Sigríður Á. Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra, minnist móður sinnar á Facebook-síðu sinni en Brynhildur K. Andersen var jarðsett í gær. Sigríður minnist meðal annars á að frétt um andlát Brynhildar var mest lesin á mbl.is, sömu viku og Sigríður sagði af sér embætti.
„Mamma mín var jarðsett í gær. Mikið er það undarlegt að finnast það óraunverulegt með öllu að geta ekki leitað til mömmu sinnar hvenær sem er, verandi sjálf komin langleiðina á gamals aldur. Þetta er jú lífsins gangur og á að vera svona en ekki hinsegin. Ég heyrði í mömmu nánast daglega og sjaldnast kannski með nokkurt erindi annað en einmitt það, að heyra í henni eða hún í mér. Síðan hún lést, 11. mars sl., hef ég hins vegar margoft átt við hana erindi sem ég sit nú uppi með. Það er nokkur huggun harmi gegn að nú er hún komin aftur í Vesturbæinn sinn og hennar jarðnesku leifar hvíla nú í næsta nágrenni við mig í Hólavallagarði,“ segir Sigríður.
Hún þakkar fyrir allar þær hlýju kveðjur sem hún hefur fengið eftir andlát móður sinnar. „Ég er óskaplega þakklát fyrir hlýju kveðjurnar sem mér og fjölskyldunni hafa borist. Þá hefur okkur þótt vænt um hversu margir nota tilefni sem þetta til þess að styrkja hin ýmsu líknarfélög,“ segir Sigríður.
Hún ímyndar sér svo hvað móður hennar hefði fundist um að frétt um andlát hennar væri mest lesin á fjölmiðli. „Mamma náði að trompa mig í fjölmiðlum vikuna sem hún lést. Frétt um andlát hennar var í heilan dag mest lesna frétt mbl.is. Ég get ímyndað mér að hún hefði haft um það að segja, „Nei, heyrðu Sigga, fólkið er brjálað. Les frétt um gamla kellingu sem féll frá. Það er þá ekki mikið í fréttum.“ Hún hefði haft lög að mæla. En hefði haft lúmskt gaman af.“