fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Fréttir

„Þetta fyrirtæki er Íslandi til skammar“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Sunnudaginn 1. september 2019 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bílaleigan Green Motion Iceland ehf. var borin þungum sökum í fjölmiðlum fyrr á árinu fyrir að hafa átt við kílómetrastöðu bílaflota síns. Að sögn framkvæmdastjóra fyrirtækisins, Rún­ars Lauf­ars Ólafs­sonar, hafði slíkt verið gert því viðskiptavinir leigunnar vantreystu mikið eknum bílum, en að kaupendur bílanna hafi í öllum tilvikum verið upplýstir um raunverulega kílómetrastöðu bifreiðanna. Samkvæmt afsölum sem Rúnar afhenti blaðamanni mbl.is var kaupendum greint frá því að skipt hefði verið um mælaborð og því væri kílómetrafjöldi rangur. Green Motion er jafnframt ein þeirra bílaleiga sem ekki eru í Samtökum ferðaþjónustunnar.

Green Motion Iceland er hluti af alþjóðlegu keðjunni Green Motion, sem hefur verið harðlega gagnrýnd af viðskiptavinum fyrir að starfrækja bíræfna svikamyllu, meðal annars hefur verið fjallað um málið hjá The Guardian. Í þeirri umfjöllun þótti það grunsamlegt að laun fyrir skoðunarmenn voru auglýst sem árangurstengd, en starfið felur ekki í sér sölumennsku.

Árni Snævarr, starfsmaður hjá Sameinuðu þjóðunum og fyrrverandi fréttamaður, segir farir sínar ekki sléttar af viðskiptum við Green Car á Sikiley. Hann er ekki sá eini sem hefur álíka umkvartanir gegn fyrirtækinu, en gífurlegur fjöldi viðskiptavina segir sömu söguna, og lenti jafnvel í verri reynslu. Margar slíkar sögur liggja fyrir á netinu um viðskipti við útibú Green Motion á Íslandi.

Slæm reynsla í Sikiley

Árna finnst sláandi að svona viðskiptahættir séu stundaðir á Íslandi.

„Á bílaleigunni lagði starfsmaður mjög að mér að taka tryggingu frá bílaleigunni og sagði að „allir gerðu það“. Þetta var altrygging var mér tjáð og

Mynd af meintri skemmd að aftan. Enn í dag hefur Árna ekki tekist að koma auga á hana.

ég hugsaði með mér að best væri að þurfa ekki að hafa neinar áhyggjur. Sjálfsábyrgð 300 evrur,“ segir Árni í samtali við blaðamann. Hann lét undan þrýstingi og keypti trygginguna. Þegar á hólminn var komið reyndist tryggingin fyrir ótrúlega tilviljun ekki ná yfir skemmdirnar sem leigan hélt fram að hefðu til komið á meðan Árni hafði bílinn til umráða. Meint skemmd reyndist vera á felgu bifreiðarinnar. „Hún er svo lítil að engin leið er að sjá hana á ljósmynd nema stækka myndina,“ segir Árni. Þegar hann maldaði í móinn brást starfsmaður leigunnar ókvæða við. „Hann varð mjög æstur og sakaði mig um að hafa eyðilagt bílinn. Neitaði hann mér síðan um að skrifa undir eða sjá eyðublaðið um skilin og sagði að ég yrði ekki keyrður upp á völl heldur yrði að taka leigubíl.“

Síðar fékk Árni tilkynningu um að skemmdirnar hefðu reynst fleiri. Viðgerð á felgu myndi kosta 450 evrur og viðgerð vegna tveggja annarra skemmda 300 evrur. Árni reyndi að ná samkomulagi við Green Motion og fá frekari skýringar á skemmdum og viðgerðarkostnaði. Þá kom á daginn að sjálfsábyrgðin væri í raun 200 evrur, en engu að síður voru 300 evrur rukkaðar á kortið hans. „Hvaða tryggingafélag hefði tryggt mig var aldrei svarað. Og engar skýringar gefnar á þessari dýru felgu sem var utan við allar tryggingar. Þetta er bersýnilega viðskiptamódel fyrirtækisins. Leigja bíla út ódýrt og láta svo viðskiptavininn blæða fyrir alls kyns smáatriði. Það er dapurlegt til þess að vita að þetta fyrirtæki komist upp með fjárplógsstarfsemi af þessu tagi og með ólíkindum að yfirvöld og Neytendasamtök láti þetta viðgangast. Samkvæmt frásögnum á Tripadvisor virðist fyrirtækið einna grófast á Íslandi.“

Sláandi frásagnir óánægðra viðskiptavina um útibúið á Íslandi

Skemmdin dýra á felgunni.

Fjölmargir viðskiptavinir útibús Green Motion á Íslandi hafa lýst slæmri reynslu sinni af fyrirtækinu á vefsíðum á borð við Tripadvisor, Google reviews, Trustpilot og þar eftir götum. Frásagnirnar eiga margt sameiginlegt og lúta flestar að því að viðhaft sé tryggingasvindl með þeim hætti að hart sé lagt að viðskiptavinum að kaupa kostnaðarsama tryggingu frá Green Motion, án tillits til ferðatrygginga viðkomandi. Án tryggingar þarf að greiða 300 þúsund krónur í tryggingargjald. Bílarnir eru sagðir skítugir og í slæmu ástandi og margir hafa greint frá því að kveikt hafi verið á vélarljósi við afhendingu sem starfsmenn hafi beðið viðskiptavini að líta bara framhjá. Hjól á bílum hafa verið svo slitin að bílar hafi í reynd verið ólöglegir í akstri.

Viðskiptavinir sjálfir gera úttekt á bílnum við afhendingu, þeir forsjálu taka myndir og eiga sem sönnunargagn þegar starfsmenn bílaleigunnar vilja rukka fyrir skemmd sem var til staðar við afhendingu, hinir þurfa að greiða óhóflegan kostnað vegna viðgerðar og jafnvel er öll tryggingin sem þeir lögðu fram tekin og gott betur. Í umsögnunum er einnig kvartað yfir dónalegu starfsfólki, óáreiðanlegri skutlu til og frá flugvelli og lélegri viðskiptamannaþjónustu sem svari illa eða alls ekki erindum viðskiptavina. Einnig virðast viðskiptavinir hafa lent í því að panta og greiða fyrirfram fyrir bílaleigubíl sem reynist svo ekki til taks þegar á hólminn var komið.

Einn óánægður viðskiptavinur greindi frá því í Facebook-hópi fyrir ferðamenn á Íslandi að hann hafi kvartað yfir fyrirtækinu til Neytendasamtakanna, lögreglu og höfuðstöðva fyrirtækisins.

„Einn starfsmanna þeirra kom til okkar þegar við vorum að fara og sagði að við ættum að skilja eftir slæma umsögn um fyrirtækið á Tripadvisor. Hann sagði fyrirtækið alltaf beita þessum bellibrögðum því fólk hafi enga leið til að færa sönnur fyrir máli sínu því bílarnir eru yfirleitt í svo slæmu ástandi þegar tekið er við þeim, síðan séu ferðamenn yfirleitt að flýta sér upp á flugvöll þegar þeir skila bílnum og hafa ekki tíma til að standa í veseni,“ segir í einni umsögn. „Þetta er svikamylla,“ segir í annarri og svona yfirlýsingar má lesa víða. Við leyfum hér óánægðum viðskiptavinum að eiga lokaorðin: „Green motion eru þjófar,“„Ekki treysta Green Motion bílaleigunni,“ „Varist Green Motion bílaleiguna. Þetta fyrirtæki er Íslandi til skammar.“

Yfirlýsing Green Motion á Íslandi 

Green Motion á Íslandi er partur af alþjóðlegu keðjunni Green Motion International sem starfar í yfir 40 löndum og hefur um 420 þjónustustaði. Starfshópurinn á Íslandi einblínir á að veita bestu þjónustu sem í boði er og gerir sitt besta til að fylgja þeim reglum sem settar eru af Green Motion International.

Við erum með mjög góða ferla sem eru búnir til í þeim tilgangi að gefa viðskiptavininum algjöra hugarró þegar leigt er bíl hjá okkur. Í þeim óheppilegu tilfellum þegar viðskiptavinur tjónar bílaleigubíl er notast við CABAS kerfið sem er viðurkennt og stutt af íslensku tryggingafélögunum. Til að bæta reynslu viðskiptavinarins bjóðum við honum að bæta við alla þá valkosti sem þörf er á til að tryggja bílinn, þær tryggingar eru hannaðar til að skila hugarró og öryggi fyrir okkar viðskiptavini.

Sem alþjóðlegt merki reynum við eftir fremsta megni að gera okkar besta til að bæta þjónustuna okkar og reynslu viðskiptavinarins. Nýlega á þessu ári, í svari við kröfur viðskiptavina okkar, færðum við okkur í nýtt og mun stærra skrifstofurými sem er nær flugvellinum og einnig fjölguðum ferðum rútunnar okkar til og frá flugvallarins. Nýja afhendingarstöðin okkar er ein stærsta á landinu með nútímalegri biðstofu, fríum veitingum ásamt sér leikherbergi fyrir börnin. Við erum einnig að koma með á markaðinn nýja tæknimöguleika sem eru hannaðir til að styrkja stöðu viðskiptavinarins, það inniheldur sjálfsafgreiðslustöðvar og glænýtt app sem setur allt leiguferlið frá því að skrá upplýsingar, staðfestingu á vegabréfum og ökuskýrteinum, afhendingu bílsins, skoðun bílsins og skil bílsins algjörlega í hendur viðskiptavinarins sem leyfir viðskiptavininum að stýra ferðinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Framsóknarmenn styðji ÁTVR og forvarnir – „Atlaga Sjálfstæðisflokksins að ÁTVR er ævintýraleg“

Framsóknarmenn styðji ÁTVR og forvarnir – „Atlaga Sjálfstæðisflokksins að ÁTVR er ævintýraleg“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd