

Þrír nemendur í 9. bekk Hólabrekkuskóla í Reykjavík voru fluttir á sjúkrahús á miðvikudag með 1. og 2. stigs brunasár eftir slys í eðlisfræðistofu.
Nemendur voru þar að gera tilraun sem fól í sér notkun á eldfimu efni. Ekki vildi betur til en svo að eldurinn mun hafa læst sig í föt barnanna sem flutt voru á sjúkrahús með sjúkrabíl.
Skólastjóri Hólabrekkuskóla sendi foreldrum og forráðamönnum póst vegna málsins sama dag þar sem kom fram að líðan barnanna væri eftir atvikum góð. Skólastjórinn, Hólmfríður G. Guðjónsdóttir, segir í samtali við RÚV að rætt hafi verið við nemendur skólans vegna atviksins auk þess sem póstur var sendur á forráðamenn. Þeim sem töldu sig þurfa stóð til boða að fá áfallahjálp hjá sérfræðingum skólans. Þá hafi skólaskemmtun sem fyrirhuguð var á miðvikudagskvöld verið aflýst vegna atviksins.
Tvö barnanna voru komin heim á fimmtudag, en eitt þeirra var enn á spítala til aðhlynningar. Skólastjórinn kveðst hafa fengið þau skilaboð frá foreldrum barnanna um að þau muni ná sér að fullu.