokksins að ÁTVR er ævintýraleg“

Framsóknarmenn styðji ÁTVR og forvarnir – „Atlaga Sjálfstæðisflokksins að ÁTVR er ævintýraleg“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd