Þann 12. maí síðastliðinn fjallaði DV um mál Þóru Sigríðar Njálsdóttur, sem lést þann 23. nóvember 2018, ein og afskipt í herbergi sínu á hjúkrunarheimili og var endurlífgun ekki reynd þegar komið var að henni, hún var 68 ára gömul.
Dætur Þóru Sigríðar töldu að andlát móður þeirra hefði komið til vegna vanrækslu starfsfólk á umönnun hennar, en þær höfðu ítrekað kvartað til Nesvalla, þar sem móðir þeirra hafði búið frá árinu 2014.
Í Facebook-færslu sem Fríður Hildur Hafsteinsdóttir, dóttir Þóru Sigríðar, skrifaði á mæðradaginn sagði hún að móður sinni hefði verið rænt frá sér.
Þóra Sigríður lést eftir að hafa kafnað á matarbita, en hún var látin eftirlitslaus í nokkra stund. Skýrt kom fram í öllum gögnum að hún mætti ekki matast eftirlitslaus, en Þóra Sigríður fékk heilablóðfall árið 2012 með þeim afleiðingum að hún þurfti aðstoð við að borða.
„Það kom fram að mætti ekki skilja hana eina eftir þegar hún væri að borða.
Við málstol þá lamast talfærin og þar af leiðandi er hættara við að standi í fólki. Hún mátti ekki borða ákveðinn mat, það þurfti að þykkja vökva, þetta er eitthvað sem starfsfólkið vissi og átti að vita,“ segir Fríður.
RÚV fjallaði um málið í gær og þar kom fram líkt og í frétt DV að Fríður og systur hennar leituðu til lögreglu og fóru fram á krufningu.
„Niðurstaðan var mjög skýr: Hún lést af því að það var matur fastur í hálsinum á henni. Það stóð í henni brauðbiti,“ segir Fríður í samtali við RÚV, sem leitaði eftir viðbrögðum frá Hrafnistu sem rekur Nesvelli.
Forstjóri Hrafnistuheimilanna sagðist ekki geta tjáð sig um einstök mál vegna þagnarskyldu við skjólstæðinga þeirra. Hann segir umræðu um málið leggjast þungt á starfsfólk. Fram kemur í svari að í öllum herbergjum sé bjöllu- eða öryggiskerfi sem sé fast við rúm eða stól. Einnig séu fáeinir íbúar með þráðlausan bjölluhnapp.
Í færslu sinni skrifar Fríður hins vegar: „Hún var ein inn í herbergi, föst í stól, með enga bjöllu og gat enga björg sér veitt.“
Í samtali við RÚV segir Fríður að ef móðir hennar hefði verið með bjöllu, þá hefðu hún alla vega átt möguleika á að hringja henni. „Ég veit ekki hvort hún hefði gert það, við vitum það ekki, en hún hefði átt möguleika á að bjarga lífi sínu, því að hún gat ekki kallað, hún gat ekki staðið upp og labbað og beðið um aðstoð, hún gat enga björg sér veitt. Hún var ein í lokuðu herbergi og gat enga björg sér veitt. “
Andlátið var tilkynnt til Landlæknis, sem lauk athugun sinni í febrúar. Niðurstaða Landlæknis er ekki opinber. Systurnar segjast enga tilkynningu hafa fengið um lyktir málsins frá Landlækni.