Erlendur karlmaður var handtekinn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar fyrir helgina eftir að í farangri hans fannst mikið magn af sígarettum eða 32.800 stykki. Lögreglan á Suðurnesjum tók skýrslu af manninum og kvaðst hann þá hafa ætlað að verða sér úti um peninga með því að selja sígaretturnar hér á landi. Honum var sleppt að lokinni skýrslutöku.
Þetta kemur fram í skeyti frá lögreglunni á Suðurnesjum.
Þar segir að fleiri borð hafi komið inn á borð lögreglu sem tengjast farþegum í flugstöðinni. Þannig stöðvaði tollgæslan mann með neysluskammta af LSD og annan sem var með kannabisolíu í fórum sínum.
Síðastliðinn föstudag handtók svo lögregla karlmann sem var að koma frá London með umtalsvert magn af verkjalyfinu Oxycontin og svefnlyfjum innan klæða. Hann var færður á lögreglustöð til skýrslutöku.