Elliði Vignisson bæjarstjóri í Vestmannaeyjum deilir skjáskoti af samsettri mynd sem birtist á hægri vefnum Andríki. Þar birtist innlegg sem heitir „Veturinn nálgast“. Segir í fréttinni að ríkisstjórn Pírata, VG og Samfylkingar sé líklegust sé tekið mið af könnunum. Á Andríki er svo birt mynd af tilvonandi ráðherrum væntanlegrar ríkisstjórnar. Skrifin hafa vakið athygli en skjáskot þar sem birt er mynd af þeim sem gætu mögulega sest í ríkisstjórn enn harðari viðbrögð en skrifin sjálf. Á Andríki segir:
„Hér væri komin ríkisstjórn svipuð þeirri vinstri stjórn sem fór með völd á árunum 2009 – 2013 og lagði mesta áherslu á að hækka skatta á almenning, eyðileggja stjórnarskrá lýðveldisins, friðþægja erlenda kröfuhafa bankanna og leggja Ísland inn í Evrópusambandið.“
Elliði Vignisson deilir eins og áður segir skjáskoti sem hefur verið föndrað enn frekar við. Þar stendur nú: Game of Thrones – Winter is Coming og þá er birt mynd af hamari og sigð Sovétríkjanna fyrir ofan vinstristjórn Andríkis. Margir deila og líka við status Elliða svo sem Margrét Friðriksdóttir og Ingólfur Þórarinsson tónlistarmaður.
Máni Pétursson annar stjórnanda Harmageddon segir einfaldlega um uppátæki Elliða að deila þessu:
„Og ég sem hélt að bæjarstjórinn minn væri skrýtin gaur.“
Pírarinn Andri Sigurðsson segir: „Þá er nú betra að kjósa bankaræningjana í Sjálfstæðisflokknum.“ Andri Már Önnuson bendir Elliða á að Birgitta verði nú vart í stjórn þar sem hún sé nú hætt á þingi. Elliiði svarar því með því að deila frétt frá því þegar Birgitta ákvað að hætta við að hætta á sínum tíma og spyr: „Ertu viss?“
Valur Grettisson rithöfundur og ritstjóri Reykjavík Grapevine kallar Sjálfstæðismenn dramadrottningar:
„Sjálfstæðisflokkurinn er kominn á þann einkennilega stað að hann er hættur að reyna að sannfæra fólk um að kjósa sig. Nú reynir hann að hræða fólk til þess að kjósa sig.“
Helgi Hrafn Pírati er ekki hrifinn af skrifum Andríkis. Helgi segir:
„Það er ákveðin tegund af óheiðarleika á Íslandi sem er því miður ekki tabú, heldur viðgengst án þess að fólk átti sig á því að um uppspuna og lygi sé að ræða. Það er þegar fólki dettur eitthvað í hug sem það hugsar með sér að gæti verið satt, og leggur það frá sér sem fullyrðingu.“
Segir Helgi þetta gerast reglulega á vef Andríkis.
„Þannig fundu Viðskiptablaðið og Andríki.is upp á því að Birgitta Jónsdóttir yrði utanríkisráðherra Pírata, eitthvað sem hvorki Birgitta né aðrir Píratar kannast við. Þeim bara datt þetta í hug, og slengja þessu fram í formi fullyrðinga vegna þess eins að þeim datt það í hug og líst greinilega ekki vel á það. Hærri er standardinn ekki þar á bæ.“
Þá segir Helgi einnig:
„Nú, þetta er svosem gott og blessað, út af fyrir sig. Í lýðræðislegri umræðu er sjálfsagt að takast bara á við vitleysu. Vandinn er helst sá að þessir vefir, sem eru mest fyrir þessa tegund af óheiðarleika, bjóða ekki upp á neins konar kommentakerfi. Þeir spyrja vitaskuld ekki fólkið sem þeir fjalla um, væntanlega af ótta við að krassandi sjokkfréttin þeirra sé röng, þannig að það er engin augljós leið til þess að veita fólkinu sem verður fyrir umfjölluninni einhverja leið til að svara fyrir sig. Því þora þeir ekki“
Pawel Bartoszek þingmaður Viðreisnar er ekki sáttur og segir við Elliða:
„Æi… ekki með þessu morðtákni… það er of mikið …“
Elliði svarar:
„Staðreyndin er sú að sá sem setti þessa mynd saman hefur væntanlega haft hugfast að UVG hefur hvergi verið feimin við að nota þessi tákn. Væntlega á engan vegin til að hefja til vegs og virðingar morð og illsku heldur þeirrar hugmyndafræði sem merkinu tengjast. Hér er til dæmis mynd af köku sem Una Hildardóttir gjaldkeri VG deildi og fjallað var um í kvöldfréttum Stöðvar 2.“