Brandur Karlsson, framtíðarfræðingur, er úti í Nepal að kynna sér óhefðbundnar lækningar og Nepalskt heilbrigðiskerfi. Brandur lamaðist frá hálsi niður fyrir um áratug síðan. Ástæðan er ekki að fullu þekkt, en talið að hann hafi fengið einhvers konar bakteríusýkingu. Annað markmið ferðar hans til Nepal er að leggja stund á sjúkraþjálfun. Utan um ferðina hefur verið stofnun Facebook síða þar sem fylgjast má með ævintýrum hans.
Í nýjustu færslunni er tilkynnt að Brandur og föruneyti hafi ákveðið að framlengja dvöl sína í Nepal. Sjúkraþjálfunin hjá Brand hefur gengið vonum framar og eftir heimsókn til eins fremsta taugalæknis Nepals virðast horfur hans góðar.
„Bletturinn í heilastofni Brands er ekki jafn áberandi og hann var og túlkaði læknirinn það sem framför og ráðlagði áframhaldandi endurhæfingu og nálastungumeðferð“
Í færslunni er bent á að segulómtækið á Íslandi er orðið um tveggja áratuga gamalt, á meðan vélin í Nepal var aðeins fjögurra ára. Brandur mun nú hefja reglulega nálastungumeðferð og sýnir að sögn stöðugt meiri og meiri framfarir.
„Hann er farinn að geta staðið uppréttur með minni og minni stuðningi frá öðrum. Einnig getur hann núna staðið á fjórum fótum óstuddur. Þetta er eins og þegar lítið barn fer að læra að labba. Fyrst liggur það á maganum, svo kemst það á 4 fætur nær jafnvægi og byrjar að skríða, næst standa og svo fer það að labba. Þetta er ekkert ósvipað process sem Brandur er að fara í gegnum.“
Sérfræðingurinn, Rahul, heldur utan um þjálfun Brands og kennir jafnframt teyminu hans réttu tökin svo hægt sé að halda áfram þegar hópurinn snýr aftur til Íslands.