fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Fréttir

Syndir, sigrar og sviðin jörð Kristins

Ris og fall Brautarholtsbræðra – Eitt stærsta gjaldþrot Íslandssögunnar – Dauður kjúklingur í fjöru – Hundruð tonna af svínaskít í sjóinn

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Föstudaginn 2. desember 2016 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Brautarholt er kirkjustaður frá fornu fari og þekkt stórbýli. Jörðin er óðalsjörð og er þess vegna enn í eigu Kristins Gylfa Jónssonar þrátt fyrir að hann eigi eitt stærsta persónulega gjaldþrot Íslandssögunnar á ferilskránni. Kristinn var úrskurðaður gjaldþrota árið 2004 og fengust engar greiðslur upp í kröfur sem námu 1.200 milljónum króna. Kristinn var sakaður um að mismuna kröfuhöfum og þegar bjóða átti upp jörðina flæktust málin. Jörðin var veðsett en þar sem um óðalsjörð var að ræða var ekki hægt að taka jörðina af Kristni og bræðrum hans. Hún er því enn í dag í eigu þeirra.

Faðir Kristins, Jón Ólafsson, og föðurbróðir, Páll Ólafsson, tóku við búi af föður sínum árið 1954. Þar ráku þeir bræður grasmjölsverksmiðju frá 1963 og einu einkareknu graskögglaverksmiðju landsins frá 1972 til 1999. Frá árinu 1982 rak Jón svo svínabú ásamt sonum sínum sem seinna varð stórveldi á íslenskum markaði. Keyptu þeir feðgar hluti í ýmsum fyrirtækjum. Jón lét einnig til sín taka í Sjálfstæðisflokknum.

Það átti eftir slettast upp á vinskapinn hjá þeim bræðrum, Jóni og Páli, sem höfðu rekið sín fyrirtæki í mesta bróðerni. Páll lokaði graskögglaverksmiðjunni og hans hluti jarðarinnar varð síðar golfvöllur. Jón hóf með sonum sínum uppbyggingu á nútíma svínabúi á jörðinni en svínarækt hafi verið þar allt frá árinu 1957. Jörðinni var skipt árið 1989 á milli bræðranna. Árið 1997 ákváðu Jón og synir hans að stækka búið; gyltur höfðu verið 270 en urðu nú 560. Var Páll ósáttur við að bróðir hans og frændur byggðu svínabúið í aðeins 325 metra fjarlægð frá íbúðarhúsi hans þegar heilbrigðisreglur kváðu á um að minnst 500 metrar væru á milli slíks bús og íbúðarhúss. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála ákvað engu að síður að samþykkja byggingu svínabúsins.

Aftur lenti þeim bræðrum saman þegar Páll hélt því fram að Kristinn og synir hans hefðu sturtað þúsundum tonna af svínaskít í sjóinn. Veitti heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur svínabúinu áminningu vegna sóðaskaparins. Á þeim tíma var framleiðslugeta Brautarholtsbúsins 12.000 eldisgrísir en í búinu voru 560 gyltur. Áætlað var að 12.800 tonn af skít kæmu frá búinu á hverju ári. Þá var búið rekið án starfsleyfis árið 2000. Sáust leifar af skítnum í fjörunni. Frá þessu er greint í janúar árið 2000. Það var þó ekki fyrr en tæplega ári síðar að búinu var bannað að dæla meiri svínaskít í sjóinn. Brautarholtsbúið hafði áður ratað á síður blaðanna vegna sóðaskapar en árið 1992 þurfti Kristinn að svara fyrir það að sturta dauðum kjúklingum niður í fjöru. Sagði heilbrigðisstarfsmaður að um vítavert athæfi væri að ræða. Viðurkenndi Kristinn að um ámælisvert brot væri að ræða. Hélt hann því fram að kjúklingunum hefði verið sturtað í fjöruna fyrir mistök.

Ris og fall

Þegar allt lék í lyndi í bræðraveldi. Bræðurnir ætluðu sér stóra hluti. Ásamt föðurnum fyrir framan nýja svínabúið. F.v.: Jón Bjarni Jónsson, Björn Jónsson, Kristinn Gylfi Jónsson, Ólafur Jónsson og Jón Ólafsson.
Stórhuga bændur Þegar allt lék í lyndi í bræðraveldi. Bræðurnir ætluðu sér stóra hluti. Ásamt föðurnum fyrir framan nýja svínabúið. F.v.: Jón Bjarni Jónsson, Björn Jónsson, Kristinn Gylfi Jónsson, Ólafur Jónsson og Jón Ólafsson.

Upp úr 2000 gerðust Kristinn og bræður hans afar umsvifamiklir í íslensku viðskiptalífi. Áður höfðu Brautarholtsfeðgar komið sér upp kjúklingabúi en þeir keyptu í Móabúinu árið 1985. Móabúið var það ár með um 8 prósenta markaðshlutdeild á kjúklingamarkaði. Árið 2000 var Móabúið með um þriðjung á markaði. Fyrirtækið Nesbú var svo með minnst 45 þúsund hænur.

Kristinn og bræður hans höfðu stækkað svínabúið hratt og við uppbyggingu keyptu þeir sig inn í fyrirtæki sem voru að vinna vörur úr svínakjöti. Í umfjöllun Morgunblaðsins segir að Kristinn hafi séð fyrir sér að með betri aðgangi að markaðinum væri nauðsynlegt að fjárfesta í kjötvinnslufyrirtækjum. Árið 1999 keypti svínabúið Kjötvinnslu Sigurðar í Kópavogi og nafni fyrirtækisins var breytt í Kjötvinnslan Esja ehf. Þá keyptu þeir hið sögufræga fyrirtæki Síld & fisk ári síðar, fyrrverandi eigandi, Þorvaldur Guðmundsson, var þekktur fyrir að greiða hæstu skatta árum saman. Síld & fiskur rak svínabú á Minni-Vatnsleysu og kjötvinnslu í Dalshrauni í Hafnarfirði en vörurnar voru framleiddar undir vörumerkinu Ali. Kaupverðið var einn milljarður og allt tekið að láni. Þetta þýddi að Brautarholtsfeðgar voru nú með 30 prósenta markaðshlutdeild í svínarækt. En ekki var numið staðar þar. Bræðurnir héldu áfram að kaupa. Árið 2001 eru keypt 23,87 prósent í SS og þá keypti félag sem Kristinn Gylfi átti sjálfur 5,89 prósenta hlut í SS.

Feðgarnir keyptu svo næststærsta eggjabú landsins, Nesbú sem þeir seinna misstu og hefur nú hætt að selja egg frá Brúneggjum. Aftur punguðu þeir feðgar ekki út krónu, allt tekið að láni. Velta fyrirtækjanna var gríðarleg en í umfjöllun DV í júlí árið 2000 var því haldið fram að skuldir fyrirtækja Brautarholtsfeðga væru 2,3 milljarðar.

Sem dæmi um umfangið í fyrirtækjum þeirra feðga og til að setja það í samhengi var húsnæði sem fyrirtækin áttu samtals 45 þúsund fermetrar að gólffleti. Til samanburðar má nefna að verslunarmiðstöð Smáralindar er með 40 þúsund fermetra í verslunarrými.

Hrun

Kristinn var í miklum persónulegum ábyrgðum. Þá var jörð hans að Brautarholti veðsett. Uppboð var stöðvað þegar í ljós kom að um óðalsjörð var að ræða.
Umhugsunarefni Kristinn var í miklum persónulegum ábyrgðum. Þá var jörð hans að Brautarholti veðsett. Uppboð var stöðvað þegar í ljós kom að um óðalsjörð var að ræða.

Fljótlega fór að bera á rekstrarvandræðum og tapaði fyrirtæki Kristins hundruðum milljóna. Rekstur kjúklingabænda var erfiður á þessum árum og reiknaði Búnaðarbankinn út að framleiðendur væru að greiða 120 krónur með hverju kílói af kjúklingi.

Brautarholtsfeðgar töpuðu einnig á svínarækt og í árslok 2002 skuldaði Brautarholtsbúið 1,2 milljarða. Þeir voru þó ekki einu framleiðendurnir sem töpuðu á þessum árum. Offramleiðsla var á öllu kjöti á þessum árum og framleiðendur buðu neytendum sem hagstæðast verð í örvæntingarfullri tilraun til að halda rekstri gangandi. Til marks um erfiðleikana, þá hættu tíu svínabú rekstri á árinu 2002.

KB banki tók svo yfir reksturinn í Brautarholti og sá Kristinn um að reka búið. Staða fyrirtækja þeirra var erfið og Síld & fiskur rekið með tapi. Í árslok 2003 hætti Kristinn afskiptum af rekstri fyrirtækisins og í janúar 2004 var Svínabúið í Brautarholti og félag sem hélt utan um fasteignir Síldar & fisks lýst gjaldþrota. Þá fór Nesbú einnig á hliðina. Í árslok skulduðu fyrirtæki Brautarholtsfeðga rúma fimm milljarða. Líkt og segir í umfjöllun Morgunblaðsins er ljóst að þeir feðgar hefðu þurft að eiga meira eigið fé þegar þeir keyptu upp hin og þessi fyrirtæki. Þá greiddu þeir of hátt verð fyrir Síld & fisk og Nesbú. Eftir gjaldþrot félaganna sakaði forstjóri SS Kristinn Gylfa um að mismuna kröfuhöfum. Kristinn hafði tekið á sig miklar persónulegar ábyrgðir í tengslum við rekstur fyrirtækja sinna. Fyrirtækin störfuðu áfram og fólk hélt vinnu. Kristinn sagði í samtali við DV árið 2004:

„Ég er búinn að fá bú mitt afhent aftur og get um frjálst höfuð strokið á nýjan leik. Það hefur enginn tapað á mér persónulega, heldur eru þetta kröfur vegna ábyrgða minna á skuldum fyrirtækjanna, hvers skiptalokum er ólokið, en þar eru eignir upp í skuldir og fyrirtækin nú í blómlegum rekstri.“

##Leyniskýrsla

Þórarinn Viðar lögmaður gagnrýndi að Kristinn hefði lánað eigin fyrirtæki fjármuni MR.
Leyniskýrsla sögð afhjúpa svínakóng Þórarinn Viðar lögmaður gagnrýndi að Kristinn hefði lánað eigin fyrirtæki fjármuni MR.

Í umfjöllun Morgunblaðsins kemur fram að það félag sem tapaði mest á gjaldþroti Móa var Mjólkurfélag Reykjavíkur (MR). Það fyrirtæki sá um alla fóðursölu til Kristins og bræðra. Skuldasöfnun MR olli miklum deilum en Kristinn Gylfi var stjórnarformaður MR þar til í ársbyrjun 2003. MR afskrifaði 345 milljónir vegna fyrirtækja tengdum Brautarholtsfeðgum. Þá greindi DV frá því í júlí 2004 að félagsmenn í MR vildu opinbera rannsókn á meintum brotum Kristins. Þar var fyrirsögnin „Leyniskýrsla afhjúpar spillingu svínakóngs“. Þar sagði:

„Í greinargerð sem Þórarinn Viðar lögmaður tók saman að beiðni stjórnar MR er dregin upp sú mynd að Kristinn Gylfi og Sigurður Eyjólfsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri MR, hafi brotið gegn félaginu þegar þeir létu það lána fyrirtæki í eigu Kristins Gylfa, Svínabúinu Brautarholti ehf., 41 milljón króna í beinhörðum peningum. Þess utan þykir hafa farið langt út fyrir öll venjuleg viðmið hversu miklum skuldum fyrirtæki í eigu Kristins Gylfa og fjölskyldu hans fengu að safna hjá MR vegna fóðurkaupa allt fram á síðasta ár. Endurskoðunarfyrirtækið PricewaterhouseCoopers metur tap MR vegna viðskiptanna 465 milljónir króna. Er tapinu lýst sem alvarlegu áfalli fyrir félagið. Tapið nam 195 milljónum króna vegna kjúklingabúsins Móa, 159 milljónum vegna Svínabúsins í Brautarholti og 111 milljónum vegna eggjaframleiðslunnar Nesbús.“

Þá sagði lögmaðurinn að Kristinn hefði verið vanhæfur í starfi frá hausti 2002 og fram að aðalfundi í mars 2003 þar sem hann hafi setið beggja megin borðsins.

##„Fara ekki út og eru í þröngu rými“

Árið 2011 gagnrýndi Árni Stefán lögfræðingur Brúnnegg og sagði aðstöðu óviðunandi.
Brúnegg ehf. gagnrýnt Árið 2011 gagnrýndi Árni Stefán lögfræðingur Brúnnegg og sagði aðstöðu óviðunandi.

Árið 2011 birti DV frétt með fyrirsögninni „Fara ekki út og eru í þröngu rými“. Þar sagði að aðbúnaður hænsna væri ekki í samræmi við reglugerð um vistvæna vottun. Sagði Árni Stefán Árnason lögfræðingur að hann hefði heimsótt Brúnegg. En fullyrt hefur verið að Matvælastofnun hafi vitað af blekkingum gagnvart neytendum í meira en áratug. Vitað er að staða Brúneggja var mikið rædd innan Matvælastofnunar á síðasta ári og vildu einstaka starfsmenn upplýsa neytendur um ástandið hjá Brúneggjum. Það var ekki gert og er á ábyrgð yfirstjórnar MAST. Árni Stefán sagði í samtali við DV:

„Eftir heimsóknina kynntum við okkur reglugerðina um vistvæna vottun og vorum öll sammála um að aðstaða dýranna væri ekki í samræmi við reglugerðina. Fuglarnir fá ekki að fara út og eru í frekar þröngu rými. Þetta gefur neytandanum blekkjandi mynd af því sem um er að ræða.“

Í frétt DV sagði enn fremur að þröngt væri um fuglana.

„Samkvæmt reglugerð um vistvæna vottun frá 1998 skal gæta þess að hænsnin njóti eðlislægs atferlis í hvívetna, þau skuli vera í lausagöngu í húsi og njóta útvistar þegar aðstæður leyfa auk þess sem hús og útigerði skulu vera þurr og hús vel loftræst, hæfilega björt og auðþrífanleg. Árni Stefán segir að svo hafi ekki verið á eggjabúinu. „Það er alveg af og frá að segja að þær geti notið eðlislægs atferlis, það mundi hver sem er viðurkenna það. Auk þess sáum við engin útigerði, þau voru í gluggalausu rými sem var lýst upp með rafmagnslýsingu og ammóníakslyktin var slík að við eiginlega flúðum út.“

Tveimur dögum síðar gerði Kristinn athugasemd við frétt DV:

„Því er algerlega hafnað að Brúnegg ehf. hafi staðið í óbeinum blekkingum varðandi aðbúnað hænsnanna. Aldrei hefur verið gefið í skyn að þær gangi úti eða bíti gras. Hollusta afurðanna veltur ekki síst á gæðum fóðursins sem hænurnar eru aldar á og þar njóta hænur Brúneggja hins besta. Aðbúnaður hænsnanna hjá Brúneggjum er í samræmi við reglugerð um vistvæna vottun að öðru leyti en því að ekki er hægt að koma því við að hleypa hænunum úr húsi.“

Kristinn sagði einnig að hænunum liði mjög vel hjá sér og að grundvallaratriði í vistvænni vottun væri að hænurnar væru ekki í búrum.

„Við höfum áhuga á að koma þeim út og æskilegt væri að vera með einhvers konar útiaðstöðu fyrir dýrin. Það kemur kannski í framtíðinni.“

Lítið fyrir sér fara

Páll, föðurbróðir Kristins, var ósáttur við að svínaskít væri sturtað í sjóinn í tonnatali.
Ósáttir bræður Páll, föðurbróðir Kristins, var ósáttur við að svínaskít væri sturtað í sjóinn í tonnatali.

Frá árinu 1980 hefur verið yfir tvö hundruð sinnum fjallað sérstaklega um Kristinn í fjölmiðlum með ýmsum hætti, viðskipti, yfirtöku, kaup á fyrirtækjum og sóðaskap. Síðustu ár hefur Kristinn ekki verið mikið í sviðsljósinu. Í viðtali við Bændablaðið sagði hann stefnuna að hænurnar gætu farið úr húsi. Þá lýsti Kristinn lífi hænsna sinna eins og þær lifðu lúxuslífi í húsum Brúneggja. Það var einnig gert á heimasíðu fyrirtækisins sem nú er búið að loka. Kristinn sagði um „sældarlíf“ hænsnanna:

„Þegar þær vakna á morgnana fá þær sér að borða og fara svo að huga að varpi. Þær verpa mest fyrri part dags. Síðan eftir hádegi, þegar þær eru farnar úr hreiðri, er blandað geði við aðrar hænur, sinna þörfum sínum og svo fara þær í svokallað rykbað. Þá þyrla þær ryki og undirburðinum yfir sig og hrista sig síðan vel. Þetta er mikilvægur hluti af þeirra lífsháttum. Þær eru mikið á ferðinni og njóta þess að fara um húsið.“

Þarna var Kristinn að tala um húsnæði Brúneggja í Stafholtsveggjum en myndskeið MAST var tekið í því húsnæði og sýndi hryllilegan aðbúnað.

Dauðum fuglum var sturtað niður í fjöru fyrir neðan Brautarholt.
Óvart Dauðum fuglum var sturtað niður í fjöru fyrir neðan Brautarholt.

Á síðustu dögum hefur Kristinn verið á allra vörum. Í umfjöllun Kastljóss kom fram að fyrirtækið hefur ítrekað, allt frá árinu 2007, brotið lög um velferð dýra og er nú sakað um að blekkja neytendur. Samfélagið logaði og þúsundir einstaklinga létu í sér heyra á samskiptamiðlum. Lýstu þeir yfir að þeir ætluðu ekki að kaupa aftur egg frá fyrirtækinu. Melabúðin reið á vaðið og greindi frá því að hún ætlaði ekki að selja vörur fyrirtækisins. Krónan, Hagkaup og Bónus fylgdu í kjölfarið.

„Ég biðst afsökunar á því að Brúnegg hafi ekki farið hundrað prósent eftir vistvænu reglugerðinni. Við viðurkennum það og það er staðreynd,“ sagði Kristinn Gylfi Jónsson í samtali við DV og vildi meina að myndir Kastljóss væru af gömlum hænum. Sagði Gylfi að ef viðskiptavinir sneru ekki til baka væri reksturinn búið spil. Þá sagði Kristinn óvíst til hvaða ráða yrði gripið ef ljóst væri að fyrirtækinu yrði ekki bjargað: „Fækka fuglunum, hugsanlega slátra þeim. Eggin eru viðkvæm framleiðsluvara og það segir sig sjálft að við geymum þau ekki endalaust. Þannig að þá er ekkert eftir nema að snúa lyklinum.“

Framtíðin

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Kristinn er ekki í sömu stöðu og þegar hann fór í gegnum eitt stærsta gjaldþrot Íslandssögunnar. Í frétt á Stundinni kemur fram að Brúnegg ehf. sem selur egg sín á 40 prósent hærra verði hefur hagnast um 215 milljónir á síðustu sjö árum. Á meðan Kristinn og bróðir hans rökuðu inn seðlum gerði MAST athugasemdir við reksturinn en í eftirlitsskýrslunni sagði meðal annars að fuglar væru skítugir og meira og minna fiðurlausir. Þá var músaeitur í eggjageymslu, lirfur og dauðar mýs en allt í allt 21 frávik frá lögum um dýravernd. Í Mosfellsbæ voru dauðir fuglar á jörðinni. En yfirstjórn gaf ekki greint ljós á að upplýsa neytendur um hvernig var í pottinn búið í Borgarfirði.

„Loftgæði eru mjög slæm í öllum húsum. Þar sem er lágt til lofts, sérstaklega innst í húsunum var loftið það þungt (ammoníakslykt) að skoðunarmenn áttu erfitt með að anda.“

Kristinn útilokar ekki að það þurfi að slátra öllum fiðurfénaði ef ekki tekst að endurnýja viðskiptasambönd. Hann hefur í sínum rekstri slátrað hænum eftir að þær ljúka sínu hlutverki og selt þá sem vistvænar unghænur. Ekki fara allar hænur í verslanir, Sorpa sér um að urða dauðar hænur fyrir Brúnegg.

Myndir úr Kastljósi.
Hryllilegur aðbúnaður Myndir úr Kastljósi.

Brúnegg hefur í gegnum tíðina selt varphænur sínar sem vistvænar unghænur eins og Fréttablaðið greindi frá á fimmtudag. Kristinn Gylfi segir í samtali við DV söluna hafa verið óverulega.

„Það hefur nú ekki verið mikið í gegnum árin en markaðurinn hefur verið ákaflega lítill. Við höfum ekki slátrað í þeim tilgangi að selja unghænur á þessu ári. Þessum fugli hefur því eðlilega verið fargað með viðurkenndum aðferðum. Við erum eini aðilinn sem hefur reynt að gera einhver verðmæti úr unghænum og þetta hefur verið óverulegt en það hefur alltaf verið einhver markaður fyrir það sem kallað er súpuhænur. Þetta hefur verið selt í búðum,“ segir Kristinn Gylfi en vildi ekki segja hvaða verslanir væri um að ræða sem byðu upp á hænur sem hafa verpt sínu síðasta eggi fyrir Brúnegg.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Sjáðu myndbandið: Sverrir Einar handtekinn og leiddur út í járnum í miðbænum

Sjáðu myndbandið: Sverrir Einar handtekinn og leiddur út í járnum í miðbænum
Fréttir
Í gær

Snorri og Patrik vekja hneykslun: Konan hugsi um börnin og karlinn um peningana – „Gömlukallaraus í ungum mönnum“

Snorri og Patrik vekja hneykslun: Konan hugsi um börnin og karlinn um peningana – „Gömlukallaraus í ungum mönnum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kári Hansen skilaði inn meðmælum til forseta Íslands rafrænt

Kári Hansen skilaði inn meðmælum til forseta Íslands rafrænt
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Reiði vegna skemmdarverks á Suðurgötu: Málið verður tilkynnt lögreglu – Sjáðu myndina

Reiði vegna skemmdarverks á Suðurgötu: Málið verður tilkynnt lögreglu – Sjáðu myndina
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tveir Bretar hætt komnir á Íslandi: Grét þegar hann sagði frá slysinu – Vinur hans enn á spítala

Tveir Bretar hætt komnir á Íslandi: Grét þegar hann sagði frá slysinu – Vinur hans enn á spítala
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Helga Þórisdóttir búin að ná meðmælendum

Helga Þórisdóttir búin að ná meðmælendum