fbpx
Föstudagur 04.júlí 2025
Fréttir

Steinunn varð fyrir ruddalegum kynþáttafordómum á pósthúsinu – „Ég er Íslendingur og á rétt á þessu“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 29. desember 2018 08:00

Steinunn Anna Radha

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Steinunn Radha varð fyrir óþægilegri lífeynslu á pósthúsi síðastliðinn fimmtudag. Kona sem taldi hana vera útlending sýndi henni hatursfulla framkomu og ruddist síðan fram fyrir hana í afgreiðslunni þegar röðin kom að Steinunni. Taldi konan sig eiga rétt á að fá afgreiðslu á undan Steinunni þar sem hún væri Íslendingur.

Nú vill svo til að Steinunn Radha, sem varð tvítug síðastliðið sumar, er íslensk, á íslenska foreldra og hefur búið mestalla ævi sína á Íslandi. Hún var ættleidd frá Indlandi átta mánaða gömul. Hún er dökk á hörund og sker sig þannig úr fjöldanum. Fyrir þetta hefur hún mátt þola mikla fordóma og það sem gerðist á pósthúsinu er nýjasta dæmið. Í viðtali sem DV birti við Steinunni fyrir tæpu ári kemur fram að hún verður nánast daglega fyrir fordómum.

Steinunn skrifaði pistil á Facebook um atvikið á pósthúsinu:

„Skyldi hroki og eiginhagsmunasemi vera það sem einkennir Ísland hvað mest? Gekk inn á pósthús í gær til að sækja sendingu. Ég tek miða sem segir mér til um að á pósthúsinu væru tuttugu á undan mér að afgreiðsluborðinu. Ég stóð á miðju gólfinu og beið þegar ég fann kalt augnaráð miðaldra konu staðnæmast á mér. Mér fannst það heldur vandræðalegt og ákvað að stara til baka í augun á henni í von um að hún liti undan, sem gerðist ekki. Held ég hafi sjaldan fundið fyrir jafn miklu hatri orðalaust eins og akkúrat á þessari stundu. Þegar röðin kemur að mér stekkur umrædd kona í veg fyrir mig og ætlar að vera á undan mér að borðinu, þegar ég bendi henni á að ég sé næst segir hún „ég er íslendingur og á rétt á þessu.“ Ég veit reyndar ekki hversu langt blessuð konan hugsaði þessi orð sín. ? Var hún í alvöru að tala við manneskju sem hún hélt að væri útlendingur á íslensku? Hverju skiptir ríkisborgararéttur eða þjóðerni máli þegar kemur að því að bíða í röð? Ég nennti ekki neinu veseni þarna og sýndi henni ökuskírteinið (sem ég veit ekki hversu oft hefur bjargað mér). Bróðir minn var hins vegar góður og sagði „þú hefðir átt að svara á íslensku og segja „Fyrirgefðu, en ég skil ekki íslensku.“ Geymi það þar til næst. Ég iða í skinninu.“

 

Neikvæð upplifun þroskar mann“

Steinunn leggst ekki í þunglyndi út af fordómunum sem hún verður fyrir heldur sér broslegar hliðar á þeim og reynir að vinna gegn fordómum og opna augu fólks fyrir gildi fjölbreytileikans. „Neikvæð upplifun þroskar mann, það er mér til huggunar,“ segir hún í stuttu spjalli við DV.

Hún segir það því miður sína reynslu að ungt fólk sé ekki síður haldið fordómum gagnvart útlendingum og þeim sem skera sig úr en eldra fólk. Þó skynji hún breytingu:

„Í dag er yngra fólkið að vakna, ég finn það aðeins en það er alveg nýtt. Ég held líka að það sé auðveldara að hafa áhrif á ungt fólk sem hefur ekki eins fastar skoðanir og hugmyndir um hvernig lífið á að vera eins og þeir sem eru eldri, og er meira tilbúið að meta fjölbreytileikann.“

Steinunn er núna í námi í Fjölbrautarskólanum við Ármúla og stefnir á stúdentspróf. Hún varð að gera nokkurt hlé á námi um tíma vegna veikinda en er nú komin á fullt aftur. Samhliða því námi er hún að ljúka jógakennaranámi næsta vor. Síðar stefnir Steinunn að því að læra guðfræði og vígjast sem prestur:

„Manneskjan er fyrirbæri sem ég fær ekki nóg af að skoða og kynnast og svo hefur mig alltaf langað til að láta gott af mér leiða,“ segir Steinunn.

 Fordómar og ofbeldi vegna smæðar og göngulags

Saga Steinunnar sýnir því miður með nöturlegum hætti að þeir sem skera sig frá fjöldanum geta þurft að upplifa mikla fordóma og ofbeldi sem öðrum er falla inn í fjöldann er framandi. Fyrir utan kynþáttafordómana sem Steinunn verður fyrir vegna þess að hún er dökk á hörund hefur hún líka orðið að líða fyrir að hún er lágvaxnari en gengur og gerist. Margir virðast álíta hana vera barn af þeim sökum og hefur hún meðal annars lent í því að reynt hefur verið að koma í veg fyrir með valdi að hún æki bíl og henni hefur verið afhentur barnmatseðill á veitingahúsum. DV fjallaði einnig um þetta í frétt fyrr á árinu.

Steinunn hefur einnig þurft að þola fordóma vegna CP sjúkdómsins sem hún er með og veldur sérkennilegu göngulagi. Hún varð fyrir einelti og ofbeldi í æsku vegna þessa. Síðastliðið vor skrifaði Steinunn áhrifamikinn og upplýsandi pistil um CP sjúkdóminn sem við endurbirtum hér að neðan:

„Hvers vegna gengur þú svona?“ er spurning sem ég fæ af og til. Í stuttu máli er svarið einfalt: vegna þess að ég er fötluð, með CP. Þessi setning sem ég svara með kann að hljóma auðskiljanleg, en hvað er ég raunverulega að segja með henni? Hvað þýðir það að vera fatlaður/fötluð?

(Áður en við höldum áfram skulum við vera með á hreinu um hvað ræðir hér. CP sem er hreyfihömlun undir heitinu „Heilalömun“ á íslensku, sem ég glími við).

Jú, ég er vissulega að segjast vera með fötlun eins einfalt og það hljómar, en margt annað í leiðinni.

Með svarinu er ég til dæmis að varpa ljósi á fjölbreytileika samfélagsins. Að við erum jafn mismunandi og við erum mörg. Ég er að segja að fatlanir eru í ýmsum formum, andlegum og líkamlegum. Þær eru misvægar eða miklar. Ég er að gera kröfu til samfélagsins um að umbera allar líkamsgerðir, búa til aðstæður í samfélaginu sem henta öllum líkamsgerðum.

Þegar ég segi þér að ég sé með fötlun er ég að segja þér að…

-ég finn fyrir mismunun í samfélaginu, þær eru allstaðar. Í opinberum stofnunum og í félagsstarfi svo dæmi séu tekin. Ég fæ ekki jafn mörg tækifæri til lífs án nokkurrar skerðingar, því að stundum er fötlunin fjötur.

-ég hef orðið fyrir fordómum duldum, og óduldum í margs konar formi. Spurningum, augngotum og fengið að finna fyrir því að fólk hefur minni trú á mér en líkamlega heilli manneskju, sem leiðir til mismununar.

-ég fordæmi sjálfa mig eftir því sem aðrir gera. Stundum getur það tekið á að hugsa jákvætt eftir fordæmingu annarra.

-ég hef lent í einelti vegna göngulags og þess að ég gat ekki varið mig eða elt þegar krakkar tóku skóladótið mitt og hlupu með það.

-ég kynni að meta virðingu fyrir því að ég geti ekki gengið jafn hratt, mikið og lengi, eins og þú getur.

-líklegast hef ég fengið spurninguna marg oft „hvers vegna ég gangi svona.“

-ég fékk ekki að velja líkama minn við fæðingu frekar en þú fékkst það. Ég varð fyrir alvarlegri vannæringu í móðurkviði sem hafði líkamleg áhrf á mig.

-ég þarf að þekkja mín mörk og hlusta ekki á þrýsting annarra líkamlega heilbrigðra þegar þeir beita honum um að sýna fram á líkamlega hæfni.

-ég var í sjúkraþjálfun sem barn til þess að reyna að teygja mislanga fæturnar og liðka þá til.

-vöðvarnir í fótunum eru stöðugt spenntir og fá ekki fullkomna slökun, þó ég reyni að veita þeim hana.

-maður þarf ekki að vera í hjólastól til þess að vera fatlaður.“

Eflaust er ég að segja margt fleira og þetta eru eingöngu það sem ég sé sjálf að ég gæti verið að benda fólki á með því að svara því og upplifanir fatlaðra eru að sjálfsögðu mismunandi og ekki allar eins. Annars efa ég reyndar stórlega að fólk hugsaði svarið svo langt, en til þess að fólk pæli í hlutunum þarf að opna umræðuna um málefnið.

Á hinn bóginn er ég líka að segja nokkuð jákvætt með þeirri staðreynd að ég sé fötluð:

Ég brýt niður ímyndina um fatlað fólk með því að sýna að ég stunda vinnu og skóla upp á eigin spýtur.

Ég get nýtt þá reynslu og þekkingu af CP til að tala gegn fordómum og frætt fólk um aðra þætti tengdum fötluninni.

Ég sýni þér að fatlað fólk er jafn venjulegt og þú sem ert líkamlega heilbrigð(ur).

Ég sýni fram á að maður getur allt það sem maður ætlar sér. Það eina sem stoppar okkur er hugur okkar, Hættum ekki að ögra sjálfum okkur og öðrum, því öðruvísi lærum við ekki. Verum ófeimin við það að fræða aðra og læra af öðrum, vegna þess að allir líkamar eru elskuverðir og gullfallegir. Í fjölbreytileika býr hin eina, sanna fegurð.

Pistill upphaflega skrifaður fyrir Ungt CP á Íslandi.

Takk kærlega fyrir að gefa þér tíma til að lesa. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Fölsuðu bréf svo kennarar í Hofsstaðaskóla gætu fengið styrk til Frakklandsferðar – Kenna undirverktaka um

Fölsuðu bréf svo kennarar í Hofsstaðaskóla gætu fengið styrk til Frakklandsferðar – Kenna undirverktaka um
Fréttir
Í gær

Rússar breyta um taktík – Írönsku drónarnir verða sífellt hættulegri

Rússar breyta um taktík – Írönsku drónarnir verða sífellt hættulegri
Fréttir
Í gær

Dagmar brá við óþægilegt símtal frá lögreglunni – Biggi Sævars lét verða af hótuninni – „Týpísk taktík hjá svona mönnum“

Dagmar brá við óþægilegt símtal frá lögreglunni – Biggi Sævars lét verða af hótuninni – „Týpísk taktík hjá svona mönnum“
Fréttir
Í gær

Össur telur að málþófið muni reynast Sjálfstæðismönnum dýrkeypt

Össur telur að málþófið muni reynast Sjálfstæðismönnum dýrkeypt