Húsnæðissamvinnufélagið Búseti hækkaði húsaleigu á leiguíbúðum sínum um 5% fyrir um mánuði síðan. Þetta kemur fram í bréfi félagsins til leigjanda sem hann sendi DV mynd af. Í bréfinu er hækkunin sögð nauðsynleg til að tryggja örugga leigu til framtíðar. Kostnaður við rekstur fasteigna hafi hækkað talsvert á síðustu misserum, viðhaldskostnaður og fasteignagjöld sem hafi hækkað í takt við fasteignamat.
Leigjandinn sem hér á í hlut leigir þriggja herbergja íbúð sem er um 100 fermetrar. Fyrir hækkun var leigan 216.567 krónur með hússjóði en eftir hækkun er þetta komið upp í 227.503 kr.
„Búseti er hússnæðissamvinnufélag sem rekið er án hagnaðarsjónarmiða og er í eigu félagsmanna hverju sinni. Félagið var stofnað árið 1983 og býður í dag upp á rúmlega 900 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu og Akranesi. Þar af heyra um 200 undir Leigufélag Búseta.“ Þetta kemur fram á heimasíðu félagsins og einnig það að félagsaðild í Búseta er öllum opin óháð aldri og búsetu.