fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fréttir

Börn í hættu vegna starfsmanns Barnaverndar: Falsaði niðurstöður þvagsýna

Lét skjólstæðinga vita af heimsóknum – Bitnar mest á börnunum – Eitt alvarlega mál sem upp hefur komið hjá Barnavernd Reykjavíkur

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Föstudaginn 19. janúar 2018 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Alexander Manrique Elíasson, sem áður hét Jón Alexander Elíasson, starfaði í tvö ár hjá Barnavernd Reykjavíkur. Á þeim tíma varaði hann minnst þrjár fjölskyldur við sem voru undir smásjá Barnaverndar. Hann lét fjölskyldurnar vita þegar til stóð að kanna aðstæður hjá þeim. Hann falsaði niðurstöður þvagsýna og lét jafnvel fjölskyldur vita hvaða einstaklingar höfðu tilkynnt þær til Barnaverndar. Málið er grafalvarlegt en Alexander starfaði í nokkur ár hjá stofnuninni og ljóst að upplýsingar sem hann kom á framfæri til þessara fjölskyldna hafa gert það að verkum að foreldrar barnanna drógu að taka sig á eða lagfæra það sem var að á heimilinu. DV hefur staðfest að um er að ræða minnst þrjár fjölskyldur og alls ekki útilokað að Alexander hafi falsað niðurstöður þvagsýna hjá fleiri fjölskyldum eða látið vita þegar staðið hafi til að fara í heimsóknir. Óheiðarleiki Alexanders gæti því hafa bitnað á mun fleiri börnum. Alexander lét af störfum í apríl á síðasta ári en á meðan hann var við störf hjá Barnavernd var hann byrjaður að undirbúa vændishús sem hann starfrækti í Fiskakvísl.

„Þetta bitnar mest á börnunum“

Alexander var vel liðinn meðal samstarfsmanna sinna hjá Barnavernd og var starfsfólk í uppnámi yfir aðkomu hans að vændisstarfsemi. Halldóra Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, fullyrti við RÚV að Alexander hefði verið farsæll í starfi og ekkert óeðlilegt við uppsögn hans. Nú er ljóst að svo var ekki. Upplýsingar sem Alexander kom á framfæri við fjölskyldur í vanda hafa bitnað á börnum sem stofnunin á að vernda. Þá hefur Halldóra sagt áður að hún hafi ekki kannast við að meinbugir hafi verið á vinnu hans hjá Barnavernd eða starfslok hans tengst vítaverðri háttsemi. Heimildir DV herma annað og að kvartanir hafi borist vegna starfa hans.

Halldóra segir að mál Alexanders verði tekið mjög alvarlega. Hún fullyrðir að hún hafi ekki vitað að Alexander léti skjólstæðinga sína vita að til stæði að koma óvænt í eftirlitsferð á heimili viðkomandi. DV hefur heimildir fyrir því að Barnavernd hafi verið látin vita að Alexander hafi varað skjólstæðinga Barnaverndar við. Samtal DV við Halldóru ýtir undir slíkt því ljóst er að eftir að vændismálið kom upp hafa bakgrunnur og störf Alexanders verið skoðuð og farið yfir hvaða fjölskyldum hann var að fletta upp í tölvukerfi stofnunarinnar. Er ljóst að um er að ræða eitt alvarlegasta mál sem upp hefur komið hjá Barnavernd Reykjavíkur.

Hver er Alexander

„Hann var villingur úti á Nesi en var samt vinsæll, ekki síst hjá stelpunum. Eftir grunnskólann hvarf hann hins vegar af yfirborði jarðar. Ég vissi bara að hann hefði farið út af sporinu,“ segir maður sem ólst upp með Alexander Manrique Elíassyni á Seltjarnarnesi. Að lokinni grunnskólagöngu leiddist hann út á ranga braut. Hann hlaut fangelsisdóm á táningsaldri og var honum gefið að sök að hafa reynt að aka á mann. Að lokinni afplánun venti hann kvæði sínu í kross, fór í meðferð og virtist hafa náð tökum á lífi sínu. Hann rak um tíma bar á Spáni sem og köfunarskóla, en hann hefur kennsluréttindi sem kafari. Hann starfaði um tíma fyrir köfunarþjónustuna Kafarinn.is hér á landi og árið 2004 hóf hann störf hjá Krýsuvíkursamtökunum sem áfengisráðgjafi. Sú reynsla hjálpaði eflaust til þegar hann var ráðinn til starfa hjá Barnavernd Reykjavíkur. Hann var lengi farsæll á meðferðarheimilinu á Krýsuvík. Einn heimildarmanna DV segir að eftir að Alexander fór í erfiða meðferð við lifrarbólgu hafi skapgerð hans breyst og hann farið langt niður. Þá hafi hann sett spurningarmerki við starfshætti Þorgeirs, forstöðumanns meðferðarheimilisins, og það sé aldrei liðið. „Toggi er kóngurinn og ef þú ert ekki besti vinur hans og hlýðir honum ekki í einu og öllu getur þú pakkað saman,“ segir heimildarmaður DV sem dvaldi um hríð í Krýsuvík. Annar heimildarmaður sem þekkir til starfa hans hjá Barnavernd segir: „Hann var ábyrgur í máli vinar míns. Þá kom hann heim til þeirra og tók þvagprufur. Ef þau höfðu neytt fíkniefna breytti hann bara niðurstöðunni. Ég veit líka að hann hringdi og lét vita ef fulltrúar Barnaverndar voru á leið í heimsókn. Þá sagði hann þeim að taka til og hvað þau ættu að gera.“

„Ef þau höfðu neytt fíkniefna breytti hann bara niðurstöðunni“

Alexander var ráðinn til Barnaverndar eftir að hann vann á Krýsuvík. Það fólk sem hann var meðal annars að vara við óundirbúnum heimsóknum og falsa niðurstöður þvagsýna fyrir voru fyrrverandi skjólstæðingar hans á Krýsuvík. Samkvæmt heimildum DV var Alexander gert að hætta hjá Barnavernd en Halldóra, framkvæmdastjóri Barnaverndar, vill ekki kannast við það. Þegar Alexander hætti var hann þegar byrjaður að undirbúa vændishús en hann ætlaði sér að taka yfir vændismarkaðinn á Íslandi. Vændishúsið var í Fiskakvísl og að sögn nágranna í nærliggjandi húsi fluttu þrjár suðuramerískar konur inn í íbúð sem Alexander tók á leigu. Nánast umsvifalaust hófust tíðar mannaferðir að húsinu á öllum tímum sólarhrings. „Þetta voru menn á öllum aldri, sumir vel klæddir en aðrir ekki. Þetta spannaði í raun allan þjóðfélagsskalann.“ Alexander og kona hans voru síðar handtekinn og úrskurðuð í gæsluvarðhald.

Bitnar mest á börnunum

„Við tökum þetta mál hans Alexanders mjög alvarlega,“ segir Halldóra.

Vissir þú að Alexander væri að vara fjölskyldur við og falsa niðurstöður þvagsýna?

„Nei, nei, það er bara eitthvað sem við tökum til skoðunar hjá okkur. Hann gat, ef einbeittur vilji til að brjóta af sér var fyrir hendi, látið sína skjólstæðinga vita hvenær hann ætlaði að koma en mjög oft eru tveir sem eru að fara, svo skiptast þeir líka á,“ segir Halldóra og bætir við að mögulegt sé að rekja uppflettingar í málaskrá. Segir Halldóra að það hafi verið gert og þeirri rannsókn sé ekki lokið. „Þar fyrir utan höfum við hringt í margt af því fólki sem Alexander sinnti til að athuga hvort það væru athugasemdir við störf hans. Það segir sig kannski sjálft að ef fólk telur sig hafa ávinning af því að hafa hann í eftirliti segir það bara góða sögu.“

Halldóra segir að þetta sé fyrsta afbrotamálið sem stofnunin hafi blandast inn í. Bætir hún við að með því að rekja uppflettingar hans og ræða við samstarfsfólk sé hægt að bæta starfsemina. Þá verði gætt betur að því í framtíðinni að oftar séu tveir starfsmenn sem fari á heimili fjölskyldna sem eigi í vandræðum.

„Þetta er rosalega sorglegt. Þetta er ekki góð staða en það var ekki hægt að sjá fyrir miðað við þau gögn sem lágu fyrir. Þetta er mjög alvarlegt. Óboðað eftirlit á að vera nákvæmlega það – óboðað. Hins vegar hef ég skoðað hans mál síðustu tvö árin og sem betur fer komu í mörgum tilfellum fleiri en hann að þeim. Hann hefur haft tök á að skemma fyrir en ekki að öllu leyti. Þetta bitnar mest á börnunum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Yfirmaður úkraínsku leyniþjónustunnar er með áætlun tilbúna til að mæta yfirvofandi stórsókn Rússa

Yfirmaður úkraínsku leyniþjónustunnar er með áætlun tilbúna til að mæta yfirvofandi stórsókn Rússa
Fréttir
Í gær

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Brim fjárfestir í nýjasta kælibúnaði frá KAPP

Brim fjárfestir í nýjasta kælibúnaði frá KAPP
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hefur þú stofnað bankareikning í Danmörku? Þá þarftu kannski að bregðast hratt við svo peningarnir þínir renni ekki í danska ríkiskassann

Hefur þú stofnað bankareikning í Danmörku? Þá þarftu kannski að bregðast hratt við svo peningarnir þínir renni ekki í danska ríkiskassann