Myndband sem birtist í Facebook-hópnum FFH á Íslandi vakti mikla athygli um páskana, en sumir halda að á myndbandinu megi sjá fljúgandi furðuhlut.
Myndbandið sem tekið var á Reykjanesbrautinni á laugardag sýnir hvítan depil sem virðist svífa um himininn. Myndbandið er þó heldur óljóst en þessi grunsamlegi hlutur virðist vera í órafjarlægð.
DV bar myndbandið undir Sævar Helga Bragason, sem er gjarnan kallaður Stjörnu-Sævar, sem sagði í samtali við DV að honum þætti afar ólíklegt að um geimskip væri að ræða – eðlilega kannski.
„Er þetta ekki bara bátur? Það sést nú samt ekki mikið á myndinni,“ segir Sævar. „Ég er ekki viss um að það sé verið að horfa upp í himininn, er ekki verið að horfa í átt að sjónum?“
Myndbandið umtalaða má sjá hér fyrir neðan: