Ökumaður sem var á ferð eftir Reykjanesbraut í gærmorgun mældist á 187 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er 90 kílómetrar á klukkustund. Var maðurinn því á rúmlega tvöföldum hámarkshraða.
„Lögreglan á Suðurnesjum handtók hann og færði á lögreglustöð vegna gruns um fíkniefnaakstur. Sýnatökur þar sýndu jákvæða niðurstöðu á tvær tegundir fíkniefna. Umræddur ökumaður ók sviptur ökuréttindum og hafði lögregla áður haft afskipti af honum vegna þess. Þá var hann eftirlýstur vegna annars máls,“ segir í skeyti frá lögreglu.
Þá segir að ökumannsins bíði ákæra og dómur vegna ofsaakstursins.