Gunnar Þorsteinsson, betur þekktur sem sem Gunnar í Krossinum, er einlægt á móti því að leyfa fóstureyðingar og ætti það ekki að koma neinum á óvart. Í færslu á Facebook kemur hann þó með ansi nýstárleg rök gegn þungunarrofi, en hann segir að Ísland hafi þurft að flytja inn erlent vinnuafl til að vega á móti því.
„Sú var tíðin að móðurkviður var öruggt skjól fyrir hið ófædda barn. Nú er það eini staðurinn þar sem Íslendingar eru réttdræpir. Vanfær kona gengur með líkama annars einstaklings. Enn segir í heilagri Ritningu „þú skalt ekki mann deyða.“ Ég er þeirrar skoðunar að ófætt barn sé hælisleitandi og lífið frá getnaði til grafar sé heilagt,“ segir Gunnar.
Hann telur að um 40 þúsund fóstrum hafi verið eytt frá lögleiðingu. „Frá því að fóstureyðingar voru lögleiddar á Íslandi hafa um fjörutíu þúsund börn farið undir hnífinn. Til að fylla í þessi skörð höfum við flutt inn erlent vinnuafl. Ég er sannfærður um að hið saklausa blóð sem úthellt er daglega hér á landi hrópi upp í himinn Guðs. Menn þurfa að gæta að sér,“ segir Gunnar.
Samkvæmt nýju frumvarpi um þungunarrof frá Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra verður mæðrum heimilt að eyða fóstri sínu fram að 23. viku meðgöngu, í stað 16. vikna líkt og núgildandi lög kveða á um, að gefnum vissum forsendum. Markmið frumvarpsins er að tryggja að sjálfsforræði kvenna sem óska eftir þungunarrofi sé virt með því að veita þeim öruggan aðgang að heilbrigðisþjónustu.
Hefur frumvarpið vakið mikla umræðu og fólk skiptist talsvert í fylkingar vegna málsins. Pólarnir virðast fyrst og fremst vera kristið fólk annars vegar og femínistar hins vegar. Þó virðist sem fleiri Íslendingar séu fylgjandi frumvarpinu en andvígir. Frumvarp Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um þungunarrof var samþykkt með miklum meirihluta atkvæða að lokinni annarri umræðu á Alþingi á dögunum en endanleg atkvæðagreiðsla fer fram eftir viku.