Landsréttur staðfesti á dögunum ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur um að hafna því að úrskurða ungan mann í gæsluvarðhald, þrátt fyrir að téður maður hafi lýst því yfir að hann ætlaði sér að fremja brot til þess að komast í frítt fæði og húsnæði í fangelsi. Maðurinn er grunaður um rán, húsbrot, líkamsárás gegn tveimur mönnum, vopnalagabrot, brot gegn valdstjórninni og brot gegn lögreglulögum á afar skömmum tíma, en brotin geta varðað allt að 10 ára fangelsi og að lágmarki 6 mánaða fangelsi.
Lögreglu barst tilkynning um rán á bensínstöð fyrir skemmstu. Starfsmaður þar greindi svo frá að:
„Maður hefði komið inn á bensínstöðina og hann hefði sett hettu fyrir andlitið. Maðurinn hefði svo komið að kassanum og skipað starfsmanninum að telja peninga sem voru í peningakassa bensínstöðvarinnar og í kjölfarið hafi maðurinn tekið peningana og hlaupið út. Peningaupphæðin hafi verið um 60.000 krónur.“
Áður en að lögregla kom að bensínstöðinni barst þeim tilkynning um að maður hefði ráðist inn í íbúðarhús og ætti þar í átökum við húsráðendur. Húsráðendur sögðu að maðurinn hefði ruðst óboðinn inn á heimili þeirra og farið að leitað að hníf í eldhúsinu.
„Annar húsráðanda kveður kærða hafa kýlt hann í andlit og hinn húsráðandi hafi lýst því að kærði hafi einnig kýlt hann í andlit.“
Þegar lögreglu bar að garði mátti heyra hljóð frá eldhúsinu eins og verið væri að róta í eldhússkúffum. Lögregla gaf öðrum íbúum fyrirmæli um að rýma húsið sem þeir og gerðu, þeirra á meðan var barn.
„Skömmu síðar hafi kærði komið ú túr húsinu vopnaður hníf. Lögreglumenn hafi gefið kærða fyrirmæli um að leggja frá sér hnífinn og leggjast niður en hann hafi engum fyrirmælum lögreglu hlýtt, heldur haldið ógnandi á hnífnum og gengið nær lögreglumönnum, í andstöðu við fyrirmæli þeirra.“
„Samkvæmt frásögnum lögreglumanna hafi þeir óttast um líf sitt í þessum aðstæðum. Lögreglumenn hafi beitt miklu magni piparúða gegn kærða sem virtist bera lítinn árangur í fyrstu en kærði hafi staðið kyrr og ríghaldið í hnífinn í andstöðu við fyrirmæli lögreglu.“
„Annar lögreglumanna hafi gripið til nálægrar skóflu til að verjast yfirvofandi hnífaárás kærða. Að lokum hafi piparúðinn haft áhrif, kærði hnigið niður og hafi hann verið handtekinn í kjölfarið.“
Við handtöku fundust um 60 þúsund krónur í fórum mannsins. Lögregla hafði samband við vitni sem maðurinn hafði hringt í rétt eftir að hann rændi bensínstöðina.
„Vitni hafi lýst því að kærði hefði hringt í sig og greint frá því að hann hefði rænt bensínstöð og hann ætlaði sér að finna hús til þess að ná sér í hníf og stinga lögregluna þegar hún kæmi. Vitnið hafi greint frá því að kærði hefði sagt við sig að hann vildi fara í fangelsi þar sem væri frír matur og húsnæði.“
Þegar lögregla yfirheyrði manninn bar hann við minnisleysi. Hann hefði komið úr meðferð fyrr um daginn og drukkið sig til óminnis.
Lögreglustjóra fannst tilefni til að hneppa manninn í gæsluvarðhald. Hann hefði lýst því yfir að hann ætlaði sér að komast í fangelsi og uppi væri rökstuddur grunur um að hann hefði gerst sekur um ofangreind brot.
„Lögreglustjóri telji að kærði hafi með háttsemi sinni sýnt fram á að hann veigri sér ekki fyrir sér að fremja ítrekuð ofbeldisbrot á samborgara sína, sem og lögreglu, og með því stofni hann lífi og heilsu annarra í hættu, við mat á því verði sérstaklega litið til þess að engin tengsl séu á milli kærða og brotaþolanna og í raun sé það tilviljun ein hver verði fyrir árásum kærða hverju sinni.“
Því var dómari ósammála. Atburðarás þessa dags hefði verið samfelld og átt sér stað á skömmum tíma. Ekki væri fyrir að fara sakferli hjá manninum sem máli gæti skipt og auk þess væri hann ungur að árum. Því þótti ekki nægilega leiddar líkur að því að hann héldi áfram að brjóta af sér. Landsréttur staðfesti svo ákvörðun Héraðsdómara.