

Thomas Frederik Møller Olsen, sem liggur undir grun um að hafa banað Birnu Brjánsdóttur, var á fimmtudag úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna.
Nikolaj Olsen, sem var einnig handtekinn og úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald þann 18. janúar síðastliðinn, kom fyrir dómara á fimmtudag og staðfesti þar vitnisburð sinn sem hann gaf hjá lögreglu. Ekki var lögð fram krafa um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir honum.
Nikolaj er því frjáls ferða sinna og er ekki í farbanni. Ástæða þessa er að rannsókninni hefur miðað vel og telst hans hlutur nægilega upplýstur.
„Ef hann væri sakaður um manndráp þá gengi hann að sjálfsögðu ekki laus,“ sagði Jón H. B. Snorrason í samtali við RÚV á fimmtudag um aðkomu Nikolaj Olsen að hvarfi Birnu.
Í tilkynningu til fjölmiðla frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir að ekki sé unnt unnt að veita frekari upplýsingar um rannsókn málsins að svo stöddu.
DV ræddi við Unnstein Elvarsson, lögmann Nikolaj, á fimmtudag sem sagði að tveggja vikna einangrunarvistin hefði haft slæm áhrif á umbjóðanda hans.
Unnsteinn segist aðspurður gera ráð fyrir því að Nikolaj haldi til síns heima, fái hann leyfi til þess, nú þegar hann er laus úr varðhaldi. „Ef honum verður leyft að fara þá reikna ég með því.“