Kolbeinn Marteinsson, framkvæmdastjóri Athygli almannatengsla, segir að bóndinn Ólafur Þorláksson hafi verið duglegasti maður sem hann hafi kynnst og saknar þess að borgarbörn fari í sveit. Í sveitinni læri maður vinnusemi og dugnað. Þetta kemur fram í bakþanka hans í Fréttablaðinu í dag.
Kolbeinn fór í sveit að Hrauni í Ölfusi nokkur sumur þegar hann var unglingur, hjá bóndanum Ólafi Þorlákssyni sem var:„duglegasti maður sem ég hef nokkru sinni kynnst enda maður sem hafði uplifað heimskreppuna og erfiðisvinnu allt sitt líf.“
„Honum fannst ég alger aumingi fyrst enda samanstóð ferilskrá mín af starfsreynslu úr Unglingavinnu Kópavogs. Hann sagði það þó aldrei með berum orðum fyrr en síðar.“
Kolbeini er þó minnistætt kvöld eitt, skömmu eftir að hann komi í sveitina, þegar hann lenti í „hræðilegum atburð“ í fjósinu.
„Þar sem ég stóð fyrir aftan eina kúna við spenaþvott við mjaltir, fann ég hlandvolgt kúahlandið renna yfir höfuð mér og bak þar sem ég klöngraðist milli skepnanna. Meðan ég bölvaði og þurrkaði hlandið úr tárvotum augunum fann ég til algerrar uppgjafar og vonleysis. Hvernig gat nokkur maður átt svona skilið?“
Þar hafði Kolbeinn hlotið hlandskírn, eins og hann kallar hana, og segir að þarna hafi hann náð botni á sveitamennsku sinni, og frá botninum liggur leiðin aðeins upp á við. Eftir þetta fór starfið að reynast honum auðveldara og hann fór að finna fyrir meiri ánægju. Svo þegar dugnaðarforkurinn Óli bóndi hrósaði honum í fyrsta skiptið fékk hann: „gæsahúð og tár í augun af geðshræringu og lífið varð allt í einu helvíti gott.“
Borgarbörn í dag hafa ekki jafn mörg tækifæri á að komast í sveit og Kolbeinn hafði þegar hann var ungur. Það finnst honum miður því sveitin sé góður skóli og telur Kolbeinn að íslenskur vinnumarkaður yrði betri ef allir færu í sveit á sumrin.
„Þarna lærði maður að vinna og skilning á því að árangur er oftast langhlaup og snýst um að gefast aldrei upp. Það verður allt betra á endanum.“