Greining Íslandsbanka hefur gefið út skýrslu um íslenskan íbúðamarkað 2019. Í skýrslunni eru m.a. hagnýt ráð fyrir kaupendur, hvaða þættir hafa áhrif á íbúðaverð, hvernig íbúðaverð hefur verið að þróast og hvernig íbúðamarkaðurinn á Íslandi stendur í alþjóðlegu samhengi.
Í spánni er gert ráð fyrir 3% árlegri hækkun íbúðaverðs til 2021 og að raunverð svo gott sem standi í stað á sama tímabili:
„Hægari kaupmáttaraukning, aukið atvinnuleysi, minni fólksfjölgun og áframhaldandi aukning á framboði nýrra íbúða eru meðal helstu skýringa á hægari hækkun íbúðaverðs. Má segja að þróunin muni endurspegla betra jafnvægi og meiri ró á íbúðamarkaði en hefur verið á síðustu árum,“
segir í skýrslunni.
Sérfræðingar Seðlabanka Íslands lesa þó öðruvísi í tölurnar og spá að vegna hægrar sölu og aukins framboðs muni íbúðaverð lækka á næstunni, þó svo raunverð hafi lítið breyst undanfarið, samkvæmt Fjármálastöðugleikaskýrslu Seðlabankans:
„Um 70-90% af nýjum íbúðum sem komið hafa inn á markaðinn á matsvæðum utan miðbæjarins sl. þrjú ár eru seld en einungis um fjórðungur nýbygginga í miðbæ Reykjavíkur. Dræm sala á nýjum íbúðum í miðbæ Reykjavíkur bendir til þess að verðlækkun gæti verið framundan á því svæði.“
Þá segir einnig:
„Spár benda til þess að ráðstöfunartekjur og einkaneysla muni vaxa hægar á næstunni en undanfarin ár. Ferðamönnum hefur fækkað og dregið hefur úr skammtímaútleigu til þeirra ásamt því að gert er ráð fyrir hægari fólksfjölgun á næstu árum. Þessar aðstæður ásamt miklu framboði á nýbyggingum gætu leitt til offramboðs og lækkunar verðlags. Veðsetningarhlutföll fasteignaveðlána gætu þá hækkað og líkur á útlánatöpum aukist. Hægari vöxtur eftirspurnar kann einnig að koma illa við aðila í byggingariðnaði.“