fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Fréttir

Veiðileyfasalar uggandi yfir óvæntum afbókunum

Óttast að 2018 verði þungt í skauti vegna gengisins – Bretar hætta við veiðiferðir

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 26. mars 2017 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gengisstyrking krónunnar og fall pundsins gerir veiðileyfasölum erfitt fyrir. Þess eru allmörg dæmi að stór holl á besta tíma í íslenskum veiðiám hafi afbókað ferðir sínar fyrir sumarið. Veiðileyfasölum ber saman um að Bretar fari þar fremstir í flokki. Þeir séu sýnd veiði, í orðsins fyllstu merkingu, en ekki gefin.

„Þeir segja að við hefðum þurft að færa niður verðið en við erum með verðtryggðan samning á ánni.“

Á heildina litið leigutakarnir sig þó vel, eins og venjulega, og telja sig ekki í vandræðum. Flestir eru þeir þó á því að aðrir en þeir sjálfir finni meira fyrir gengisbreytingum og afbókunum þeirra vegna. Einhverjir létu um leið í það skína, að það kæmi sér ekki vel fyrir viðskiptin að gangast við því að orðrómur um trega sölu ætti við rök að styðjast. Slíkt gæti seinkað sölu á veiðileyfum til Íslendinga, sem séu tækifærissinnaðir.

Óvæntar afpantanir

„Vegna óvæntra afpantana er nú talsvert til af lausum stöngum í Litluá á góðum tíma, t.d. seinni hluta júní og fyrra hluta júlí.“ Svo hljómar tilkynning frá leigutaka Litluár í Kelduhverfi, en um er að ræða einhverja fengsælustu silungsveiðiá landsins. Sturla Sigtryggsson í Keldunesi segir í samtali við DV að þrjú vikuholl – hópar veiðimanna sem veiða í viku – hafi afbókað ferðir sínar nýlega.

„Þeir segja að við hefðum þurft að færa niður verðið en við erum með verðtryggðan samning á ánni. Við getum ekki fellt verðið.“ Sturla segir að um helmingur veiðimanna í ánni séu útlendingar; flestir frá Skandinavíu, Bretlandseyjum auk Bandaríkjamanna og Þjóðverja. Helst séu það Bretarnir sem hafi afbókað.

Nokkur umræða hefur í fjölmiðlum verið um afbókanir á ferðum til Íslands. Þar leikur styrking krónunnar stórt hlutverk. Þó er rétt að halda til haga að undanfarin misseri hefur fjölgun ferðamanna sem til Íslands koma verið ævintýraleg og flest virðist benda til þess að ferðamönnum muni halda áfram að fjölga.

Bretarnir bakka

DV ræddi við fimm leigutaka og veiðileyfasala vegna fréttarinnar. Þeim ber flestum saman um að Bretar haldi að sér höndum en þeir hafa verið fyrirferðarmiklir við íslenska árbakka undanfarin ár. Menn eru almennt á því að gengið gangi nærri hluta þeirra útlendinga sem hér hafa veitt en að ekki sé hægt að tala um meiriháttar hremmingar.

Kristján Benediktsson er sölustjóri hjá SVFR. Hann segir við DV að félagið hafi aðeins fundið fyrir því að viðskiptavinir hafi afbókað veiðileyfi. Hann segir þó að stærstur hluti viðskiptavinanna sé íslenskir meðlimir stangaveiðifélagsins og þar greini hann uppgrip. „Við finnum hins vegar fyrir því að Bretarnir, sérstaklega silungsveiðimennirnir, hafa haldið að sér höndum, en félagið leigir út tvö af flottari silungsveiðisvæðum landsins, í Mývatnssveit.

Þarf aukningu á hverju ári

„Það er ekki mikið minni sala en í fyrra,“ segir Matthías Þór Hákonarson hjá Iceland Fishing Guide. „En það þarf að vera aukning á hverju ári því samningarnir eru bundnir vísitölu.“ Félagið selur veiðileyfi í fimm silungs- og laxveiðiár á Norðausturlandi. Hann segir fjölgun erlendra ferðamanna vega að mestu upp á móti þeim föstu hollum sem helst hafi úr lestinni. Mikið sé af túristum sem kaupi einn dag eða tvo með skömmum fyrirvara á sumrin. Þar sé um að ræða veiðimenn sem ekki komi gagngert til Íslands til þess að veiða.

Jóhann Ólafsson, sölustjóri hjá Lax-á, sem meðal annars hefur Blöndu á sínum snærum, segir að í kjölfar Brexit hafi Bretar ekki komið í sama mæli og áður. Það hafi vissulega áhrif á reksturinn. Á heildina litið gangi veiðileyfasala vel og sé á svipuðum nótum og í fyrra. Hann segir aðspurður að sala til Íslendinga sé svipuð og verið hafi, en veiðileyfasalar segja þó almennt að Íslendingar panti ekki veiðileyfi með sama fyrirvara og útlendingar. Nú fari fiðringurinn að koma í menn. Jóhann segir almennt að lítið svigrúm sé fyrir íslenska leigutaka að hækka verð á laxveiðileyfum á Íslandi. Sterkt gengi krónunnar leiki þar stórt hlutverk.

Metárin hjálpa í Miðfjarðará

Fáir leigutakar á Íslandi eiga jafn mikið undir viðskiptum við útlendinga og Rafn Valur Alfreðsson, leigutaki Miðfjarðarár og eigandi Fishing and Hunting Destinations. Hann segir að án þess að hafa reiknað það út, þá telji hann að 95 prósent viðskiptavina séu útlendingar. „Við höfum verið með mjög hátt hlutfall af Bretum, kannski um 70 prósent.“ Hann segir við DV að allnokkrir Bretar hafi gengið úr skaftinu, þá aðallega á svokölluðum jaðartímum. Á móti því vinni að undanfarin tvö ár hafi í Miðfjarðará verið þau fengsælustu frá upphafi.

„Við erum með frábæra vöru. Við höfum verið með lista af fólki sem vill koma. En það má alveg segja að við höfum þurft að hafa meira fyrir því að selja þetta núna en hingað til – jafnvel þótt við höfum farið í gegnum tvö bestu ár sögunnar í ánni.“

Rafn segir við DV að þegar hann horfi á þessar aðstæður í gengismálum séu ekki margar ár sem hann myndi treysta sér til að selja. Pundið hafi á farið úr 206 krónum í 138 á einu og hálfu ári. Fall pundsins eitt og sér hafi leitt til þess að Bretar haldi að sér höndum þegar kemur að ferðalögum en fall þess gagnvart krónunni sé viðbót sem snúi bara að Íslandi.

Hafa áhyggjur af 2018

Veiðileyfasalar segja við DV að þótt salan fyrir sumarið 2017 hafi sumpart gengið mjög vel, séu menn uggandi yfir næsta laxveiðisumri, 2018. Einn viðmælandi DV bendir á að ágúst og september séu stærstu mánuðirnir þegar kemur að sölu laxveiðileyfa til útlendinga. Í ágúst í fyrra hafi pundið verið í um 160 krónum og evran í 130 til 134. Síðan þá hafi gengið krónunnar styrkst mikið og pundið sé komið niður fyrir 140 krónur. Leyfin verði þannig enn dýrari fyrir útlendinga á næsta sumri, ef ekki verði breyting á gengismálum. „Það er ekki öruggt að salan verði upp á marga fiska,“ segir hann.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Barnaskólakennari drap manninn sinn og gróf líkið úti í garði

Barnaskólakennari drap manninn sinn og gróf líkið úti í garði
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Allt vitlaust út af brottrekstri Maríu Sigrúnar úr Kveik og kollegar grípa til varna – „Eru þau ömurlegu orð Ingólfi Bjarna til ævarandi minnkunar“

Allt vitlaust út af brottrekstri Maríu Sigrúnar úr Kveik og kollegar grípa til varna – „Eru þau ömurlegu orð Ingólfi Bjarna til ævarandi minnkunar“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Guðmundur Felix kastar inn handklæðinu

Guðmundur Felix kastar inn handklæðinu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Viktor er óvænti forsetaframbjóðandinn: Safnaði 1.500 meðmælendum nánast í kyrrþey – Kostnaðurinn aðallega tími,bensín og sjoppusamlokur

Viktor er óvænti forsetaframbjóðandinn: Safnaði 1.500 meðmælendum nánast í kyrrþey – Kostnaðurinn aðallega tími,bensín og sjoppusamlokur