fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Fréttir

Krýsuvík fékk falleinkunn í úttekt Landlæknis

Forsvarsmenn virtu athugasemdir að vettugi – Opinberir styrkir hækka umtalsvert frá ári til árs

Björn Þorfinnsson
Föstudaginn 19. janúar 2018 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Aðra vikuna í röð fjallar DV um málefni Meðferðarheimilisins í Krýsuvík. Heimilið fær síauknar fjárveitingar frá hinu opinbera á ári hverju en alls munu ríflega 115 milljónir króna renna til þess á árinu 2018. Það er athyglisvert í ljósi þess að heimilið fékk falleinkunn í úttekt Landlæknisembættisins um mitt ár 2016 og hafði ekki brugðist við athugasemdum við eftirfylgniheimsókn í lok árs. Þrátt fyrir það hefur heilbrigðisráðuneytið leyft starfseminni að viðgangast án þess að grípa til einhverra aðgerða til þess að laga málin. Rétt er að halda því til haga að árangurinn af meðferðinni var talinn góður í úttekt embættismanna Landlæknis. DV birtir svör stjórnarformanns Krýsuvíkursamtakanna, Sigurlínu Davíðsdóttur, við umfjöllun blaðsins og yfirlýsingu frá stjórn þeirra. Telur stjórnin að umfjöllun DV um starfsemi meðferðarheimilisins sé villandi.

Þá birtir DV upplýsingar um tvo starfsmenn samtakanna, einn núverandi og annan sem hefur látið af störfum, sem eiga skuggalega fortíð. Annar þeirra hefur verið kærður fyrir kynferðisbrot, er haldinn kynlífsfíkn og hefur viðurkennt að hafa keypt vændi af drengjum og stúlkum sem eru í neyslu, utan veggja Krýsuvíkur.

Hinn átti óeðlieg kynferðisleg samskipti við skjólstæðinga samtakanna og tók meðal annars upp á myndband kynferðismök sín við fjölmargar konur. Fórnarlömb hans voru grunlaus um upptökurnar.

Víða pottur brotinn

Forsvarsmenn Meðferðarheimilisins í Krýsuvík brugðust ekki við alvarlegum athugasemdum Landlæknisembættisins sem settar voru fram í kjölfar eftirlitsheimsóknar um mitt ár 2016. Í lok sama árs fóru starfsmenn embættisins í eftirfylgniheimsókn en þá kom í ljós að athugasemdirnar höfðu verið virtar að vettugi. Embættið sendi niðurstöðurnar til heilbrigðisráðuneytisins sem hefur ekki brugðist við. Framlög hins opinbera til meðferðarheimilisins hafa hækkað hratt undanfarin ár en ráðgert er að samtökin fái um 115 milljóna króna styrk á næsta ári.

Í síðustu viku birtist í DV umfangsmikil umfjöllun um starfsemi Meðferðarheimilisins í Krýsuvík. Þar voru dregnar fram í dagsljósið ýmsar brotalamir á starfseminni þar á meðal staðfestar frásagnir af óeðlilegum samskiptum starfsmanna og stjórnenda við skjólstæðinga heimilisins. Úttekt DV byggðist fjölmörgum samtölum, bæði frá fyrrverandi starfsmönnum og skjólstæðingum.

Meðal þess sem ýmsir heimildarmenn DV vöktu athygli á var að verulega skorti á fagmennsku í þeirri meðferð sem fram fer í Krýsuvík, bæði hvað varðar útfærslu meðferðarinnar sem slíkrar sem og varðandi starfsmannastefnu stjórnenda.

DV ákvað að kanna nánar hvort fótur væri fyrir þeim athugasemdum og leitaði eftir því hvort opinberir aðilar hefðu tekið út þau störf og þá vinnu sem fer fram á heimilinu. Verður að telja eðlilegt að slík skoðun eigi sér reglulega stað af hálfu opinberra aðila, ekki síst í ljósi þess að ríkið leggur meðferðarheimilinu til umtalsverða fjármuni á ári samkvæmt fjárlögum, en eins og fram kom í umfjöllun DV í síðustu viku jukust framlög ríkisins verulega árið 2016, úr um 73 milljónum í 106 milljónir.

Alvarlegar athugasemdir í úttekt Landlæknis

Í ljós kom að Landlæknir gerði fyrir tæpum tveimur árum úttekt á gæðum og öryggi þjónustu heimilisins og í henni voru gerðar nokkrar alvarlegar athugasemdir við starfsemi heimilisins.

Úttektin var unnin af fimm fagaðilum frá embættinu; tveimur hjúkrunarfræðingum, geðhjúkrunarfræðingi, sviðsstjóra og landlækni sjálfum. Í rannsókninni voru fimm meginatriði starfseminnar tekin út, stefnumörkun, vinnulag, árangur, mönnun og húsnæði. Mælikvarðinn fyrir hvern þátt var þrískiptur, niðurstaðan „Gott“ þýddi að settum kröfum væri fullnægt, niðurstaðan „Viðunandi“ þýddi að umbóta væri þörf á ákveðnum sviðum og niðurstaðan „Ófullnægjandi“ þýddi að verulegra úrbóta væri þörf.

Niðurstaða úttektarinnar var sú að í einum þætti, varðandi árangur, taldist kröfum vera fullnægt. Stefnumörkun og húsnæðismál töldust viðunandi en vinnulag og mönnun töldust ófullnægjandi.

Heilsufarsupplýsingar skráðar í Excel-skjal

Í úttekt Landlæknis kom fram að á meðferðarheimilinu væru hvorki gæðahandbók né skriflegar verklagsreglur fyrir hendi. Taldi Landlæknir það gagnrýnisvert þar sem brýnt væri að skýrir verkferlar lægju fyrir um meginþætti starfseminnar, bæði fyrir starfsfólk og aðra. Þá voru gerðar athugasemdir við ófaglega skráningu heimilisins á heilsufarsupplýsingum skjólstæðinga en eins og kom fram í úttektinni var það „í raun excel-skjal“. Benti Landlæknir á hættuna á því að meðferðin yrði ekki samræmd og markviss ef skráning væri ekki á samtengjanlegu formi, svo sem eins og í svokölluðu Sögukerfi sem heilbrigðisstofnanir notast almennt við.

Enginn ráðgjafa uppfyllir nauðsynleg skilyrði

Athugasemdir úttektarinnar voru hve alvarlegastar varðandi mönnun á heimilinu. Í úttektinni kom fram að meðferðin og þjónustan væri að langmestu leyti borin uppi af ráðgjöfum á sviði áfengis- og vímuvarna. Kom fram að á heimilinu störfuðu fjórir ráðgjafar en að enginn þeirra uppfyllti menntunarskilyrði reglugerðar velferðarráðuneytisins um áfengis- og vímuefnaráðgjafa, sem eru nánar útlistuð hér í úttektinni. Ráðgjafarnir hefðu þó flestir lokið fjögurra mánaða námi í Ráðgjafaskóla Íslands samhliða fullri vinnu. Var í úttektinni bent á að hvorki hjúkrunarfræðingar né sjúkraliðar störfuðu í Krýsuvík heldur einungis einn geðlæknir í 20% starfi sem heimsótti starfsmenn einu sinni í viku. Þá kæmi einnig sálfræðingur einu sinni í viku og sinnti meðal annars handleiðslu ráðgjafa. Skjólstæðingar sem þyrftu á sálfræðiaðstoð að halda þyrftu því að sækja hana utan heimilisins og greiða þá sérstaklega fyrir hana. Taldi landlæknir brýnt að auka faglega mönnun á heimilinu í ljósi þess að um heilbrigðisstofnun er að ræða.

Sjálfsafgreiðsla eftir klukkan fjögur

Harðasta gagnrýni úttektarinnar var sú að á heimilinu væri enginn starfsmaður frá klukkan 16.00 til næsta morguns. Utan dagvinnutíma væru skjólstæðingarnir því á eigin ábyrgð. Um helgar væri svipuð staða uppi, kokkur kæmi og eldaði hádegisverð og undirbyggi kvöldverð sem skjólstæðingarnir sæju svo sjálfir um að bera fram. Við þetta fyrirkomulag gerði landlæknir alvarlegar athugasemdir, ekki hvað síst að teknu tilliti til staðsetningar heimilisins, sem er nokkuð afskekkt. Að mati embættisins var fyrirkomulagið óásættanlegt þar sem um heilbrigðisstofnun væri að ræða og að notendur ættu að njóta sólarhringsþjónustu.

Ábendingar hunsaðar

Niðurstöðum úttektarinnar fylgdu skýrar ábendingar til stjórnenda heimilisins. Þar á meðal að stjórnendur skyldu skrá niður viðurkenndar og faglegar leiðbeiningar og verklagsreglur varðandi meðferðina. Þá þyrfti að bæta skráningu heilsufarsupplýsinga skjólstæðinganna, auka fagmönnun í starfsliðinu og sjá til þess að alltaf væri starfsmaður til staðar á heimilinu til að tryggja öryggi.

Um hálfu ári síðar, í desember 2016, fylgdi embættið úttektinni eftir og kannaði hvernig brugðist hefði verið við. Ræddu úttektaraðilar af því tilefni við helstu stjórnendur heimilisins og samtakanna, þau Lovísu Christiansen framkvæmdastjóra, Sigurlínu Davíðsdóttur formann og Þorgeir Ólason, forstöðumann heimilisins. Samkvæmt skýrslu sem embættið gaf út eftir þá skoðun virðist sem stjórnendur heimilisins hafi að langmestu leyti virt ábendingar embættisins að vettugi.

Í skýrslu embættisins kom meðal annars fram að fulltrúar heimilisins hefðu upplýst um að vinna við gerð gæðahandbókar hafi verið hafin en þrátt fyrir ítrekaðar óskir hafi embættið ekki fengið afhent drög að þeirri vinnu. Þá upplýstu fulltrúar heimilisins að heilsufarsupplýsingar væru ennþá skráðar í Excel og að áform um að taka upp nýtt kerfi væru á frumstigi. Varðandi kröfu um aukna fagmennsku í starfsliði heimilisins kom fram að ekkert hefði verið unnið að þeim málum og að fulltrúarnir væru mjög ósáttir við reglugerð velferðarráðuneytisins um menntun, réttindi og skyldur áfengis- og vímuefnaráðgjafa. Sagði í skýrslunni að enn væri staðan því sú að enginn af ráðgjöfum meðferðarheimilisins uppfyllti skilyrði reglugerðarinnar en að þeir hefðu hlotið menntun og réttindi sem ekki væru viðurkennd á Íslandi. Að lokum var staðan enn óbreytt varðandi helstu gagnrýni úttektarinnar; að enginn starfsmaður væri til staðar á heimilinu eftir klukkan 16.00 á daginn. Munu fulltrúar heimilisins hafa tjáð embættinu að þeir hefðu velt þeirri gagnrýni fyrir sér en ekki gert breytingu af ýmsum ástæðum.

Mat Landlæknis að lokinni úttekt og eftirfylgni var því nokkuð harðort:
„Ljóst er að lítt hefur verið farið að ábendingum embættisins nema helst hvað húsnæði varðar. Niðurstaða embættisins er því að faglegar lágmarkskröfur til reksturs heilbrigðisþjónustu séu ekki uppfylltar.“ Þá kemur fram að í núgildandi þjónustusamningi við Sjúkratryggingar Íslands segi að meðferðin skuli veitt af læknum og áfengis- og vímuefnaráðgjöfum en eins og fram hefur komið uppfyllir enginn af ráðgjöfum heimilisins skilyrði reglugerðar. Ýmis önnur ákvæði samningsins eru ekki uppfyllt, svo sem er snerta gæði þjónustu, innra eftirlit og skráningu heilsufarsupplýsinga.“

Ráðuneytið þarf að bregðast við.

Þessi skýrsla Landlæknis kom út í lok árs 2016, eins og áður segir. DV leitaði upplýsinga hjá embættinu um hvort að síðar hafi verið gerð frekari úttekt, veittar frekari ábendingar eða farið í aðrar aðgerðir varðandi þessi málefni heimilisins. Svo reyndist ekki vera en embættið hefur ekki úr mörgum verkfærum að moða til þess að bregðast við. „Við upplýstum ráðuneytið um að starfsemin uppfyllti engin skilyrði sem heilbrigðisþjónusta. Það sem þarna fer fram á miklu frekar skylt við einhvers konar félagslegt úrræði. Það mætti kalla þetta búsetuúrræði með séraðstoð,“ segir Leifur Bárðarson, sviðsstjóri eftirlits og gæða hjá Landlæknisembættinu. Leifur bendir á að Landlæknisembættið veiti heilbrigðisstofnunum ekki starfsleyfi né neitt slíkt og því sé þeirra eina úrræði að upplýsa ráðuneytið um stöðu mála. Það sé þeirra að bregðast við. „Þá gleymist líka oft í þessari umræðu að aðalábyrgðin liggur hjá stjórn þessara samtaka. Þau þiggja opinbert fé til þess að veita tiltekna þjónustu og það er á þeirra ábyrgð að sú þjónusta sé í samræmi við lög og reglugerðir,“ segir Leifur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Viktor er óvænti forsetaframbjóðandinn: Safnaði 1.500 meðmælendum nánast í kyrrþey – Kostnaðurinn aðallega tími,bensín og sjoppusamlokur

Viktor er óvænti forsetaframbjóðandinn: Safnaði 1.500 meðmælendum nánast í kyrrþey – Kostnaðurinn aðallega tími,bensín og sjoppusamlokur
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ásdís Rán svaraði Heimi Má – „Ekki segja að ég geti það ekki, ég er hér núna“

Ásdís Rán svaraði Heimi Má – „Ekki segja að ég geti það ekki, ég er hér núna“