fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fréttir

Rottugangur í Héraðsdómi

Starfsfólk varð vart við skít í skjalageymslu

Björn Þorfinnsson
Föstudaginn 30. september 2016 08:50

Starfsfólk varð vart við skít í skjalageymslu

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Um síðastliðna helgi varð vart við rottugang í húsnæði Héraðsdóms Reykjavíkur í Lækjargötu. Þetta staðfestir Friðrik Þ. Stefánsson, rekstrar- og mannauðsstjóri stofnunarinnar, í skriflegu svari til DV. „Starfsmenn urðu varir við skít á föstudag í skjalageymslunni og var þegar kallað á meindýraeyði sem kom fyrir gildru. Á mánudagsmorgun var dýr í gildrunni en ekkert hefur komið í gildruna síðan,“ segir Friðrik.

Óánægja meðal starfsfólks

Að hans sögn er talið að rottan hafi komið upp um brotna rist í porti á bak við dómshúsið og þaðan laumast inn í húsnæðið. „Það er búið að skipta um rist og loka. Þá höfum við óskað eftir því við Fasteignir ríkissjóðs að allar lagnir í kjallara verði myndaðar til þess að ganga úr skugga um að þar sé allt með felldu,“ segir Friðrik. Aðspurður segir hann að engar skemmdir hafi orðið á gögnum skjalageymslunnar.

Heimildir DV herma að nokkur ónægja hafi gripið um sig meðal starfsfólks dómsins. Það telji að stjórnendur hafi ekki upplýst allt starfsfólk um rottuganginn. Starfsmenn hafi tekið eftir því að meindýraeyðir hafi verið að pukrast í skjalageymslunni og því farið að spyrja spurninga. „Skýring stjórnenda var sú að rottur hræddust fólk og færu því í felur. Í lokuðu rými geta hins vegar myndast aðstæður þannig að dýrið upplifi sig í sjálfheldu. Í slíkum aðstæðum eiga rottur það til að stökkva á fólk og bíta það með tilheyrandi sýkingarhættu,“ segir heimildarmaður, sem ekki vildi láta nafn síns getið.

Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Rotta Myndin tengist fréttinni ekki beint.

Veislumatur frá veitingastöðunum

Rottugangur í miðbænum er ekki nýr af nálinni. „Þetta er viðvarandi vandamál. Rotturnar eru í lögnunum og þegar þær opnast eða bila þá fara rotturnar á stjá. Veitingastaðirnir laða þær sérstaklega að. Rotturnar fara á stjá skömmu fyrir miðnætti hvert kvöld. Þegar eldhúsin eru hreinsuð þá fer mikið af matarleifum í niðurföllin og dýrin einfaldlega bíða átekta fyrir neðan,“ segir Ólafur Sigurðsson, eigandi Meindýravarna Reykjavíkur. Að hans mati myndi dýrunum fækka talsvert ef veitingastaðir förguðu matvælum með öðrum hætti.

Rottunum fækkar jafnt og þétt

Að sögn Guðmundar Björnssonar, rekstrarstjóra Meindýravarna Reykjavíkur, þá er rottustofninn í lægð. „Það er forvarnarstarf í gangi á sumrin. Þá förum við í alla götubrunna í borginni og eitrum. Það verða alltaf rottur í nærumhverfi okkar en eins og með flesta villta stofna þá eru sveiflur í stofnstærðinni. Þróunin er hins vegar sú að niðursveiflan fer sífellt lengra niður og því hefur rottum fækkað undanfarin ár. Þó munu þær aldrei hverfa alveg.“

Meindýravarnir Reykjavíkur sinna um 300–400 útköllum á ári. „Það er ekki mikið að mínu mati. Að megninu til eru útköllin vestan Elliðaár en það er farið að bera á rottugangi í efri byggðum líka. Þetta eru dugleg dýr sem dreifa sér hratt. Þær kunna að bjarga sér,“ segir Guðmundur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí