fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Fréttir

Stíga þrjár fram og saka lögreglumann um kynferðisofbeldi: „Við erum sterkari saman“

Bjartmar Oddur Þeyr Alexandersson
Föstudaginn 15. júní 2018 12:32

Helga Elín, Kiana Sif og Lovísa Sól.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í helgarblaði DV er farið ítarlega yfir mál Aðalbergs Sveinssonar lögreglumanns hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.  Undanfarnar vikur hafa tvær ungar konur, Kiana Sif Limehouse og Helga Elín Herleifsdóttir, stigið fram í viðtölum við Mannlíf og lýst meintu kynferðislegu ofbeldi sem þær urðu fyrir á barnsaldri af hendi Aðalbergs. Í helgarblaði DV stígur fram þriðja unga konan, Lovísa Sól Sveinsdóttir, sem einnig sakar Aðalberg um sambærileg brot á sér. Aðalbergur var um tíma stjúpfaðir Kiönu Sifjar en Helga Elín og Lovísa Sól voru vinkonur hennar þegar þær voru á barnaskólaaldri.

Allar þrjár stúlkurnar kærðu hin meintu brot Aðalbergs í sitthvoru lagi með nokkra ára millibili. Málin fóru aldrei fyrir dóm en pottur virðist hafa verið brotin í rannsókn þeirra.

Eins og áður segir er hægt að lesa um söguna í heild sinni í helgarblaði DV. Hér að neðan er brot úr umfjölluninni en þar er farið dómsmál þar sem Aðalbergur gerðist brotlegur í starfi sínu fyrir lögregluna. Hlaut hann skilorðsbundin dóm fyrir það brot en meðal annars var hann uppvís að því að ljúga fyrir dómi auk þess að fá aðra samstarfsmenn til þess sama. Þrátt fyrir það hélt hann starfi sínu innan lögreglunnar. Síðar komu fram kærurnar um hið meinta kynferðislega ofbeldi gegn stúlkunum þremur.

 

Hélt lögreglustarfinu þrátt fyrir fangelsisdóm

Staða Aðalbergs hefur verið umdeild innan lögreglunnar og hefur hann meðal annars fengið á sig dóm fyrir brot í starfi. Þann 31. mars árið 2005 var hann dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir brot í starfi þegar hann stöðvaði bifhjól í Vesturbænum með því að sveigja lögreglubíl inn á gagnstæðan vegarhelming með þeim afleiðingum að ökumaður hjólsins lenti á bílnum og slasaðist. Hlaut hann 32 daga fangelsisdóm auk sektargreiðslu og greiðslu málskostnaðar. Hæstiréttur staðfesti sekt Aðalbergs en frestaði refsingu með skilorði til tveggja ára. Í málflutningi fyrir héraðsdómi sem og í skýrslu innra eftirlits kemur fram að Aðalbergur hafi logið við vinnslu málsins og fengið aðra lögregluþjóna til að vinna með sér í því að gefa upp rangar upplýsingar við vinnslu málsins og fyrir dómi. Þrátt fyrir það hélt hann starfi sínu hjá lögreglunni.

 

 Ók fyrir bifhjól

Samkvæmt dómnum voru málavextir þeir að lögreglan hafði, aðfaranótt 31. maí árið 2004, verið að leita að bifhjólamönnum sem ekið höfðu á miklum hraða í vesturbæ Reykjavíkur og á Seltjarnarnesi. Aðalbergur tók þátt í leitinni á lögreglubíl en með honum í för var samstarfskona hans.

Á Ægissíðu sá Aðalbergur hvar bifhjóli var ekið úr gagnstæðri átt og ákvað hann þá að sveigja lögreglubílnum yfir á þá akrein í veg fyrir hjólið með þeim afleiðingum að árekstur varð og bæði lögreglukonan og ökumaður bifhjólsins slösuðust. Auk þess skemmdust bæði bíllinn og bifhjólið. Aðalbergur sagðist fyrir dómi hafa talið ökumann hjólsins vera þann sama og hann hafði séð keyra of hratt fyrr um nóttina. Hjól, galli og hjálmur ökumannsins hafi bent til þess. Til að stöðva hjólið, sem hafi verið á miklum hraða, hafi hann ákveðið að setja forgangsljósin á og sveigja inn á vegarhelminginn en hafa gætt þess að hjólið kæmist fram hjá. Þegar ökumaður hjólsins virtist ætla að fara fram hjá hafi hann fært bílinn enn lengra. Þegar bifhjólið var farið að riða hafi hann reynt að sveigja bílnum aftur á réttan helming. Hafi hjólið þá fallið og runnið fram hjá bílnum.

 

Logið til um galla

Samstarfskona Aðalbergs bar vitni og þar kom fram að hún hefði einnig skrifað undir skýrslu um umferðarlagabrot bifhjólamannsins utan vinnutíma en gat síðan ekki staðfest þau fyrir rétti þar sem hún hafði ekki séð meint umferðarlagabrot. Þá kom fram að bíllinn var, samkvæmt svokölluðu tetrakerfi, ekki staðsettur á sama stað og þau sögðust hafa verið á við hraðamælingar áður en áreksturinn varð. Hún sagði einnig að ökumaður bifhjólsins hefði fallið og hjólið runnið fram hjá bílnum í kjölfarið.

Annar lögreglumaður sem einnig tók þátt í aðgerðunum þessa nótt lýsti nákvæmlega tveimur hjólum, númerum, göllum og hjálmum ökumanna sem hann hafði séð í ofsakstri. Þegar hann var inntur eftir því hvernig hann hefði getað lagt þetta á minnið á nokkrum sekúndubrotum sagðist hann hafa séð bifhjólamanninn í gallanum á lögreglustöðinni eftir áreksturinn. Þá kom fram að gallinn hafði verið skilinn eftir á slysadeildinni og baðst lögreglumaðurinn þá afsökunar á rangri fullyrðingu.

Ökumaður bifhjólsins sagði fyrir dómi að hann hefði séð lögreglubílinn seint á sínum vegarhelmingi, hann hefði verið á um 50 kílómetra hraða og reynt að hemla en það ekki dugað til því að lögreglubílnum hefði verið ekið framan á hjólið og síðan áfram. För eftir stuðara og dekk hafi sést á hjólinu. Kastaðist ökumaður bifhjólsins yfir bílinn og á götuna með þeim afleiðingum að hann tognaði á úlnlið, marðist á sköflungi og hefði haft verki og doða í handlegg, baki og höfði eftir það.

Stórfellt gáleysi

Komst dómari að þeirri niðurstöðu með fullri vissu að hjólið hafi komið framan á bílinn, af stöðu bílsins og hemlaförum að merkja, og að bíllinn hefði færst við áreksturinn. Þegar Aðalbergur hefði ekið í veg fyrir hjólið hefði ekki verið unnt að afstýra árekstrinum og bifhjólamaðurinn því settur í hættu. Með þessu stórfellda gáleysi hefði Aðalbergur ekki farið rétt að í aðgerðum sínum í opinberu starfi og um leið brotið almenn hegningarlög og umferðarlög. Fékk hann 32 daga fangelsisdóm og var auk þess dæmdur til að greiða sekt, skaðabætur og sakarkostnað.

Í frétt DV frá 1. apríl árið 2005 var sagt að bæði héraðsdómur og innra eftirlit lögreglunnar hefði sagt að Aðalbergur hefði logið með frásögn sinni af atburðum. Honum var ekki vikið frá störfum þrátt fyrir þetta. Ökumaður bifhjólsins var einnig dæmdur til sektargreiðslu fyrir ógætilegan akstur. Í dómi Hæstaréttar frá 10. nóvember sama ár var dómurinn yfir Aðalbergi skilyrtur til tveggja ára í ljósi þess að hann hafði ekki áður hlotið refsingu og að fyrir honum hafi vakað að stöðva ofsaakstur. Skaðabótakröfunni var einnig vísað frá.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Framsóknarmenn styðji ÁTVR og forvarnir – „Atlaga Sjálfstæðisflokksins að ÁTVR er ævintýraleg“

Framsóknarmenn styðji ÁTVR og forvarnir – „Atlaga Sjálfstæðisflokksins að ÁTVR er ævintýraleg“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd