Ómar segir frá þessu á bloggsíðu sinni þar sem hann vísar í fréttir frá Bretlandi þess efnis að knattspyrnukappinn fyrrverandi David Beckham hafi verið sviptur ökuréttindum í hálft ár. Beckham var staðinn að því að nota farsíma undir stýri en áður hafði hann verið staðinn að hraðakstri. Þessi tvö brot gerðu það að verkum að hann var sviptur ökuréttindum.
Ómar segist þekkja nokkur dæmi um slys í umferðinni af völdum ökumanna sem eru með hugann við annað, til dæmis símann.
„Vinur minn ók fyrr í vetur að gatnamótum og stöðvaði bíl sinn, vegna rauðs umferðarljóss. Hann sá þegar hann leit í baksýnisspegil að bíll kom á miklum hraða aftan að honum í nokkur hundruð metra fjarlægð og nálgaðist hratt. Án þess að vinur minn fengi nokkra rönd við reist ók þessi aðvífandi bíll beint aftan á hann, eyðilagði bílinn í hörðum árekstri og veitti vini mínum hálsáverka, svo að hann gekk með hálskraga á eftir.“
Ómar nefnir svo annað dæmi um frænku sína sem lenti í árekstri fyrir nokkrum árum. Hún axlarbrotnaði svo illa að hún glímdi við afleiðingarnar í meira en ár á eftir og mun sennilega aldrei ná sér almennilega.
„Sjálfur var ég á rafreiðhjóli í upphafi árs og mætti þar manni á rafreiðhjóli, sem tók fyrirvaralaust upp á því að sveigja í veg fyrir mig, svo að ég axlarbrotnaði og skaddaðist á hné í árekstrinum. Hann hafði verið að lesa á mæli án þess að fylgjast hjólastígnum framundan.“
Slysið sem Ómar lenti í varð á hjólastígnum á Geirsnefinu þegar degi var tekið að halla. Ómar sagði í færslu sem hann skrifaði í apríl síðastliðnum að undanfarin fjögur ár hafi hann verið á ferli á rafreiðhjóli, vespu og minnsta rafbíl Íslands. Ferðalög hans hafi gefið gott tækifæri til að sjá hversu algeng símanotkunin er meðal ökumanna. Þá séu dæmi um fólk sem er með heyrnartól að hlusta á tónlist og heyrir ekki í bíflautu eða hjólabjöllu.
Í færslunni sem Ómar skrifaði í gær bendir Ómar á að þetta athyglisleysi sé hraðvaxandi orsök umferðarslysa hér á landi. Og einhverra hluta vegna yppti menn öxlum yfir því þótt verið sé að myndast við einhverja sekt.
„Og meira að segja því andmælt í athugasemd hér á síðunni að athugun Samgöngustofu á þessum nýja vanda sýni, að þessi orsök alvarlegra slysa og banaslysa sé orðin tíðari en slík slys af völdum ölvuaraksturs,“ segir Ómar og bendir á að öðru máli virðist gegna um Bretland. Nefnir hann mál Davids Beckham í því samhengi.
„Spurningar vakna um það, af hverju sé ekki takið harðara á og fylgst betur með snjallsímanotkun undir stýri hér á landi. Og hvers vegna harðari viðurlög liggi við ölvunarakstri en sjallsímanotkun, þótt snjallsímanotkunin sé engu skárri, jafnvel verri.“