fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Eyjan

Fótboltinn og Landakotstún

Egill Helgason
Fimmtudaginn 24. maí 2018 21:55

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kjartan Magnússon borgarfulltrúi leggur til að settur verði upp sparkvöllur með gervigrasi á Landakotstúni. Ég er að mestu leyti sammála þessu hjá Kjartani, en mér sýnist að slíkum velli væri best komið fyrir á norðurhluta túnsins sem var tekinn af og lagður undir bílastæði. Einhverju af bílastæðunum mætti fórna fyrir sparkvöll – og líka sneið af túninu.

Menn sjá stundum ofsjónum yfir hverfinu 101 Reykjavík. Stundum er það alveg ástæðulaust. Ég ætla ekki að tala um hvað ástandið í heilsugæslunni er bágborið þar – nei, hér er  það aðstaðan fyrir börnin. Þarna er mjög lítið af opnum svæðum þar sem þau geta leikið sér og sama og engir íþróttavellir. Ég efast um að íbúar annarra hverfa létu bjóða sér upp á slíkt. Á árum sínum í Vesturbæjarskólanum, þegar var eiginlega ekkert eftir af skólalóðinni, sönglaði sonur minn stundum lagið eftir Cat Stevens. Einu sinni var hann kominn með eggjabakka á leiðinni í skólann, ætlaði að fleygja þeim í skúrræksni sem höfðu verið sett upp á leikvelli barnanna og áttu að heita skólastofur.

 

 

Leikvellir bernsku minnar í þessu hverfi eru flestir horfnir undir húsbyggingar eða bílastæði. Framnesvöllurinn, allar grasflatirnar í kringum Háskólann og Melavöllinn (reyndar ekki 101 en stutt frá). Frá sjónarhóli þeirra sem vilja iðka fótbolta var Landakotstúnið eyðilagt þegar því var breytt í nokkurs konar skrúðgarð og róluvöllur með möl var settur beint ofan á besta knattspyrnusvæðið á túninu – og svo þegar kaþólska kirkjan reisti stórhýsi milli Landakotskirkju og Landakotsskóla. Þarna hurfu tveir bestu vellirnir í Vesturbænum, norðan Hringbrautar.

Þetta hefur gert knattiðkun heldur erfiða fyrir börnin í hverfinu. Það er langt að sækja æfingar niður á KR-völl en í raun er bara einn fótboltavöllur á svæðinu – pínulítið frímerki við gamla Öldugötuskólann sem krakkarnir kalla Stýró. Þar geta varla verið fleir en tveir, í mesta lagi þrír, í liði.

Fyrir nokkrum árum skrifaði ég grein sem ég endurbirti hérna. Tilefnið voru myndirnar sem hérna fylgja með. Greinin var svolítill óður til fótboltans á Landakotstúni sem var stundaður án afláts áratugum saman. Mig og vini mína var yfirleitt alltaf hægt að finna á Landakotstúninu frá þvi á vorin og fram á haust. Við smíðuðum okkur mörk sem við notuðum – borgarstarfsmenn voru ekki lengi að fjarlægja þau. Svoleiðis framtak var ekki vel séð á þessum árum.

Upp á Landakotstún komu strákar frá götunum í kring, allt niður á Hringbraut, Snorri af Brávallagötu, ég og Kristján af Ásvallagötu, Sveinn Yngvi og Óli Bjössi af Sólvallagötu, Oddur úr Ljósvallagötunni, Denni og Gummi af Hólatorginu. Neðan úr Suðurgötu komu Sveinn Agnars og Ólafur Jóhann, Ási af Öldugötunni – þetta var mín kynslóð, en á undan voru eldri strákar eins og Gestur Guðmunds, Gunni Sal og Diddi bróðir hans, Ívar Gissurar og Markús Möller og þar á undan strákar sem eru líklega orðnir algjör gamalmenni eða jafnvel komnir í gröfina.

Það voru heldur ekki bara strákar sem spiluðu fótbolta af túninu. Anna Lind og Karólína af Hávallagötunni voru báðar mjög liðtækar, sú síðarnefnda spilaði með einu fyrsta kvennalandsliði Íslands.

Greinin sem ég nefndi er svona:

— — —

Jón Örn setti þessa mynd inn á vefinn Gamlar ljósmyndir, gaf mér leyfi til að nota hana, sagði að hún væri tekin af Bergi Jónssyni, líklega 1955 eða 1956.

Áhugafólk um sögu Reykjavíkur og byggðaþróun getur endalaust rýnt í þessa mynd. Þarna er horft úr flugvél yfir gamla Vesturbæinn, Landakotshæð og út á Mela. Þarna eru einmitt svæði sem við fjölluðum um í þriðja þætti Steinsteypualdarinnar sem var sýndur í kvöld, hverfin sem risu á Melunum á stríðsárunum og stuttu eftir stríðslok. Við sjáum hvað byggðin þar er fjarskalega regluleg, ólíkt því sem er í eldri hverfunum.

Háskólabíó er enn ekki risið né heldur Hagaskóli, Sundlaug Vesturbæjar er ekki orðin til, Hofsvallagatan er ekki malbikuð nema niður að Hringbraut, en byrjað er að byggja blokkir við Kaplaskjólsveg. Þar sem nú standa Hallveigarstaðir, neðst til vinstri á myndinni, sýnist manni vera lítil tjörn eða kannski er það bara vatn sem hefur safnast í húsgrunni.

Það er grasblettur á horninu á Ægisgötu og Túngötu sem mér skilst að hafi verið notaður sem sparkvöllur, en annars var Landakotstúnið einn helsti fótboltavöllur Vesturbæinga á löngu tímabili. Fótboltinn þar stóð frá vori fram á haust, oft frá morgni til kvölds, nýjar kynslóðir leystu þær eldri af hólmi, en leikurinn hélt alltaf áfram. Fyrst grænkaði svæðið milli kirkjunnar og skólans en prestar voru stundum að reka börnin þaðan. Síðar varð aðalvöllurinn efst á túninu grænn.

Svo var plantað þarna niður trjám og settur upp skrúðgarður og þá lagðist fótboltinn á Landakotstúninu af. Ég var þarna sjálfur fyrst sem polli, hlaupandi á eftir miklu eldri strákum, en svo færðist maður upp í goggunarröðinni, maður varð elstur og pollarnir fóru að elta mann. Þannig gekk þetta, áratug eftir áratug. Ég sakna þess að sjá ekki krakka í fótbolta á Landakotstúninu – ekki er heldur mörgum öðrum sparkvöllum að dreifa á þessu svæði. Gamli Framnesvöllurinn sem var önnur helsta uppeldisstöð KR-inga fór undir Vesturbæjarskóla.

Það er ýmislegt fleira sem má sjá á myndinni. Gamli Landakotsspítalinn er þarna enn, en vesturálma nýbyggingarinnar er risin. Þar á móti er ÍR-húsið við Túngötuna sem síðar var flutt upp í Árbæ. Í því húsi æfðu margir vaskir íþróttamenn, þótt það væri ekki sérlega stórt, og þar fór maður í leikfimi úr Vesturbæjarskólanum sem í þá tíð var yfirleitt kallaður Öldugötuskóli og var í húsi Stýrimannaskólans sem sést yst til hægri á myndinni.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hvað ætti forseti að gera?

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hvað ætti forseti að gera?
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Vilja gera Snæfellsjökul að forseta Íslands

Vilja gera Snæfellsjökul að forseta Íslands
Eyjan
Fyrir 1 viku

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður