„Að öllu jöfnu fljúga drottningarnar um á þessum tíma árs nývaknaðar af vetrardvalanum, iðnar við að lepja í sig hunangssafa víðireklana, safna frjókornum þeirra og leggja drögin að sumarbúskapnum. En mun minna hefur farið fyrir þeim núna á suðvestanverðu landinu en venjulega.“
Þetta segir Erling Ólafsson skordýrafræðingur sem heldur úti Facebook-síðunni Heimur smádýranna. Þar hefur Erling birt í gegnum tíðina ýmsan fróðleik um smádýrin við góðar undirtektir fylgjenda.
Erling skrifar um hunangsflugurnar, eða humlurnar, í pistli sem hann birti í morgun og bendir hann á að tiltölulega lítið hafi farið fyrir þeim það sem af er vori.
„Líklega er rigningin samfellda síðastliðið sumar að valda þessu. Í fyrrasumar áttu þernur í erfiðleikum með að fljúga um og afla fanga í rennblautum blómunum. Framleiðsla nýrra haustdrottninga varð af þeim sökum með minnsta móti,“ segir Erling og bætir við:
„Ef minnið er ekki að bregðast þá hefur viðjan oft verið iðnari við að blómgast en þetta vorið. Hún er humlunum í görðum okkar afar mikilvæg sem fyrsta orkulind. Nú er bara að vonast eftir góðri sumartíð svo humlurnar nái að byggja sig upp á ný. Fátt er sumarlegra en suðandi humlur flögrandi á milli blóma í góðviðri. Að öllu jöfnu er það húshumlan sem lætur mest fyrir sér fara á vorin.“