fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Fréttir

Alþingi splæsir: Flug, hótel, matur og vín!

Heimsóttu brugghús – Ásmundur gekk – Prinsippum ekki fylgt

Kristinn H. Guðnason
Föstudaginn 23. febrúar 2018 12:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hélt vinnufund á Siglufirði helgina 16. til 17. febrúar. Glatt var á hjalla enda var heimsótt brugghús og gist á fínu hóteli. Þá var etið og drukkið vín um kvöldið. Reikningurinn var svo sendur beint á ríkið. Ekki er óalgengt að stærri stjórnmálaflokkar landsins haldi fundi um tvisvar á ári úti á landi og greiða þá skattborgarar fyrir ferðir, gistingu, mat og jafnvel vín.

Þegar þingmenn komu til Siglufjarðar var lyfja- og líftæknifyrirtækið Genis heimsótt. Þingmenn fengu kynningu á starfseminni og svo var dreypt á hvítvíni á eftir. Þá var einnig heimsótt brugghúsið Segull 67 sem framleiðir meðal annars bjórinn Hérastubb. Þá var gist á Sigló Hótel, glæsilegu hóteli við smábátahöfnina og borðað þar um kvöldið.

Ásmundur á leið í flug.
Vilhjálmur snappar Ásmundur á leið í flug.

Góður andi virtist ríkja í ferðinni séu skoðaðar þær ljósmyndir sem teknar voru og dreift á samfélagsmiðlum. Vilhjálmur Árnason grínaðist með það á Snapchat að Ásmundur Friðriksson færi einnig með flugi. Ásmundur og Vilhjálmur eru þeir tveir þingmenn sem hæstar fengu endurgreiðslur vegna aksturs árið 2017. Ásmundur fékk 4,6 milljónir króna endurgreiddar og Vilhjálmur 3,4 milljónir. Ásmundur lét bílinn eiga sig á Siglufirði en gekk galvaskur sjö kílómetra leið í ferðinni.

Alþingi greiðir flug, hótel, mat og vín

Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir að fimmtán af sextán þingmönnum flokksins hafi farið í ferðina. Sá eini sem ekki komst með var Haraldur Benediktsson, oddviti flokksins í Norðvesturkjördæmi. Birgir segir að flestir hafi flogið saman en nokkrir verið komnir á undan, annaðhvort með flugi eða á bíl. Birgir segist ekki vita hver heildarkostnaðurinn við ferðina sé því hver og einn þingmaður geri upp við Alþingi eftir á. „Svo er einhver sameiginlegur kostnaður sem flokkurinn tekur á sig.“

Það voru ekki aðeins þingmenn sem voru með í för heldur einnig nokkrir aðstoðarmenn ráðherra. Má þar nefna Hildi Sverrisdóttur, Laufeyju Rún Ketilsdóttur og Ólaf Teit Guðnason. Að sögn Helga Bernódussonar, skrifstofustjóra Alþingis, greiðir þingið aðeins kostnað fyrir þingmenn. Þingmenn geta fengið endurgreiddan ferðakostnað, annaðhvort flug eða bílferð, hótelgistingu og mat. Ekki er athugað sérstaklega hvort vín eða annað áfengi sé innifalið í reikningi vegna matar. Á vef Alþingis er engu að síður tekið fram að aðstoðarmenn ráðherra og þingflokksformanna eigi rétt á endurgreiðslu vegna ferða sinna.

Áslaug Arna Sveinbjörnsdóttir og Kristján Þór Júlíusson.
Með bauk Áslaug Arna Sveinbjörnsdóttir og Kristján Þór Júlíusson.

Prinsippinu ekki fylgt

Að sögn Helga halda hinir rótgrónu þingflokkar fundi sem þessa um það bil tvisvar á ári. Ekki sé komin reynsla á það hjá nýrri flokkum, svo sem Viðreisn og Flokki fólksins.

Helgi segir: „Reglan er þannig að landsbyggðaþingmennirnir fá húsnæðis og dvalarkostnaðargreiðslur. Í prinsippinu eiga þær að gilda fyrir fundi þingmanna í eigin kjördæmi. Annað gildir fyrir þingmenn úr öðrum kjördæmum. Þingið verður að greiða ferða- og dvalarkostnaðinn fyrir þá. Ef þingmenn eru hins vegar sannarlega að reka tvö heimili þá er ekki hægt að ætlast til þess að húsnæðis- og dvalarkostnaðargreiðslurnar nái yfir þingfundi sem eru haldnir annars staðar.“

Hann segir jafnframt að prinsippið gildi ekki alveg yfir þingflokksfundi sem þennan. „Litið hefur verið á það þegar þingflokkar halda fund úti á landi, þar sem einn hópur er á ferð, þá þýðir ekkert að standa í því að draga fólk í dilka eftir kjördæmum. Því höfum við í vaxandi mæli greitt fyrir alla þingmenn því fundurinn er hvort sem er ekki haldinn að ósk þeirra.“ Því er ljóst að þingmenn Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi; Kristján Þór Júlíusson og Njáll Trausti Friðbertsson, geta fengið kostnaðinn endurgreiddan.

Vín með matnum

DV hafði samband við tvo þingmenn úr ferðinni og spurði þá um kostnað. Bryndís Haraldsdóttir, úr Suðvesturkjördæmi, sagðist ekki hafa fengið upplýsingar um kostnað vegna flugsins því þingmenn væru með afsláttarkort frá þinginu.

„Ég er með reikning frá hótelinu, sem innifelur gistingu og mat, upp á 37 þúsund krónur.“

Var áfengi með í þeim reikningi?

„Borðvín, já. Rauðvín sem fylgdi með matnum. Ef maður pantaði eitthvað annað á barnum, borgaði maður það sjálfur.“

Vilhjálmur Árnason, úr Suðurkjördæmi, sagði sömu sögu. Reikningur frá hótelinu upp á 37 þúsund krónur en hann hafði ekki séð hvað flugið kostaði.

Glæsilegt hótel við smábátahöfnina.
Sigló Hótel Glæsilegt hótel við smábátahöfnina.

Skattborgarinn greiðir eina milljón

Ef gert er ráð fyrir að allir fimmtán rukki Alþingi um 37 þúsund krónur fyrir gistingu, mat og borðvín gera það samtals 555 þúsund krónur.

Flugvellinum á Siglufirði var lokað árið 2014 og því er flogið til Akureyrar. Flug fram og til baka með Iceland Air Connect kostar að jafnaði 36 þúsund krónur, frá föstudegi til laugardags, yfir vetrartímann. Að sögn Helga Bernódussonar fær Alþingi tæplega 10 prósenta afslátt af innanlandsflugi. Ef allir þingmennirnir hefðu tekið flug væri kostnaðurinn við það í kringum 490 þúsund krónur. Þá er ótalinn ferðakostnaðurinn frá Akureyri til Siglufjarðar, tæplega 80 kílómetra vegalengd.

Út frá þessu má áætla að heildarkostnaðurinn sem Alþingi greiðir fyrir einnar nætur ferð þingflokks Sjálfstæðisflokksins til Siglufjarðar sé í kringum eina milljón króna.

Sigríður Á. Andersen.
Fræðsla hjá Genis Sigríður Á. Andersen.
Bryndís Haraldsdóttir, Þórdís K. Reykfjörð Gylfadóttir og Áslaug Arna Sveinbjörnsdóttir.
Í góðu glensi Bryndís Haraldsdóttir, Þórdís K. Reykfjörð Gylfadóttir og Áslaug Arna Sveinbjörnsdóttir.

[[7344E66CC5]]

Leiðin sem Ásmundur Friðriksson gekk á Siglufirði.
Vel skráð Leiðin sem Ásmundur Friðriksson gekk á Siglufirði.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Framsóknarmenn styðji ÁTVR og forvarnir – „Atlaga Sjálfstæðisflokksins að ÁTVR er ævintýraleg“

Framsóknarmenn styðji ÁTVR og forvarnir – „Atlaga Sjálfstæðisflokksins að ÁTVR er ævintýraleg“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd