fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
FréttirLeiðari

„Ég skil ekki …“

Kolbrún Bergþórsdóttir
Þriðjudaginn 19. júlí 2016 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það var ekki erfitt fyrir sjónvarpsáhorfendur um víða veröld að taka undir orð veitingahúseigandans í Nice sem sagði brostinni röddu: „Ég skil ekki það sem er að gerast í þessum heimi.“ Einn daginn safnast fólk saman til að skemmta sér á tónleikum eða gleðjast á þjóðhátíðardegi en snýr ekki aftur heim vegna þess að einstaklingur eða einstaklingar tóku sér vald til að binda enda á líf þess.

Menn þurfa ekki að búa að mikilli lífsreynslu til að átta sig á því að heimurinn er óöruggur staður þar sem fátt er víst annað en að við eigum eftir að deyja. Við hljótum þó að óska þess að sem flestir eigi farsælt og langt líf og að börn þurfi ekki að deyja vegna þess að einstaklingum, sem helteknir eru af reiði og illsku, standi á sama um tilveru þeirra og líti á þau sem réttdræp.

Leyniþjónusta og lögregluyfirvöld heimsins geta ekki komið í veg fyrir öll voðaverk, sama hversu öflugt eftirlit þeirra er. Maður sem staðráðinn er í því að drepa aðra getur alltaf fundið leið. Við erum að gera okkur æ betur grein fyrir þessari nöturlegu staðreynd. Það er líka dapurleg staðreynd að flest ódæði eins og fjöldamorðin í Nice eru framin af fremur ungum karlmönnum sem eru ósáttir við hlutskipti sitt og hatast svo við umhverfi sitt að þeir vilja valda sem mestu manntjóni. Þeir vilja skapa glundroða og sundra samfélögum. Um leið og mannfall verður þá hefur hluti af óskum þeirra ræst, en einungis hluti. Það er okkar að koma í veg fyrir að þessir fulltrúar illskunnar vinni fullnaðarsigur. Við komum í veg fyrir sigur illskunnar með því að sýna hvert öðru mannkærleika, umburðarlyndi og skilning, óháð trúarbrögðum og ólíkum siðum.

Óvíst er hvort maðurinn sem framdi fjöldamorðin í Nice tengist Íslamska ríkinu, sem hróðugt vill eigna sér illvirki hans. Víst er það svo að íslamskir hryðjuverkamenn hafa staðið að baki fjölda ódæða í Evrópu, en þeir eru ekki bara að myrða kristna menn, heldur einnig fólk sem aðhyllist önnur trúarbrögð, þar á meðal múslima og svo þá sem ekki kenna sig við nein trúarbrögð. Það er ekki trúin sem rekur þessa menn til ódæða heldur hatur og heift sem þeir veita útrás með því að svipta friðelskandi fólk lífi.

Já, það er auðvelt að taka undir orð veitingahúseigandans í Nice: „Ég skil ekki það sem er að gerast í þessum heimi.“ En við eigum ekki annars kost en að halda áfram og sameinast í baráttu gegn illskunni. Það gerum við best með mannúð og kærleika sem duga svo miklu betur en margir ætla.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Segir að valdastéttin þoli ekki uppgang Höllu Hrundar – „Íslenskur almenningur sér í gegnum þetta“

Segir að valdastéttin þoli ekki uppgang Höllu Hrundar – „Íslenskur almenningur sér í gegnum þetta“
Fréttir
Í gær

Heiðar tjáir sig um Kveiksmálið og segir engin annarleg sjónarmið búa að baki ákvörðuninni

Heiðar tjáir sig um Kveiksmálið og segir engin annarleg sjónarmið búa að baki ákvörðuninni
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Framsóknarmenn styðji ÁTVR og forvarnir – „Atlaga Sjálfstæðisflokksins að ÁTVR er ævintýraleg“

Framsóknarmenn styðji ÁTVR og forvarnir – „Atlaga Sjálfstæðisflokksins að ÁTVR er ævintýraleg“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ásdís Rán svaraði Heimi Má – „Ekki segja að ég geti það ekki, ég er hér núna“

Ásdís Rán svaraði Heimi Má – „Ekki segja að ég geti það ekki, ég er hér núna“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Íslenska lögreglan tók niður síðu hjá rafmyntasvindlurum – Gætu fengið 20 ára fangelsi

Íslenska lögreglan tók niður síðu hjá rafmyntasvindlurum – Gætu fengið 20 ára fangelsi