fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
FókusKynning

Lífshættulegt að taka vinnuna heim

Ný rannsókn sýnir alvarleg áhrif þess að hugsa um vinnuna heima fyrir – „Þetta gengur af fólki dauðu“

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 2. mars 2017 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Reykingar, drykkja eða neysla á óhollum fæðutegundum þurfa ekki að vera hættulegustu venjurnar í lífi fólks. Ný rannsókn sýnir að streitan sem fylgir því að taka vinnuna með sér heim, vera alltaf í sambandi og trufla þannig fjölskyldulífið – er sennilega skaðlegast af öllu. Þetta kemur fram í Sunday Times.

Freistingin til að sinna vinnunni utan vinnutíma gerir að verkum að tími fólks á heimilinu veldur því meira álagi en tíminn í vinnunni. Með rannsókninni, sem kostuð var af bresku tryggingafyrirtæki, hefur í fyrsta sinn tekist að tengja þá háttsemi, að vera alltaf tengdur, við hjarta- og æðasjúkdóma.

Rannsóknin leiðir í ljós að meira en helmingur vinnandi fólks í borgarsamfélögum finnur fyrir minna álagi í vinnunni en heima fyrir, þar sem togstreita á milli einkalífs og vinnunnar ræður ríkjum. Fólk laumast til að fylgjast með vinnunni – og þykist ekki fylgjast með vinnunni – en nær um leið ekki að slaka á.

Hvað er streita?

Af doktor.is
Hvað er streita?

Streitu má skilgreina sem ákveðin viðbrögð líkamans við álagi eða kröfum sem gerðar eru til okkar hvort sem þær eru ímyndaðar eða ekki. Öll streita, hvort sem hún er jákvæð eða neikvæð, veldur því að líkaminn fer að framleiða efni (líkt og adrenalín) til að búa okkur undir áreynslu. Hjartsláttur eykst, blóðþrýstingur hækkar, augun þenjast út og blóð streymir ekki til innyflanna. Hluti af taugakerfinu er háður þessum viðbrögðum. Svo er annar hluti taugakerfisins sem ber ábyrgð á hvíld, slökun, meltingu matvæla, ónæmiskerfinu og öllum öðrum „húsverkum“ líkamans. Líkaminn sveiflast á milli þessara tveggja kerfa sem í sameiningu mynda ósjálfráða taugakerfið.

Miklu alvarlegra en menn héldu

Rannsakendur festu á þátttakendur armbönd sem mældi púls og fylgdust þannig með álaginu. Niðurstöðurnar voru á þá leið að álagið jókst til muna þegar fólkið fór að fylgjast með vinnunni heima fyrir.

David Plans, einn höfunda rannsóknarinnar, segir að menn hafi lengi vitað að of mikil vinna veldur streitu. „Nú getum við séð hvernig þetta gerist. Þetta er miklu alvarlegra en við sáum fyrir. Þetta gengur af fólki dauðu. Nú getum við sýnt fram á að það er mjög skaðlegt að vinna heima, utan vinnutíma.“

Niðurstöður rannsóknarinnar birtust í nýjasta tölublaði Frontiers in Human Neuroscience.

Snjallsímar og fartölvur

Tryggingafélög eru nú sögð vera að fylgjast með starfsfólki þar sem álag er mikið til að komast til botns í því hvort skortur á þeim eiginleika að slíta sig frá vinnunni komi niður á frammistöðu þeirra til að sinna störfunum.

Haft er eftir Gordon Henderson, framkvæmdastjóra nýsköpunar hjá AXA PPP Healthcare, að tímarnir hafi breyst. Áður fyrr hafi fólk ekki getað fylgst með vinnunni heiman frá sér en með tilkomu snjallsíma, fartölva og annarra samskiptatækja, sé fólk alltaf tengt, hvort sem því líkar betur eða ver. „Þetta er fyrsta kynslóðin sem þarf að glíma við afleiðingar þessa.“

Börnin valda streitu

Unnið er að frekari rannsóknum í kjölfar þeirrar sem hér er rætt um. Þannig eru 550 starfsmenn franska bankans BNP Paribas, staðsettir í London, undir eftirliti. Frumniðurstöður sýna að barnafólk í hópnum glímir við hættulega mikla streitu til klukkan hálf níu á kvöldin, eða þar til yngri börnin eru sofnuð. Sumir glíma við mikla streitu allt fram að svefni.

Lítill hluti þátttakenda, eða um 25 starfsmenn, vaknar á nóttunni, á milli klukkan þrjú og fjögur, eftir grunnan svefn og leiðir hugann að vinnunni. Fólkinu í þeim hópi tekst ekki að hvílast þannig að það mæti endurnært til vinnu. Armböndin afhjúpuðu að sumir í þessum hópi nýttu tækifærið þegar þeir vöknuðu og lásu eða sendu tölvupóst í rúminu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Kynning
13.12.2023

Hlífðarpúðar sem aðlagast líkamanum vegna einstakrar tækni

Hlífðarpúðar sem aðlagast líkamanum vegna einstakrar tækni
Kynning
28.11.2023

Skúli fann heilsuna aftur í Póllandi – „Lífsgæði mín löguðust umtalsvert frá því að vera algjör sjúklingur eða öryrki yfir í að komast aftur á vinnumarkaðinn“

Skúli fann heilsuna aftur í Póllandi – „Lífsgæði mín löguðust umtalsvert frá því að vera algjör sjúklingur eða öryrki yfir í að komast aftur á vinnumarkaðinn“
Kynning
31.03.2023

Glæsilegir vinningar í Páskaleik DV: Taktu þátt fyrir 5. apríl

Glæsilegir vinningar í Páskaleik DV: Taktu þátt fyrir 5. apríl
Kynning
29.03.2023

Miklu meiri lífsgæði með Protis Liðum

Miklu meiri lífsgæði með Protis Liðum