fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Fréttir

Ofursterkar e-pillur í umferð

Þrefalt sterkari en gengur og gerist – MDMA-efni sífellt að verða hreinni – Bylgja í Evrópu sem lætur á sér kræla á Íslandi

Ritstjórn DV
Mánudaginn 15. maí 2017 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Styrkleiki MDMA í e-töflum í Evrópu hefur farið stigvaxandi frá árinu 2010 og vísbendingar um að bylgja af ofur e-töflum, með styrkleika MDMA langt umfram það sem áður hefur þekkst, gangi nú yfir heimsálfuna. Hér á landi hafa slíkar töflur verið að láta á sér kræla samkvæmt styrkleikamælingum á efnum sem reynt hefur verið að smygla til landsins. Samkvæmt upplýsingum frá Tollstjóra var lagt hald á „umtalsvert magn“ af e-töflum og dufti á síðasta ári, en árið 2015 lögðu tollverðir hald á tæplega 210 þúsund e-töflur.

Helmingi sterkari í dag en í gamla daga

Útbreiðsla sífellt sterkari e-taflna kom fram í skýrslu Eftirlitsmiðstöðvar Evrópu með lyfjum og lyfjafíkn (EMCDDA) í fyrra, sem bar yfirskriftina „Nýlegar breytingar á MDMA/ecstasy markaði Evrópu“ (e. Recent changes in Europe‘s MDMA/ecstasy market) Þar kom fram að e-töflur hafi hægt og sígandi verið að verða sterkari frá tíunda áratug síðustu aldar þegar þær komu fyrst fram á sjónarsviðið. Frá árinu 2010 hafi hins vegar mátt merkja verulega aukningu í hreinleika MDMA í þeim. Á tíunda áratugnum innihélt hver hefðbundin pressuð e-pilla að meðaltali um 50–80 mg af MDMA, en pillurnar í dag eru að meðaltali helmingi sterkari, innihaldi um 125 mg af MDMA.

Ofursterkar e-töflur í umferð

Hinar svokölluðu ofur-ecstasy-pillur, sem finna hafi mátt á einstaka mörkuðum í Evrópu, sprengi hins vegar flesta áður þekkta skala í þessum efnum, að því er fram kom í skýrslu EMCDDA. Dæmi eru um styrkleikagildi upp á 270–340 mg af MDMA í hverri töflu.

Í skýrslunni er nefnt sem dæmi að í Hollandi, þar sem 10 þúsund styrkleikaprófanir eru gerðar árlega, hafi upprisa vinsælda MDMA-efna ekki aðeins verið staðfest heldur hafi 53% allra e-taflna sem mældar voru árið 2015 innihaldið 140 mg af MDMA að meðaltali samanborið við aðeins 3% árið 2009.

Skammtastærðir að stækka

Annað áhyggjuefni sem minnst er á er að töflurnar virðast einnig vera að stækka. Í Frakklandi mældust þær að meðaltali 204 mg árið 2009, en voru orðnar 325 mg árið 2014. EMCDDA og Europol gáfu í mars 2014 út viðvörun vegna ofursterkra MDMA-taflna sem haldlagðar höfðu verið í Hollandi, Belgíu, Sviss og Bretlandi.

Í grein á vef Global Drug Survey, skrifar læknirinn og sérfræðingurinn Adam R. Winstock, að eins öfugsnúið og það hljómi þá þýði hreinni fíkniefni ekki endilega að þau séu öruggari fyrir notendur, sérstaklega ef það veit ekki hvað það er að taka. Slíkt eykur möguleikann á lífshættulegri ofskömmtun fyrir bæði reynda og óreynda fíkniefnaneytendur. Hætt er við að þeir sem hafi reynslu af vægari e-pillum eða MDMA-efnum hvers konar noti sama magn af sterkara efni ef hann veit ekki að það sé helmingi öflugra.

Dæmi um mjög sterkar töflur hér

Valþór Ásgrímsson, verkefnisstjóri hjá Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands, segir að þau efni sem berist inn á borð þar séu yfirleitt bara úr innflutningsmálum þar sem efni hafa verið haldlögð í smygltilraunum. Tilfinningin sé að MDMA-styrkur sé á uppleið.

„Af þeim sýnum sem okkur berast til rannsóknar þá eru meðalgildi síðustu ár nokkuð stöðug. En einstaka sinnum sjáum við töflusýni með mjög háum styrk af MDMA.“

Friðrik Smári Björgvinsson yfirlögregluþjónn segir að vísbendingar séu um að  MDMA-duft sé pressað í pilluform hér á landi.
Pressa pillur hér Friðrik Smári Björgvinsson yfirlögregluþjónn segir að vísbendingar séu um að MDMA-duft sé pressað í pilluform hér á landi.

Mynd: © Róbert Reynisson

Valþór er staddur í Svíþjóð á ráðstefnu með kollegum sínum í Evrópu þar sem þessi mál eru einmitt til umræðu. Hann segir í samtali við DV að hann hafi rætt þessi mál við hollenska kollega sína sem hafi haft svipaða sögu að segja.
En innflutningur á fíkniefnum segir aðeins hluta sögunnar því ljóst er að umtalsvert magn þeirra eru einnig framleidd hér á landi. Íslensk kannabisræktun er þekkt stærð og umfangsmikil en dæmi eru einnig um og vísbendingar að framleiðsla á amfetamíni og metamfetamíni fari hér einnig fram.

Pillur pressaðar innanlands

Friðrik Smári Björgvinsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir aðspurður að hér á landi sé líklega ekki verið að framleiða e-töflur og MDMA-efni sem slík. „En það er verið að pressa efni í töflur hér. Þetta er flutt inn í duftformi eða kristöllum og pressað í töflur.“

Hann segir enga ástæðu til að draga í efa að þróunin hafi verið í þá átt að efnin séu að verða öflugri. „Við vitum að kannabisefnin eru sífellt að verða sterkari, með tilliti til hlutfalls THC í þeim, væntanlega hefur þróunin verið þannig með hin efnin líka.“

Varhugaverð blanda

Ljóst er að þegar allir þessir þættir eru lagðir saman er þróunin varhugaverð. Innihaldsefni e-taflna, Mollý, eða hvers kyns MDMA-tengdra efna eru að verða sterkari, með tilliti til styrkleika MDMA í þeim. Skammtastærðir eru að verða stærri, fíkniefnasalar og dreifingaraðilar hér landi eru jafnvel að skammta og pressa pillur sjálfir og neytendur geta aldrei verið fullkomlega vissir um hvað þeir eru að kaupa og neyta. Í nóvember 2015 varaði lögreglan við því sem DV kallaði nasistasýru, en um var að ræða LSD í töfluformi með hakakrossi á. Efnið sendi marga neytendur á sjúkrahús en heimildir DV hermdu að dæmi væru um að efnið væri markaðssett sem e-pilla en innihélt ekkert MDMA.

Eins og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum á undanförnum árum hafa komið fram nokkur dæmi þess að ungt fólk hafi látið lífið eftir neyslu e-taflna og MDMA. Embætti Landlæknis varar við að ein e-tafla geti valdið eitrun sem leiðir til dauða. Líkaminn venst á efnið og smátt og smátt þarf aukið magn til að ná sömu virkni og í fyrstu. Við það aukast enn líkur á líkamlegum og andlegum skaða. Ekki er vitað með vissu hversu fljótt vanabindandi fíkn myndast.

Þessi dópsali er að selja græn epli og MDMA-hylki í margs konar skammtastærðum á Facebook.
MDMA og e-töflur Þessi dópsali er að selja græn epli og MDMA-hylki í margs konar skammtastærðum á Facebook.

Mynd: Facebook

Með skírskotun í hreinleika efnisins og að það sé enn í kristalformi, er þessi fíkniefnasali að auglýsa MDMA til sölu á Facebook á 18 þúsund krónur grammið.
„Ósnert MDMA“ Með skírskotun í hreinleika efnisins og að það sé enn í kristalformi, er þessi fíkniefnasali að auglýsa MDMA til sölu á Facebook á 18 þúsund krónur grammið.

Mynd: Facebook

Þessi dópsali er með úrval af efnum, frá kókaíni, kannabis til MDMA og amfetamíns og læknadóps.
Úrval Þessi dópsali er með úrval af efnum, frá kókaíni, kannabis til MDMA og amfetamíns og læknadóps.

Mynd: Facebook

Selt eins og sælgæti á Facebook

Ótal sölusíður fyrir fíkniefni er að finna á Facebook þar sem allt frá lyfseðilsskyldum lyfjum til kannabisefna og harðra fíkniefna gagna kaupum og sölum. Sölumennirnir setja inn auglýsingar, oftast undir dulnefni og falsprófílum, sem líta út eins og hverjar aðrar óformlegar smáauglýsingar í dagblöðunum. DV fann nokkrar auglýsingar fyrir e-pillur og MDMA-efni á einni slíkri síðu.

Markaðssetning á e-pillum hefur ávallt verið skrautleg og þær framleiddar í úrvali lita og merkja. Eins og sjá á meðfylgjandi myndum er þarna einn notandi að auglýsa grænar e-töflur með merki Apple-tölvurisans þrykkt í undir heitinu „Græna Eplið“. Stykkið af þeim kostar 3 þúsund krónur en kaupa má 10 stykki á 25 þúsund einnig. Er tekið fram að Grænu Eplin séu „mjög þjappaðar“ töflur.

Sami aðili er einnig að selja Mollý, sem er markaðssett sem hreinna MDMA, oft í duft- eða kristallaformi og hefur notið mikilla vinsælda í íslensku skemmtanalífi undanfarin misseri. Svo miklum raunar að talað var um Mollý-æði fyrir ekki svo löngu síðan. Framboðið og þar af leiðandi eftirspurnin virðist enn vera til staðar af auglýsingunum að dæma.
Eins og sjá má selur viðkomandi Mollý, sem einnig er kallað M eða Emmi, í duftformi í fremur sóðalegum hylkjum sem augljóst er að viðvaningur hefur fyllt á. Grammið af því kostar 16 þúsund krónur en efnið er fáanlegt í fjórum skammtastærðum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Barnaskólakennari drap manninn sinn og gróf líkið úti í garði

Barnaskólakennari drap manninn sinn og gróf líkið úti í garði
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Allt vitlaust út af brottrekstri Maríu Sigrúnar úr Kveik og kollegar grípa til varna – „Eru þau ömurlegu orð Ingólfi Bjarna til ævarandi minnkunar“

Allt vitlaust út af brottrekstri Maríu Sigrúnar úr Kveik og kollegar grípa til varna – „Eru þau ömurlegu orð Ingólfi Bjarna til ævarandi minnkunar“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Guðmundur Felix kastar inn handklæðinu

Guðmundur Felix kastar inn handklæðinu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Viktor er óvænti forsetaframbjóðandinn: Safnaði 1.500 meðmælendum nánast í kyrrþey – Kostnaðurinn aðallega tími,bensín og sjoppusamlokur

Viktor er óvænti forsetaframbjóðandinn: Safnaði 1.500 meðmælendum nánast í kyrrþey – Kostnaðurinn aðallega tími,bensín og sjoppusamlokur