Þórarinn Ævarsson, sem lét af störfum sem framkvæmdastjóri IKEA í gær, er sagður vinna að því að opna pitsukeðju hér á landi. Þetta kemur fram í Markaðnum, viðskiptablaði Fréttablaðsins, í dag en blaðið vísar í heimildir sínar. Þórarinn vildi ekki tjá sig um málið, að því er segir í fréttinni.
Eins og mörgum er kunnugt var Þórarinn einn af mönnunum á bak við komu Domino’s hingað til lands árið 1993. Þórarinn var rekstrarstjóri pítsukeðjunnar og vakti hann mikla athygli á dögunum þegar hann sagði frá hugmynd sinni um Megaviku. Þórarinn er því vel kunnugur því að rekja pitsukeðju.
„Ákveðnir aðilar sóttu stíft á mig að hækka verðið þar sem hagnaður á hverja pítsu minnkaði. Það var hins vegar horft framhjá því að magnið var stöðugt að aukast og hvert hagnaðarmetið af öðru féll. Og röksemdin var kunnugleg. Það er rými fyrir hækkun, jafnvel þó á því sé ekki þörf,“ sagði Þórarinn.
Í frétt Markaðarins kemur fram að óvíst sé hvaða sérleyfi Þórarinn hafi hug á að fá til landsins. Nefndar eru til sögunnar stórar pitsukeðjur eins og Papa John’s og Little Cesars sem ekki eru hér á landi.