fbpx
Fimmtudagur 28.ágúst 2025
Fréttir

Segir frá kynferðisofbeldi og heiðursmorðum í Palestínu

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 18. maí 2019 14:59

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Palestína er í engu frábrugðin flestum arabalöndum þegar kemur að feðraveldinu. Staðreyndin er sú að konur fá ekki fullt sjálfstæði vegna efnahagslegra hamlana og þeirra fastmótuðu fjölskyldubanda sem að ætíð halda konum undir verndarvæng karla,“ skrifar Amira Khader á vef Stjórnarráðs Íslands. Amira er lögfærðingur og hefur stundað nám við Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

Amira birti í gær grein um verkefni sín og ástandið í Palestínu. Hún segir um hernám Ísraela:

„Palestína hefur verið undir hernámi Ísraels í 70 ár. Það að lifa og hrærast í stríði hefur í för með sér hörmungar, en það er einnig eins og tíminn hafi staðið í stað, líkt og þú sért fangi fortíðar. Ef þú berð Palestínu saman við aðra heimshluta, mun þér verða ljóst að lífi fólksins þar er á margan hátt ekki lifað í nútíðinni, né er því lifað fyrir það sem framtíðin ber í skauti sér, heldur er fólk rígbundið fortíðinni og leitast við að halda öllu eins og það var fyrir 100 árum. Þetta á sér sínar skýringar og er í raun hefðbundin afleiðing hernáms. Óttinn við að missa sjálfsmyndina og að búa við þá stöðugu ógn að vera borinn út úr húsnæði sínu hvenær sem er, hindrar Palestínumenn í að þróa eigin hugmyndir og að gangast við breytingum. Það sama á við um kynjajafnrétti, sem ekki er mál málanna í Palestínu. Ekki vegna þess að við höfum þegar náð jafnrétti kynjanna heldur vegna þess að það er nýtt áherslusvið sem þarf að læra um og tileinka sér.“

Amira segir að mjög skorti upp á jafnrétti kynjanna í Palestína, eins og í öðrum Arabaríkjum. Þá séu svokölluð heiðursmorð útbreidd:

„Palestína er í engu frábrugðin flestum arabalöndum þegar kemur að feðraveldinu. Staðreyndin er sú að konur fá ekki fullt sjálfstæði vegna efnahagslegra hamlana og þeirra fastmótuðu fjölskyldubanda sem að ætíð halda konum undir verndarvæng karla.

Sem lögfræðingur fannst mér mjög erfitt að sjá að hversu fáar konur eru dómarar við palestínska dómstóla. Þessir fáu kvendómarar fá einungis að fást við einföld mál en aldrei að kveða upp dóma í meiriháttar málum. Þetta er þó ekki eina dæmið um það hvernig kynjamisrétti endurspeglast innan dómskerfisins. Annað dæmi er hið djúpstæða óréttlæti sem endurspeglast í svokölluðum heiðursmorðum, sem sýnir hvernig líf kvenna er einskis metið. Enginn berst fyrir réttlæti fyrir hönd fórnarlamba heiðursmorða og flestum slíkum málum lýkur með dómssátt þar sem morðinginn greiðir fjölskyldu fórnarlambsins bætur og gengur síðan frjáls. Ég hef ætíð fundið hjá mér þörf fyrir að breyta þessu, að vekja konur til vitundar um réttindi sín, sýna þeim að það er eðlilegt að reyna að komast til æðstu metorða innan samfélagsins og einnig að fá konur til að standa saman til að breyta þessum lögum.“

Amira er að rannsaka kynferðislega áreitni á Vesturbakkanum og segir um þau mál í greininni:

„Lokaverkefni mitt hjá Jafnréttisskólanum fjallar um kynferðislega áreitni á Vesturbakkanum. Ég fjalla um skort á ákvæðum um kynferðislega áreitni í palestínsku refsilöggjöfinni, og hvernig lögin gera slíka skaðlega hegðun refsilausa. Þar að auki er kynferðisleg áreitni tabú í Palestínu og margir kæra slíkt athæfi ekki. Þar af leiðandi höfum við enga yfirsýn yfir umfang vandans, sem aftur leiðir til þess að vandamálið fær ekki þá athygli sem það á skilið.“

 Greinin í heild

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Óþrifnaður í sundlaugum – Íslendingar líka sóðar

Óþrifnaður í sundlaugum – Íslendingar líka sóðar
Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Dásamar austfirskan „sendiherra“ Íslands – „Þó hann sé með pólskt vegabréf og tali ekki fullkomna íslensku“

Dásamar austfirskan „sendiherra“ Íslands – „Þó hann sé með pólskt vegabréf og tali ekki fullkomna íslensku“
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Hagkaup vara við svikapóstum – Óvenju handstór kona lofar veglegri gjöf

Hagkaup vara við svikapóstum – Óvenju handstór kona lofar veglegri gjöf
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Trump með George Soros í sigtinu

Trump með George Soros í sigtinu
Fréttir
Í gær

Segjast ætla að taka viðvaranir ungmenna alvarlega

Segjast ætla að taka viðvaranir ungmenna alvarlega
Fréttir
Í gær

Ræða hvort birting á tekjum sé hnýsni eða verðmætar upplýsingar – „Líka hugsað á vissan hátt þannig að þetta kemur í veg fyrir gróusögur“

Ræða hvort birting á tekjum sé hnýsni eða verðmætar upplýsingar – „Líka hugsað á vissan hátt þannig að þetta kemur í veg fyrir gróusögur“