Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst neyðarkall frá rækjutogaranum Sóleyju Sigurjóns GK-200 klukkan 21:12 vegna elds sem var laus í vélarrúmi skipsins. Átta voru um borð en skipið var statt um 90 sjómílur norður af landinu.
Laust fyrir miðnætti kom togarinn Múlaberg og TF-LIF, þyrla Landhelgisgæslunnar, á vettvang. Línu var komið á milli skipanna og er Múlabergið með Sóleyju Sigurjóns í togi á leið til lands. Ákveðið var að fækka í áhöfn skipsins og voru tveir skipverjar hífðir um borð í TF- LIF sem heldur áleiðis til Akureyrar. Varðskipið Týr heldur eftir sem áður á móti skipunum og er gert ráð fyrir að varðskipsmenn kanni ástandið um borð í rækjutogaranum. Björgunarskipinu Sigurvin hefur verið snúið við.
Áhöfnin á Sóleyju Sigurjóns ræsti slökkvikerfi í vélarrúmi skipsins en skipverjarnir átta voru komnir í björgunargalla, heilir á húfi og héldu kyrru fyrir í brúnni. Eldurinn var þá slokknaður en skipið vélarvana og skipverjar þörfnuðust aðstoðar.