fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
FréttirLeiðari

Smjörklípa vogunarsjóða

Ritstjórn DV
Föstudaginn 8. júlí 2016 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stærstu eigendur aflandskróna kusu að taka ekki þátt í nýafstöðnu gjaldeyrisútboði Seðlabankans. Fjárfestingarsjóðirnir munu því um ófyrirséðan tíma þurfa að sitja um kyrrt hér á landi með fjármuni sína á vaxtalausum reikningum. Af viðbrögðum sjóðanna að dæma er ljóst að þeim hugnast ekki þessi niðurstaða – og hafa þeir í hyggju að láta reyna á rétt sinn fyrir dómstólum. Verði þeim að því. Sú vegferð mun hitta þá sjálfa hvað verst fyrir.

Förum yfir nokkrar staðreyndir. Þeir sem hafa átt aflandskrónur á undanförnum árum hafa haft forgang á aðra fjármagnseigendur sem hafa verið fastir undir höftum. Háir vextir hafa gert þeim mögulegt að flytja úr landi samtals tugi milljarða á liðnum árum og þá áttu þeir þess einir kost að selja krónueignir sínar í skiptum fyrir erlendan gjaldeyri í 23 gjaldeyrisútboðum sem Seðlabankinn hefur haldið. Málflutningur fulltrúa sjóðanna um að stjórnvöld séu með aðgerðum sínum að hygla innlendum aðilum á kostnað aflandskrónueigenda er því fráleitur.

Með frumvarpi fjármálaráðherra um meðferð aflandskrónueigna var tryggt að hægt yrði að hefja almenna haftalosun á Íslendinga, óháð þátttöku í gjaldeyrisútboði Seðlabankans. Frumvarpið felur það ekki í sér, öfugt við það sem haldið er fram af hagsmunavörðum bandarísku sjóðanna, að verið sé að þrengja að fjárfestingarheimildum frá því sem áður var. Þvert á móti er verið að auka fjárfestingarkosti þeirra og úttektarheimildir sömuleiðis innleiddar. Þá felast jafnframt engin ný tíðindi í því að aflandskrónueigendur muni búa við lágvaxtaumhverfi. Þær aðstæður voru skapaðar fyrir meira en ári – í aðdraganda þess að kynnt var heildstæð áætlun stjórnvalda um losun hafta á raunhagkerfið – þegar undanþága þeirra til fjárfestinga í íslenskum verðbréfum var nánast alfarið einskorðuð við ríkisvíxla.

Þrátt fyrir dræma þátttöku í útboði Seðlabankans, þar sem aflandskrónustabbinn minnkaði aðeins úr 319 milljörðum í 238 milljarða, þá er rangt að draga þá ályktun að slíkt sé til marks um að illa hafi tekist til við framkvæmd útboðsins. Vissulega má færa fyrir því rök að æskilegt hefði verið að fleiri aflandskrónueigendur, meðal annars í ljósi mikils og ört vaxandi gjaldeyrisforða, hefðu kosið að fallast á skilyrði Seðlabankans og selt eignir sínar í útboðinu í skiptum fyrir erlendan gjaldeyri. Þegar litið er til fyrri gjaldeyrisútboða bankans – meðalgengið í þeim var 219 krónur fyrir hverja evru – þá stóð þeim núna til boða útganga úr höftum á afar hagstæðu gengi. Þótt stærstu eigendur aflandskróna hafi kosið að nýta sér ekki þann glugga þá skiptir það ekki sköpum. Útboðið sjálft, og þátttaka í því, var aldrei aðalatriðið í áætlun stjórnvalda til að leysa aflandskrónuvandann heldur markaði það einungis endapunkt á forgangsröð sem hefur hingað til hyglað aflandskrónueigendum. Það sem öllu máli skiptir er að sköpuð hefur verið trúverðug umgjörð í kringum aflandskrónueignir. Girt er fyrir þann möguleika að þær geti valdið óstöðugleika þegar stigin verða afgerandi skref á næstunni við að opna stórlega fyrir fjármagnsviðskipti Íslendinga.

Því verður vart trúað að íslenskir ráðgjafar aflandskrónueigenda geri sér ekki grein fyrir þessum einföldu sannindum.

Allt tal bandarískra vogunarsjóða, endurómað af ráðgjöfum þeirra í íslenskum fjölmiðlum, um að aðgerðum stjórnvalda fylgi einhver stórkostleg lagaleg áhætta er byggt á afar veikum grunni og að ríkið kunni að standa frammi fyrir greiðslufalli verður að teljast í besta falli kjánaleg umræða. Lánshæfi íslenska ríkisins fer um þessar mundir hækkandi og skuldir ríkissjóðs eru greiddar niður af meiri hraða en áður hefur sést. Erlendir bankar hafa í samskiptum sínum við Seðlabankann gert engar athugasemdir við áætlun stjórnvalda og þá hefur matsfyrirtækið Moody’s tilkynnt að það muni á næstunni endurmeta lánshæfi Íslands með frekari hækkun í huga. Höfuðstóll ríkisskuldabréfa, sem aflandskrónueigendur fjárfestu í eftir setningu hafta, verður enda greiddur út í krónum að fullu þegar bréfin verða á gjalddaga. Aflandskrónueigendum verði aftur á móti ekki heimilað í kjölfarið að skipta þeim yfir í gjaldeyri miðað við skráð gengi krónunnar. Það jafngildir hins vegar augljóslega ekki greiðslufalli á skuldbindingum ríkisins.

Því verður vart trúað að íslenskir ráðgjafar aflandskrónueigenda geri sér ekki grein fyrir þessum einföldu sannindum þrátt fyrir að þeir kjósi að halda á lofti þeirri smjörklípu að hætta sé á greiðslufalli ríkisins til að beina sjónum frá þeirri slæmu stöðu sem sjóðirnir hafa sjálfviljugir komið sér út í. Þótt flestir sjái í gegnum bullið þá er það ekki einhlítt. Það hefur verið ótrúlegt að sjá ýmsa íslenska fjölmiðla, einkum og sér lagi RÚV, taka gagnrýnislaust undir þennan dæmalausa málflutning hagsmunavarða aflandskrónueigenda. Þegar litið er til forsögunnar þá ætti sú staðreynd hins vegar kannski ekki að koma mikið á óvart.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Snorri og Patrik vekja hneykslun: Konan hugsi um börnin og karlinn um peningana – „Gömlukallaraus í ungum mönnum“

Snorri og Patrik vekja hneykslun: Konan hugsi um börnin og karlinn um peningana – „Gömlukallaraus í ungum mönnum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þetta er umfjöllunin sem María Sigrún fékk ekki birta í Kveik

Þetta er umfjöllunin sem María Sigrún fékk ekki birta í Kveik
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Kári Hansen skilaði inn meðmælum til forseta Íslands rafrænt

Kári Hansen skilaði inn meðmælum til forseta Íslands rafrænt
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Löggan fellir niður sektir á þá sem voru gómaðir á nagladekkjum í vikunni

Löggan fellir niður sektir á þá sem voru gómaðir á nagladekkjum í vikunni