fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Fréttir

Bjarki gufaði upp: „Hann virkaði á mig sem góður og vinalegur maður“

Bjarki Ágústsson yfirgaf rekstur sinn í Hollandi – Kvaddi hvorki kóng né prest

Björn Þorfinnsson
Mánudaginn 24. júlí 2017 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Dularfullt hvarf íslensks tannlæknis hefur vakið talsverða athygli í Hollandi undanfarnar vikur.Í umfjöllun hollenska blaðsins AD kemur fram að tannlæknirinn, sem heitir Bjarki Ágústsson, hafi sett miða á útidyr tannlæknastofu sinnar, Scandinavia Dental, þar sem sjúklingar í neyð voru hvattir til þess að leita annað. Síðan hafi dyrunum verið læst og ekkert hafi spurst til Bjarka síðan. Forsvarsmaður tannlæknafélags furðar sig á framkomunni og segir alvarlegt að sjúklingar, sem eru mörg hundruð talsins, fái ekki aðgang að sjúkraskrám sínum. Þá eru starfsmenn stofunnar í sárum út af vangoldnum launum.

„Hann virkaði á mig sem góður og vinalegur maður“

Í umfjöllun AD blaðsins frá júlíbyrjun kemur fram að Bjarki hafi tekið við stofunni, sem staðsett er í bænum Vianen í Hollandi, árið 2014. „Hann virkaði á mig sem góður og vinalegur maður. Að því er ég best vissi var hann fær tannlæknir og því taldi ég að sjúklingar mínir væru í góðum höndum. Ég skil ekkert hvað er í gangi,“ hefur blaðið eftir hollenska tannlækninum Jeannete Klein Gebbink-Lewin, fyrrverandi eiganda stofunnar.

Allt virtist með felldu en í lok maí flutti stofan í nýtt húsnæði í bænum. Reksturinn fór í sinn vanagang, að minnsta kosti á yfirborðinu, en í júlíbyrjun sást skyndilega miði á útidyrum stofunnar með stuttum skilaboðum. „Ef um neyðartilvik er að ræða þá hafið samband við aðra tannlækna í hverfinu.“ Síðan þá hefur stofan verið lokuð og engar upplýsingar fengist. Þá hefur hollenska blaðið eftir nágrönnum Bjarka að heimili hans hafi verið tæmt fyrir tveimur vikum og húsið virðist hafa verið yfirgefið.

Einstæð móðir í sárum

„Hann bara hvarf,“ segir Gerjanna van Schaik, sem starfaði í tvö ár í móttöku tannlæknastofunnar. Að hennar sögn er atburðarásin furðuleg og hún vandar Bjarka ekki kveðjurnar. „Bjarki þekkti aðstæður mínar og það er ótrúlegt að hann hafi komið mér í þessa stöðu,“ segir Gerjanna. Hún er einstæð móðir og má illa við því að fá ekki greidd laun eins og raunin er orðin. Þá séu dæmi um að starfsfólk hafi ekki fengið laun greidd í nokkra mánuði.

Samkvæmt henni virðist hið fyrirvaralausa hvarf Bjarka hafa átt sér nokkurn aðdraganda því um miðjan júní bað Bjarki hana um að aflýsa öllum tímum sjúklinga og að hvetja þá til þess að leita annað. „Mér fannst það skrítið en hann minntist eitthvað á yfirtöku og vildi ekki neinar spurningar,“ segir Gerjanna. Hann hafi síðan fyrirvaralaust sent hana í tveggja vikna leyfi.

Á meðan því stóð hafi hún heyrt að Bjarki hefði ráðið annan starfsmann tímabundið til þess að aflýsa öllum tímum. Þá hafi viðvörunarbjöllur farið að hringja í höfði hennar og hún dreif sig niður á skrifstofuna til að fá svör. Þar hafi hún hitt á Bjarka og gengið á hann. „Hann sagðist hafa reynt sitt besta en síðan fór hann upp í bíl sinn og brunaði í burtu,“ segir Gerjanna. Hún hafi kíkt inn á stofuna og séð að búið var að fjarlægja ýmis dýr tæki og tól.

Sjúkraskýrslur í uppnámi

En það er ekki bara starfsfólk sem er í sárum. Það sama gildir um sjúklinga stofunnar sem upplifa algjöra óvissu. „Tannlæknar eru ábyrgir fyrir því að sjúklingar fái aðgang að sjúkraskrám sínum. Ef rekstri er hætt þá ber tannlækninum skylda til þess að afhenda sjúklingunum gögnin eða senda þau á aðrar stofur. Það virðist ekki hafa verið gert í þessu tilviki, miði í gluggann nægir ekki. Þetta eru sorglegar fréttir fyrir sjúklingana sem þurfa núna að finna sér annan tannlækni í hvelli,“ segir Hans Scholten, formaður félags atvinnutannlækna í samtali við AD.

Fram kemur að ef gjaldþrot stofunnar er yfirvofandi þá muni sjúklingar geta nálgast gögnin sín í gegnum skiptastjóra. Ef Bjarki hafi hins vegar látið sig hverfa út í sólarlagið þá þurfi sjúklingar að hafa samband við neyðarlínu hollenska heilbrigðiseftirlitsins til þess að freista þess að fá sjúkraskýrslur sínar áframsendar á nýjar stofur.

Starfaði um tíma í Póllandi

Í nýjustu frétt AD blaðsins um málið kemur fram að Bjarki Ágústsson sé kvæntur pólskri konu og að mögulega hafi hann í hyggju að opna nýja tannlæknastofu þar í landi. Með einfaldri leit á vefnum má sjá að Bjarki er skráður starfsmaður hjá Ra-Dent, tannlæknastofu í borginni Szczecin í Póllandi. „Dr. Ágústsson vinnur ekki lengur hérna. Hann starfaði hér um tíma fyrir stuttu síðan en það gekk ekki upp til lengdar út af skuldbindingum hans í Hollandi,“ sagði talsmaður Ra-Dent í samtali við DV. Hún bætti við að Bjarki væri frábær tannlæknir og að hans væri sárt saknað.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum
Enn einn Snapchat-perrinn
Fréttir
Í gær

Sjáðu myndbandið: Sverrir Einar handtekinn og leiddur út í járnum í miðbænum

Sjáðu myndbandið: Sverrir Einar handtekinn og leiddur út í járnum í miðbænum
Fréttir
Í gær

Snorri og Patrik vekja hneykslun: Konan hugsi um börnin og karlinn um peningana – „Gömlukallaraus í ungum mönnum“

Snorri og Patrik vekja hneykslun: Konan hugsi um börnin og karlinn um peningana – „Gömlukallaraus í ungum mönnum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Reiði vegna skemmdarverks á Suðurgötu: Málið verður tilkynnt lögreglu – Sjáðu myndina

Reiði vegna skemmdarverks á Suðurgötu: Málið verður tilkynnt lögreglu – Sjáðu myndina
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tveir Bretar hætt komnir á Íslandi: Grét þegar hann sagði frá slysinu – Vinur hans enn á spítala

Tveir Bretar hætt komnir á Íslandi: Grét þegar hann sagði frá slysinu – Vinur hans enn á spítala
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Helga Þórisdóttir búin að ná meðmælendum

Helga Þórisdóttir búin að ná meðmælendum