Gulu vestin, sem hafa boðað fjölda mótmæla hér á landi, hvetja alþýðu Íslands til að sniðganga fyrirtækið Ömmubakstur. Þetta kemur fram í færslu sem hreyfingin birtir á Facebook en rót hennar er að öllum líkindum tilkynning um að fyrirtækið myndi hækka verð á allri vöru frá og með 1. maí.
„Kapítalisminn hefur mörg andlit en aðeins eitt eðli, eiginhagsmuni. Ömmubakstur er eitt þeirra fyrirtækja sem hefur lýst því yfir að vilja taka strax af láglaunafólki allan ávinning af launahækkunum nýgerðra kjarasamninga,“ segir í yfirlýsingu Gulu vestanna.
Á dögunum var greint frá því að verð á öllum vörum Gæðabaksturs, Ömmubaksturs og Kristjánsbakarís myndi hækkar um 6,2 prósent og var ástæðan meðal annars rakin til launahækkana. „Það eru því ekki góðlegar ömmur sem standa að þessu fyrirtækinu, eldri konur sem hafa lært það af reynslunni að ekkert er mikilvægara en að hlúa að ungviðinu og þeim sem eru fátæk, lasin eða standa af öðrum ástæðum veikt í samfélaginu. Ó, nei, Ömmubakstur er í reynd ömurlegt kapítalískt fyrirtæki sem er skítsama um neytendur og launafólk en hefur þann eina tilgang að gera eigendur sína enn ríkari,“ segir í yfirlýsingu Gulu vestanna.