fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fréttir

Þú veist að það eru að koma kosningar þegar …

Ritstjórn DV
Laugardaginn 22. október 2016 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nú styttist í kosningar og óhjákvæmilegur fylgifiskur þess er að stjórnmálamenn leita ýmissa leiða til að ná til kjósenda og tryggja sér atkvæði. Þeir þurfa að vera sýnilegir við hin ýmsu tilefni, tileinka sér margvíslega strauma og stefnur til að ná til eins breiðs hóps og mögulegt er. Sumt heppnast vel, annað getur verið vandræðalega kjánalegt, enn eitt slær í gegn en oft á röngum forsendum en ætlast var til í upphafi.

DV tók til gamans saman nokkur atvik úr hinni stuttu kosningabaráttu að þessu sinni, sem minna okkur á að það eru að koma kosningar.


Bjarni Ben bakar kökur

Bjarni Benediktsson hlóð í eitt listaverk af köku fyrir afmæli dóttur sinnar í kosningamyndbandi Sjálfstæðisflokksins.
Sykursætt Bjarni Benediktsson hlóð í eitt listaverk af köku fyrir afmæli dóttur sinnar í kosningamyndbandi Sjálfstæðisflokksins.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sýndi af sér mýkri og sykurhúðaðar hliðar í kosningamyndbandi Sjálfstæðisflokksins þar sem honum var fylgt eftir í kökubakstri fyrir afmæli dóttur sinnar. Einbeitingin skein úr andliti formannsins sem nostraði af alúð við sykurmassann sem hann notaði til að skreyta afmæliskökuna og útkoman varð bara virkilega glæsileg. Upplýsti Bjarni að hann gerði þetta reglulega við sérstök tilefni og hefði gaman af. Netverjar gerðu sér mat úr uppákomunni og hafði gárungi DV, Loki, það á orði að þetta væri nú ekki í fyrsta skipti sem Bjarni sykurhúðar hlutina áður en hann skiptir kökunni á milli vina sinna og ættingja.


Oddný útskýrir sjávarútveginn með Skittles

Oddný var útgerðin, Skittles-nammið fiskurinn og drengurinn ungi íslenska þjóðarbúið.
Nammifiskur Oddný var útgerðin, Skittles-nammið fiskurinn og drengurinn ungi íslenska þjóðarbúið.

Mynd: Skjáskot

Samfylkingin fór ótroðnar slóðir í kosningamyndbandi sem vakti athygli á dögunum. Þar stillir formaður flokksins, Oddný G. Harðardóttir, sér upp á móti ungum dreng og á milli þeirra á borðinu er hrúga af Skittles-sælgæti. Með sælgætið að vopni nýtir Oddný sér menntun sína í uppeldis- og menntunarfræði til að útskýra í grófum dráttum fyrir barninu hvernig sjávarútvegurinn gangi fyrir sig. Drengnum þykir ójafnt gefið og kemst að þeirri niðurstöðu sjálfur að ósanngjarnt sé að einn fái meiri arð af namminu (sem í þessu tilfelli var fiskurinn í sjónum) en aðrir.


Sigurður Ingi fer í fótbolta

Sigurður Ingi fylgir vonandi málefnunum betur eftir en boltanum.
Með augun á boltanum? Sigurður Ingi fylgir vonandi málefnunum betur eftir en boltanum.

Mynd: Hafliði Breiðfjörð/Fótbolti.net

Forsætisráðherrann og þá nýkjörinn formaður Framsóknarflokksins mætti á æfingu U21-landsliðsins á Laugardalsvelli 10. október þar sem liðið var að búa sig undir mikilvægan leik gegn Úkraínu daginn eftir. Sigurður Ingi ákvað að bregða á leik, þrátt fyrir að vera jakkafataklæddur og í lakkskóm, og sýna nokkra vel valda takta með boltann fyrir myndavélarnar. Mun hann hafa ákveðið þá og þegar að best væri að láta afreksmennina um boltakúnstirnar. Meðfylgjandi myndum náði Fótbolti.net af Sigurði Inga


Framsóknarmenn dab-a

Dab-ið er vinsæl pósa meðal ungmenna og mikið notuð af hinum ýmsu íþróttaköppum. Framsókn er með.
Tískupósa Dab-ið er vinsæl pósa meðal ungmenna og mikið notuð af hinum ýmsu íþróttaköppum. Framsókn er með.

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra, Karl Garðarsson þingmaður og Páll Marís Pálsson, formaður Félags ungra framsóknarmanna, tengdu við unga fólkið þegar þeir stilltu sér upp í „dab“-pósu í umræðuþætti um kosningamál Framsóknarflokksins á sjónvarpsstöðinni Hringbraut. Myndband af dab-i framsóknarmannanna fór sem eldur í sinu um netheima.


Frambjóðendur hitta börnin

Börnin fræddu ritara Sjálfstæðisflokksins um mikilvægi Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Talsmaður barna Börnin fræddu ritara Sjálfstæðisflokksins um mikilvægi Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Mynd: Skjáskot

Börn hafa verið áberandi í kosningabaráttunni nú. Það hefur verið bakað fyrir þau, auðlindir hafsins útskýrðar fyrir þeim með sælgæti og frambjóðendur hafa meira að segja eignast börn. En það má líka læra af þeim. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari Sjálfstæðisflokksins, sem skipar 2. sætið í Reykjavíkurkjördæmi norður, lýsti því yfir á Twitter að hún hefði hitt börn sem hefðu frætt hana um mikilvægi Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.


Þorvaldur fer í leðurvestið og setur upp slaufuna

Þorvaldur er glæsilegur með slaufu sína og vesti. Þorir að vera öðruvísi.
Sker sig úr Þorvaldur er glæsilegur með slaufu sína og vesti. Þorir að vera öðruvísi.

Mynd: Skjáskot. RÚV

Mynd: Skjáskot. RÚV

Þorvaldur Þorvaldsson, formaður Alþýðufylkingarinnar, hefur aldrei látið bilbug á sér finna og hefur ótrauður boðið fram í undanförnum kosningum þrátt fyrir að uppskeran hafi oft verið rýr. Þorvaldur er mikill karakter og ljóst að hann bindur bagga sína ekki sömu hnútum og samferðamennirnir, sérstaklega þegar kemur að klæðaburði. Þorvaldur lætur sjaldnast sjá sig í kappræðum í sjónvarpssal í dæmigerðum jakkafötum. Tvennt hefur orðið að algjöru einkennismerki í klæðaburði byltingarleiðtogans; leðurvestið og skrautlega slaufan.


Vinstri græn baka „kommaköku“

Vinstri græn fengu bágt fyrir að baka sovéska kommaköku.
Kommakökubakstur Vinstri græn fengu bágt fyrir að baka sovéska kommaköku.

Gjaldkeri Vinstri grænna, Una Hildardóttir, sýndi á Snapchat-reikningi Stöðvar 2 að fleiri gætu bakað kökur en Bjarni Benediktsson. Val Unu á skreytingum þótti þó ekki jafnkrúttlegt og hjá Bjarna því kakan var skreytt með hamar og sigð, einkennismerki Sovétríkjanna. Netverjar voru fljótir til að gagnrýna notkun táknsins og töldu þarna verið að líta rómantískum augum á helstjórn Stalíns og verið væri að normalísera þjóðarmorð. Enn annar benti á að hamar og sigð væri litlu skárra en hakakross nasistanna. Vísir.is gaf kökunni nafngiftina „kommakaka“ í fyrirsögn.


Útvarp Saga framkvæmir skoðanakannanir

Ef marka má könnun Útvarps Sögu er Íslenska Þjóðfylkingin að fara að vinna sögulegan kosningasigur.
Sú könnunin Ef marka má könnun Útvarps Sögu er Íslenska Þjóðfylkingin að fara að vinna sögulegan kosningasigur.

Mynd: Mynd DV

Mynd: Skjáskot

Skoðanakannanir eru órjúfanlegur hluti aðdraganda kosninga þar sem línur geta skýrst og Félagsvísindastofnun, Gallup, MMR og einstaka fjölmiðlar leggja sín lóð á vogarskálarnar til að kortleggja fylgið. Niðurstöður skoðanakannana Útvarps Sögu eru þó oftar en ekki á öndverðum meiði og skemmtilega á skjön við marktækari og vísindalegri kannanir hinna. Það dregur þó ekki úr forsvarsmönnum stöðvarinnar sem, líkt og þeir sem koma vel út úr könnununum, vitna óspart í þær sem heilagan sannleik.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“
Fréttir
Í gær

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hefur þú stofnað bankareikning í Danmörku? Þá þarftu kannski að bregðast hratt við svo peningarnir þínir renni ekki í danska ríkiskassann

Hefur þú stofnað bankareikning í Danmörku? Þá þarftu kannski að bregðast hratt við svo peningarnir þínir renni ekki í danska ríkiskassann
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Facebook hafnaði kosningaauglýsingu Guðmundar Felix á undarlegum forsendum

Facebook hafnaði kosningaauglýsingu Guðmundar Felix á undarlegum forsendum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljótar sögur ganga um starfsmenn Langanesbyggðar – Björn sveitarstjóri talar um „eitrað andrúmsloft“ á staðnum

Ljótar sögur ganga um starfsmenn Langanesbyggðar – Björn sveitarstjóri talar um „eitrað andrúmsloft“ á staðnum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mörg dæmi um að frændhygli, kunningsskapur og pólitísk fyrirgreiðsla ráði för – „Og svo spurði ég um spillingu“

Mörg dæmi um að frændhygli, kunningsskapur og pólitísk fyrirgreiðsla ráði för – „Og svo spurði ég um spillingu“