Hús íslenskunnar rís loksins. Verkefnið hefur verið í 14 ár í vinnslu en nú verður hafist handa og mun hús íslenskunnar vera risið eftir um þrjú ár. Af þessu tilefni var Guðrún Nordal, forstöðumaður stofnunnar Árna Magnússonar í íslenskum færðum, gestur í Morgunvaktinni á Rás 1. Þar kom fram áhugaverð ástæða þess að ekki þótt fært að geyma handritin á efri hæðum byggingarinnar, heldur fremur í öruggum geymslum í kjallara.
„Við þurfum að gera miklar öryggiskröfur,“ sagði Guðrún, enda verða í húsnæðinu geymd þau handrit sem eru helsti menningararfur Íslendinga. Handritin okkar dýrmætu verða til húsa í Húsi íslenskunnar en einnig verður þar umfangsmikið og vandað rannsóknarbókasafn. Handritin verða geymd í rammgerðri handritageymslu á neðri hæðum.
„Það er búið að gera gríðarlega miklar rannsóknir á því hvar í húsinu væri best að koma handritunum fyrir. Það var til dæmis ekki talið öruggt að setja þau á efri hæðirnar því það væri hætta á því að flugvél flygi á húsið. Því við erum svo nálægt flugvelli. Það er hugsað fyrir öllu. Og það er stór þáttur í því að hafa handritin niðri en ekki uppi. Það var bara mat öryggisráðgjafa.“
Þessi ógn við öryggi virðist þykja nægjanleg til að handritin séu betur geymd á neðri hæðum hússins. Hins vegar býr mikið af Reykvíkingum í nágrenni við Arngrímsgötu 5 þar sem Hús íslenskunnar mun rísa. Til dæmis eru þarna stúdentagarðar í næsta nágrenni og Hótel Saga sem er hærri í loftinu heldur en Hús íslenskunnar mun verða. Engin ástæða hefur þó þótt að flytja íbúa bygginga á svæðinu á neðri hæðar eða í kjallara sökum þeirrar hættu að flugvél endi á byggingum þeirra. Handritin eru þó vel samofin sögu Íslendinga, eru mun eldri en íbúar borgarinnar og munu að öllum líkindum lifa okkur öll.
Guðrún Norðdal var að segja á Morgunvaktinni að í húsi íslenskra fræða mega handritin ekki vera á efri hæðunum vegna hættu á því að flugvél fljúgi á húsið. Þau eru nefnilega nálægt flugvelli… Þetta eru ráðleggingar öryggisfræðinga.
Nota bene það býr fullt af fólki þarna.
— Hrafnkell Sigurðsson (@hrafnkellsig) May 9, 2019